[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Inga fæddist á Sauðárkróki 20.9. 1984: „Fyrstu æviár mín var fjölskyldan töluvert á faraldsfæti.

Sigríður Inga fæddist á Sauðárkróki 20.9. 1984: „Fyrstu æviár mín var fjölskyldan töluvert á faraldsfæti. Við fluttum af Króknum þegar ég var á öðru árinu, áttum heima í Reykjavík næstu tvö árin, síðan í Óðinsvéum önnur tvö ár þar sem pabbi var í mjólkurtækninámi, vorum síðan enn önnur tvö ár á Sauðárkróki og síðan í fjögur ár í Neskaupstað, 1990-94. Þar hóf ég grunnskólagönguna og eignaðist vinkonur sem ég hef haldið sambandi við síðan. Loks fluttum við svo aftur á Sauðárkrók þar sem ég lauk grunnskólanum, naut unglingsáranna og stundaði nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.“

Með heimilisstörfin á hreinu

Sigríður Inga lauk stúdentsprófi frá FNV vorið 2004 en hafði þá auk þess útskrifast frá Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað: „Ég var orðin svolítið þreytt á bóknáminu árið 2002 og ákvað því að taka mér smá frí og fara í Hússtjórnarskólann.“

Fannst þér það ekki gamaldags?

„Nei, öðru nær. Þetta var nú bara ein önn, en afskaplega skemmtilegt og hagnýtt nám sem ég hef búið að síðan. Ég hef alltaf haft gaman af hannyrðum, hafði unnið í mötuneytum og haft áhuga á matreiðslu. Námið höfðaði því til mín á ýmsan hátt. En auk þess er þetta nám mikið þarfaþing fyrir allt ungt fólk sem ætlar að halda heimili á sómasamlegan hátt án þess að kaupa öll þrif, senda þvotta í þvottahús og panta pitsu í allar máltíðir. Gott heimilishald er afar fjölbreytilegt enda í mörg horn að líta. En það er engu að síður öllum afar mikilvægt, ekki síst börnunum.“

Sigríður Inga lærði táknmálsfræði við HÍ 2005-2006 en fór síðan í grunnnám í félagsráðgjöf við sama skóla og útskrifaðist vorið 2010.

Á námsárunum sinnti Sigríður Inga ýmsum sumarstörfum. Hún var m.a. aðstoðarmaður í mötuneyti Sjálfsbjargarheimilisins í Reykjavík, vann við ferðaþjónustu á Hofsósi, var leiðbeinandi við leikskólann Efstahjalla í Kópavogi, var aðstoðmaður í mötuneyti Suðurverks við Kárahnjúka og verkamaður hjá Alcoa Fjarðaáli.

Krefjandi en gefandi starf

Sigríður Inga hefur starfað hjá sveitarfélaginu Fjarðabyggð frá 2010, við félagsþjónustu og barnavernd. Hún stundar nú diplómanám í barnavernd við HÍ með starfi sínu.

„Ég er nú ráðgjafi á fjölskyldusviði sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Þetta er oft erfitt og mjög krefjandi starf, en jafnframt afar gefandi þegar vel gengur. Það má segja að maður kynnist hér öllu litrófi mannlífsins og viðbrögðin við starfinu geta orðið býsna sterk, allt frá andúð til mikils og einlægs þakklætis. En það sem er gefandi og uppbyggilegt við starfið er vonin og vissan um það að maður sé á endanum að láta gott af sér leiða.“

Sigríður Inga sat í stjórn Hendingar, nemendafélags nemenda í táknmálsfræði við HÍ, og í stjórn Mentors, nemendafélags félagsráðgjafanema.

Þegar starfinu sleppir sest Sigríður Inga við hannyrðir, prjónar, saumar út og heklar: „Svo er ég nýbyrjuð að æfa badminton með Badmintonfélagi Norðfjarðar. Það er svo sannarlega sport við mitt hæfi.“

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar Ingu er Þorvaldur Einarsson, f. 28.4. 1980, verkamaður og eigandi Hljóðkerfaleigu Austurlands. Foreldrar hans eru Einar Þorvaldsson, f. 31.1. 1949, trésmíðameistari í Neskaupstað, og Björk Bjarnadóttir, f. 23.1. 1952, húsfreyja í Reykjanesbæ.

Sonur Sigríðar Ingu og Þorvalds er Einar Björn Þorvaldsson, f. 8.3. 2011.

Bróðir Sigríðar Ingu eru Þorvaldur Ingi Björnsson, f. 19.10. 1986, húsasmiður á Húsavík.

Foreldrar Sigríðar Ingu eru Björn Marinó Pálmason, f. 14.10. 1962, mjólkurfæðingur, og Kristín Þorvaldsdóttir, f. 4.4. 1964, skrifstofukona. Þau eru búsett á Fljótsdalshéraði.