Líkur eru til þess að mannkyninu haldi áfram að fjölga það sem eftir er af þessari öld og verði um ellefu milljarðar árið 2100. Þetta er niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknar.
Jarðarbúar eru nú um sjö milljarðar en áður hafði verið talið að mannfjöldinn næði jafnvægi í um níu milljörðum í kringum árið 2050. Ransóknin bendir hins vegar til þess að um 70% líkur séu á að mannkyninu fjölgi áfram umfram það. Adrian Raftery, prófessor við Háskólann í Washington, sem fór fyrir hópnum sem rannsakaði tölurnar, segir að áherslan á að bregðast við fjölgun mannkynsins hafi horfið vegna þess að mannfjöldaspár hafi gert ráð fyrir að vandamálið hyrfi.
„Sterk rök hníga nú að því að setja mannfjöldaþróun efst í forgangsröðina á heimsvísu. Fólksfjölgun keyrir áfram næstum því allt annað og hröð fjölgun getur gert alls konar vandamál erfiðari viðfangs,“ segir Raftery.
Til dæmis tengist fólksfjölgun skorti á heilsugæslu, fátækt, mengun, ófriði og glæpum.
Rannsakendurnir búast við að langmesta fjölgunin verði í Afríkulöndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Þar býr nú um milljarður manna en fjöldinn gæti verið á milli 3,5 og 5 milljarðar við lok þessarar aldar. Því hafði verið spáð að lægri fæðingartíðni í þessum löndum sem hófst í byrjun 9. áratugar síðustu aldar héldi áfram en sú hefur ekki orðið raunin. Í Nígeríu eignast konur til dæmis sex börn að meðaltali. Þá sýna ný gögn fram á að færri látast úr HIV og alnæmisfaraldrinum en gert hafði verið ráð fyrir.
kjartan@mbl.is
Eldri þjóðir
» Rannsóknin sýnir að yngri þjóðir munu glíma við sömu vandamál sem tengjast öldrun samfélagsins og Evrópulönd og Japan hafa gert.
» Í Brasilíu eru nú 8,6 manns á atvinnubærum aldri á móti hverjum íbúa yfir 65 ára. Hlutfallið verður 1,5 árið 2100.