Skagastelpa Lilja flutti aftur á Akranes eftir 15 ára fjarveru.
Skagastelpa Lilja flutti aftur á Akranes eftir 15 ára fjarveru.
Lilja Sigríður Hjaltadóttir á afmæli í dag. Hún er í mastersnámi í grunnskólakennslu við Háskóla Íslands, en hún kláraði grunnnámið í vor.

Lilja Sigríður Hjaltadóttir á afmæli í dag. Hún er í mastersnámi í grunnskólakennslu við Háskóla Íslands, en hún kláraði grunnnámið í vor. „Ég sérhæfi mig í yngribarnakennslu, en ég hef mikinn áhuga á öllu sem tengist málþroska og lestrarkunnáttu barna. Ég er í fjarnámi þannig að ég þarf að mæta í nokkrum lotum yfir önnina, sit annars heima og læri í gegnum fjarbúnað.“

Lilja ætlar að taka því rólega á afmælinu og verður heima í faðmi fjölskyldunnar. Það er ekki stefnt á ferðalög í tilefni af afmælinu en í sumar fór fjölskyldan norður í land. „Maðurinn minn og pabbi keppa einu sinni á ári í sjóstangveiði á Siglufirði og við gerum ferðalag úr því, leigjum okkur hús og fórum í ár m.a. til Ólafsfjarðar og Akureyrar.“

Áður en Lilja fór í skóla vann hún hjá Samskipum í fjórtán ár í fjárreiðudeild. „Mig langaði að láta gamlan draum rætast að fara í kennaranám og ákvað að drífa í því.“ Fjölskyldan ákvað líka að flytjast á Akranes; hún er þaðan en hafði búið í Reykjavík í 15 ár. „Það er mjög gott að ala upp börn á Skaganum og það var stór þáttur í að flytjast hingað. Það er einnig gott að hafa ömmu og afa barnanna í nágrenninu.“

Sambýlismaður Lilju er Sigurjón Már Birgisson, verkefnastjóri heildsölu hjá Vodafone. Börn þeirra eru Kristófer Aron átta ára, Eva Þóra fjögurra ára og Sigurður Már eins árs, að verða tveggja. peturatli@mbl.is