Rússar og Ríki íslams ógna NATÓ – segir Anders Fogh

Einn merkasti maður okkar samtíma er án efa Franz páfi í Róm. Hann er valinn af fáum en er í betri tengslum við tíðarandann en flestir þeirra, sem kjörnir eru til forystu af fjöldanum. Páfinn hafði orð um það á dögunum að þriðja heimsstyrjöldin stæði yfir, þótt með brotakenndum hætti væri.

Það er mikið til í þessari skoðun páfa. Við á Vesturlöndum höfum tilhneigingu til að líta svo á að stríð geti ekki kallast heimsstyrjöld nema það nái með beinum hætti til okkar heimshluta. En staðreynd er að stríð hefur staðið yfir áratugum saman með hléum í Miðausturlöndum og Mið-Asíu með beinni og óbeinni þátttöku Vesturlandaþjóða og stundum Rússa. Þetta stríð hefur svo stundum náð til Vesturlanda, eins og árásin á turnana tvo í New York sýndi. Afleiðingar stríðsátaka birtast í Evrópu í vaxandi straumi flóttafólks, sem leitar friðar og betra lífs en leiðir augljóslega til úlfúðar og kannski andstöðu þeirra sem þar eru fyrir.

Vesturlönd geta ekki þvegið hendur sínar af stríðsátökum í Miðausturlöndum og Asíu. Að sumu leyti liggja rætur þeirra í afskiptum sérstaklega Breta og Frakka af þessum löndum á sínum tíma og á síðari áratugum hafa Bandaríkjamenn komið til sögunnar. Þótt markmið þeirra hafi verið að stilla til friðar hefur afleiðingin af afskiptum þeirra oftar en ekki leitt til aukinna átaka.

Þess vegna vinnur Obama Bandaríkjaforseti nú markvisst að því að kalla bandaríska heri heim, sem sumir telja í samræmi við óskir almennings vestan hafs en aðrir líta á sem aumingjaskap hjá forsetanum.

Fyrir nokkrum dögum kynnti Anders Fogh Rasmussen, fráfarandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, til sögunnar nýtt hættumat bandalagsins. Kjarni þess er sá að aðildarríkin standi frammi fyrir hættu úr tveimur áttum. Annars vegar frá Rússlandi. Hins vegar frá Ríki íslams.

Þetta er grundvallarbreyting á hættumati á innan við áratug. Þegar bandaríska varnarliðið hvarf frá Íslandi 2006 lýstu bandarískir ráðamenn þeirri skoðun að hvorki Íslandi né Bandaríkjunum stæði nokkur ógn af Rússum, en þá var jafnvel til umræðu að Rússar gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Nú er öldin önnur. Nú er ljóst að Rússar herbúast á ný og leggja ekki sízt áherzlu á að byggja upp herstyrk sinn á norðurslóðum m.a. með enduropnun herstöðva á eyjum í Norður-Íshafi. Þeir halda uppi stöðugum þrýstingi á Úkraínu, hafa þegar lagt undir sig Krímskaga, sem áður tilheyrði Úkraínu og hafa uppi tilburði til að láta finna fyrir sér á landamærum Eystrasaltsríkjanna.

Nýjustu fréttir af þeim vígstöðvum eru þær að Pútín, Rússlandsforseti, hafi sagt í samtali við Poroshenko, forseta Úkraínu, að hann gæti með hersveitum sínum lagt undir sig Kiev, Riga, Vilnius og Tallinn, Varsjá og Búkarest á tveimur dögum.

Ráðamenn á Vesturlöndum líta svo á, að Ríki íslams ógni þeim löndum. Ekki sízt á þann veg að múslimar, sem hafi flutt til þessara landa, þar á meðal Norðurlanda og Bretlandseyja, en farið aftur til sinna heimaslóða til þess að taka þátt í stríði, snúi svo til baka á ný og grípi til vopnaðra aðgerða, hvort sem er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eða öðrum nálægum löndum. Ríki íslams ögrar svo Vesturlandabúum með því að lífláta fólk frá þeim sömu löndum fyrir framan myndavélar.

Sú ögrun leiðir aftur til þess í lýðræðisríkjum Vesturlanda, að stjórnmálaflokkum, sem vilja setja takmarkanir á innflutning fólks frá öðrum heimsálfum vex fiskur um hrygg eins og Þjóðfylking Marine Le Pen í Frakklandi er glöggt dæmi um.

Lykilþáttur í þessari þróun er, að forystusveitir slíkra flokka telja sig hafa fundið sálufélaga í Vladimir Pútín og bandalagi hans við rússnesku Rétttrúnaðarkirkjuna. Og þá fer að styttast í að áþekk staða komi upp í Evrópu og fyrir hundrað árum, þegar hreyfingar fasista og nazista fóru að skjóta rótum. Þá voru Gyðingar ofsóttir og það í fleiri löndum en í Þýzkalandi. Nú gætir tilhneiginga til að fordæma fólk af trúarlegum ástæðum, ekki sízt ef um múslima er að ræða.

Þetta er hættuleg þróun. Og í ljósi hennar er ekki fráleitt hjá Franz páfa að setja fram þá skoðun að þriðja heimsstyrjöldin standi yfir, þótt með öðrum hætti sé en tvær hinar fyrri. Því má ekki gleyma að þær tvær heimsstyrjaldir voru háðar með gjörólíkum hætti.

Hverjir eru hagsmunir okkar Íslendinga, þegar við horfum úr fjarlægð á þetta stóra leiksvið?

Þeir hljóta að vera að búa áfram í friði í okkar landi og gæta þess að dragast ekki inn í aldagamlar deilur þjóðanna á meginlandi Evrópu og eyjunnar handan við Ermarsundið.

Við verðum líka að gæta þess að haga samskiptum okkar við það fólk, sem hingað hefur flutzt búferlum frá fjarlægum löndum á þann veg að sómi sé að um leið og við gerum sömu kröfur til þess.

Fyrir tæpum áratug sat ég ráðstefnu stjórnmálamanna, embættismanna og fræðimanna á Suður-Englandi, þar sem einn ræðumanna svaraði spurningu um hvaðan stöðug aukning kæmi í raðir herskárra múslima. Svar hans var: þeir koma ekki frá Mið-austurlöndum heldur af götum brezkra borga, þar sem þeir hafa alizt upp við fátækt og skort.

Alþingismenn ræða varasama þróun í helztu nágrannalöndum okkar nánast ekki neitt og sýnast ekki veita henni nokkra athygli.

Hún er þó nú orðið ein helzta röksemdin fyrir því að við eigum að draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu formlega til baka.

Við eigum ekkert erindi inn í gamlar erjur þessara þjóða.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is