Sjónarspil Bjarminn frá Holuhrauni sást alla leið til Möðrudals í fyrrakvöld og steig þar dans við norðurljósin.
Sjónarspil Bjarminn frá Holuhrauni sást alla leið til Möðrudals í fyrrakvöld og steig þar dans við norðurljósin. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Framvinda eldgossins í Holuhrauni er með svipuðum hætti og síðustu daga. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að gangur gossins sé svipaður og hann hafi verið frá byrjun.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Framvinda eldgossins í Holuhrauni er með svipuðum hætti og síðustu daga. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að gangur gossins sé svipaður og hann hafi verið frá byrjun. Þá séu engin merki um það ennþá að gosinu fari að ljúka.

Skjálftavirkni hefur sömuleiðis verið með svipuðum hætti og áður, og er enn öflug skjálftavirkni í öskjunni og við nágrenni Bárðarbungu. Tveir tiltölulega stórir skjálftar voru í gær, og kom sá fyrri um kl. 6.44 í gærmorgun. Hann mældist 4,7 að stærð og voru upptök hans við norðausturbrún öskjunnar. Stuttu fyrir klukkan þrjú um eftirmiðdaginn kom svo annar skjálfti á svipuðum slóðum, en sá mældist 4,3 að stærð. Magnús Tumi segir þessa skjálftavirkni vera svipaða og verið hefur, og engar vísbendingar að fá um væntanleg goslok frá þeim. „Það verður bara að taka einn dag í einu,“ segir Magnús Tumi.

Mengun af völdum gossins var einkum norður af gosstöðvunum. Veðurstofan gerir ráð fyrir því að í dag megi búast við að mengunin verði suðaustur af gosstöðvunum.

Auka vöktun á styrk SO 2

Umhverfisstofnun tilkynnti í gær að hún myndi í samstarfi við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra auka stórlega vöktun á styrk brennisteinsdíoxíðs fá eldgosinu. Segir í tilkynningunni að vegna gossins hafi verið unnið að því undanfarna daga að þétta net mælitækja sem mæli magn brennisteinsdíoxiðs, en venjulega fari slíkar mælingar eingöngu fram í nágrenni stóriðjufyrirtækja.

Þá kemur einnig fram að almannavarnaryfirvöld hafi leitað til Landsvirkjunar, Alcoa, Norðuráls og Elkem um að lána hluta af mælitækjum sínum til þess að hægt væri að þétta netið, og brugðust fyrirtækin öll vel við beiðninni.

Í heildina verða alls 20 nettengdir mælar sem gefa upplýsingar um styrk brennisteinsdíoxíð, og verður hægt að fylgjast með niðurstöðum mælinganna á heimasíðunni www.loftgæði.is.

Þá geri áætlanir ráð fyrir staðsetningu nýrra mæla á 23 stöðum til viðbótar, í samstarfi við sveitarstjórnir á hverjum stað. Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra verður þar að auki með 17 mæla á sínum snærum, og verða því um 60 mælar í notkun um land allt.

Neyðarbúnaður fluttur til

Landsnet tilkynnti jafnframt í gær að stálturnar og annar neyðarbúnaður hefði verið fluttur að tengivirkjum fyrirtækisins við Búrfell og Sultartanga vegna flóðahættu. Tilgangurinn er sá að auka viðbragðsgetu og stytta viðgerðartíma, ef til þess kemur að háspennulína Landsnets á svæðinu gefi sig í hamfaraflóði af völdum hugsanlegs eldgoss í Bárðarbungu.

Þá voru tveir flutningabílar sendir til Egilsstaða í fyrradag með neyðarbirgðir til viðbótar við það viðgerðarefni sem þegar hefur verið flutt til Norðausturlands, þannig að einnig verði hægt að koma austan að með viðgerðarefni ef kemur til flóðs í Jökulsá á Fjöllum.