Einvígi FH og Stjörnunnar heldur áfram á morgun og Fram, Fjölnir og Keflavík þurfa mest allra á stigum að halda í harðri fallbaráttunni þegar 20. umferðin í Pepsi-deild karla verður leikin á morgun.
Þar mætir toppur botni, ef svo má að orði komast, því FH tekur á móti Fram í Kaplakrika og Stjarnan heimsækir Fjölnismenn í Grafarvogi. FH og Stjarnan eru með 45 stig á toppnum en Fjölnir og Keflavík eru með 19 stig og Fram 18 í sætum níu til ellefu.
Fylkir, Breiðablik og ÍBV geta reyndar öll ennþá fallið. Fylkir heimsækir Keflavík, Breiðablik mætir Víkingi, KR tekur á móti ÍBV og Valur leikur við Þórsara.
Hér fyrir ofan má sjá úrvalslið Morgunblaðsins úr 14. umferðinni, en henni lauk í fyrradag þegar Stjarnan vann Víking og FH gerði jafntefli við KR.
Hinir fjórir leikir umferðarinnar fóru fram 6. ágúst en þá vann Valur sigur á Fjölni, 4:3, Breiðablik og Keflavík skildu jöfn, 4:4, Fram vann Þór 2:0, og Fylkir lagði ÍBV, 3:1. Daði Bergsson úr Val og Aron Sigurðarson úr Fjölni fengu þá tvö M hvor fyrir frammistöðu sína, en sömu einkunn fengu svo Ingvar Jónsson úr Stjörnunni og Atli Guðnason úr FH í leikjunum í fyrradag. vs@mbl.is