Þetta verður blóðugt, farðu með barnið frá sjónvarpinu, þetta er ekki gott fyrir svefninn,“ sagði karlmaðurinn á heimilinu þegar Færeyingar voru í þann mund að fara að murka lífið úr grindhval með rekum.

Þetta verður blóðugt, farðu með barnið frá sjónvarpinu, þetta er ekki gott fyrir svefninn,“ sagði karlmaðurinn á heimilinu þegar Færeyingar voru í þann mund að fara að murka lífið úr grindhval með rekum. „Sinn er hver siðurinn í hverju landi,“ sagði þáttastjórnandinn Gísli Örn Garðarsson í matreiðsluþáttunum Nautnir norðursins af þessu tilefni.

Þetta eru fræðandi og skemmtilegir matreiðsluþættir um matarhefðir, -venjur og nýstárlega nálgun íbúa á norðurslóðum í matargerð. Gísli heimsækir Grænland, Færeyjar, Noreg og Ísland. Áherslan er á hráefnið sem er að finna í og við Norður-Atlantshafið. Hið nýja norræna eldhús skipar einnig sinn sess.

Síðasti þáttur sem sýndur var á fimmtudaginn var vægast sagt vinalegur. Þar kynnti Gísli sér verkunaraðferðir við hin ýmsu hráefni. Hann talaði íslensku og Færeyingarnir færeysku. Allir skildu alla – eða næstum því. Það er alltaf jafn gaman að sjá og heyra skyldleikann okkar við frændur okkar.

Það er ekki launungarmál að dýrin, sem við mörg hver leggjum okkur til munns, þurfa að drepast svo unnt sé að gera slíkt. Þó Víkverji hafi sjálfur verið mikið í sveit í æsku og orðið margoft vitni að slátrun, bæði sauðfjár og nautgripa, þá brá honum við að sjá rekuna rekna inn í auga grindhvalsins og rolluna og hérann skotinn.

Þrátt fyrir þessa vitneskju þá er Víkverji ekki alveg tilbúinn að gerast grænmetisæta. Honum finnst kjöt ennþá of gott til að geta látið það á móti sér. Jú, jú mikið rétt – sjálfselska á háu stigi. Það var reyndar eitt sem snart hann örlítið: þegar hann grætti fjögurra ára afkvæmi sitt er hann fræddi það um hvaðan lambalærið væri komið sem var á boðstólum. Víkverji hefur haft að leiðarljósi að svara af hreinskilni þegar hann er spurður – eða oftast nær...