Pálmi Kárason fæddist 29. maí 1944. Hann lést 25. ágúst 2014. Útför Pálma fór fram í kyrrþey.

Elsku afi minn.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farinn. Þú sem varst alltaf svo góður og mér þótti svo vænt um þig. Það var alltaf svo gaman að koma í reitinn þinn, hitta þig og fylgjast með þér brasa við hitt og þetta. Þessu mun ég aldrei gleyma.

Þú varst alltaf svo úrræðagóður og ef eitthvað fór úrskeiðis þá hélstu áfram þar til lausnin var fundin, þú gafst aldrei upp. Einnig varstu svo hjálpsamur og duglegri mann var erfitt að finna. Öllum í kringum þig þótti svo óskaplega vænt um þig, því þú vildir alltaf öllum gott.

Í þessari baráttu seinasta árið varstu svo sterkur og ég heillaðist af þér fyrir það. Nú veit ég að þú þarft ekki lengur að þjást og getur gert það sem þig langar til, án þess að neitt hindri þig. Það var sárt að þurfa að kveðja þig, en ég get huggað mig við það að núna líður þér betur. Þú situr eflaust í gamla stólnum þínum fyrir austan þar sem þér leið best, með hamar í hendi að rétta nagla og drekka kaffið þitt, og núna færðu loksins tækifæri til að klára skúrinn þinn.

Þó svo að þú hafir þurft að yfirgefa þennan heim mun minning þín ávallt lifa í hjarta mínu. Þú varst góður maður og við áttum svo margar góðar stundir í þessu lífi.

Líney Lilja.