Vilhjálmur Hjálmarsson fæddist á Brekku í Mjóafirði fyrir einni öld, sonur Hjálmars Vilhjálmssonar, útvegsbónda á Brekku, og k.h., Stefaníu Sigurðardóttur húsfreyju. Hjálmar var sonur Vilhjálms Hjálmarssonar, b.

Vilhjálmur Hjálmarsson fæddist á Brekku í Mjóafirði fyrir einni öld, sonur Hjálmars Vilhjálmssonar, útvegsbónda á Brekku, og k.h., Stefaníu Sigurðardóttur húsfreyju.

Hjálmar var sonur Vilhjálms Hjálmarssonar, b. á Brekku, af Pamfílsætt, bróður Maríu, móður Gísla Kristjánssonar útgerðarmanns. Stefanía var systir Bjargar, ömmu Tómasar, fyrrv. ráðherra og Margrétar, móður Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns. Stefanía var dóttir Sigurðar Stefánssonar, b. á Hánefsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttir frá Brekku.

Eiginkona Vilhjálms var Anna Margrét Þorkelsdóttir frá Galtastöðum í Hróarstungu sem lést 2008 og eignuðust þau fimm börn, Hjálmar fiskifræðing sem lést 2011; Pál sjómann; Sigfús Mar, bónda á Brekku; Stefán matvælafræðing og Önnu kennara.

Vilhjálmur lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann var bóndi á Brekku til 1967, kennari og síðar skólastjóri Barnaskóla Mjóafjarðar, alþm. Framsóknarflokksins 1949-56, 1959 og 1967-79 og menntamálaráðherra 1974-78.

Vilhjálmur var bókavörður Lestrarfélags Mjófirðinga í 70 ár, framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Mjóafjarðar, oddviti Mjóafjarðarhrepps, fulltrúi á fundum Stéttarsambands bænda og sat í stjórn þess og í Framleiðsluráði landbúnaðarins, var formaður skólanefndar Húsmæðraskólans á Hallormsstað, sat í sýslunefnd Suður-Múlasýslu, var formaður Kjördæmissambands framsóknarmanna á Austurlandi, fulltrúi hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og formaður þess í tvö ár. Þá sat hann í kirkjuráði 1976-82 og var formaður Útvarpsráðs.

Vilhjálmur sendi frá sér á efri árum 23 bækur um þjóðfræði, mannlífsþætti og sögu síns byggðarlags. Hann var virtur og dáður af öllum sem til hans þekktu, fyrir einstaka geðprýði, hógværð, vinsemd og einlægni, fróðleik sinn, ríka frásagnargáfu og skemmtilegan húmor.

Vilhjálmur lést 14.7. 2014.