Mælt er með sölu á bréfum Sjóvár í nýju virðismati IFS Greiningar, en félagið var skráð á aðallista Kauphallarinnar fyrr á þessu ári.

Mælt er með sölu á bréfum Sjóvár í nýju virðismati IFS Greiningar, en félagið var skráð á aðallista Kauphallarinnar fyrr á þessu ári. IFS metur virði félagsins um 18,2 milljarða króna og er matsgengi 11,4 krónur á hlut, en gengi félagsins var 12,1 króna á hlut í lok dags í gær.

Í virðismati IFS kemur fram að Sjóvá hafi lagt áherslu á vöxt iðgjalda sem leiði til aukins markaðskostnaðar. Hafi iðgjöld Sjóvár vaxið á meðan þau hafi dregist saman hjá TM og VÍS. Hins vegar hafi kostnaður tryggingarekstrar hjá Sjóvá hækkað umtalsvert á sama tíma.

IFS gerir ráð fyrir að samsett hlutfall verði 95% hjá Sjóvá á þessu ári. Hlutfall undir 100% þýðir að hagnaður sé af tryggingastarfsemi. IFS gerir ráð fyrir að með batnandi efnahagsástandi muni tjónakostnaður aukast og samsett hlutfall hækka upp fyrir 100%. Afkoma fjárfestingarstarfseminnar muni þá skipta höfuðmáli í mati á virði félagsins.