[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í 2.

Í 2. umferð Evrópumóts taflfélaga í Bilbao á Spáni þar sem skákfélagið Huginn sendir býsna sterka sveit til leiks gerðist það sem lettneski stórmeistarinn Alexei Shirov gat aðeins hafa séð fyrir í sínum verstu martröðum – hann tapaði fyrir íslenskum skákmanni í annað sinn á stuttum tíma. Haustið 2011 tókst Hjörvari Steini Grétarssyni að leggja kappann á 2. borði í viðureign Íslands og Spánar á Evrópumóti landsliða í Porto Carras í Grikklandi. Einar Hjalti Jensson sem teflir á 4. borði fyrir Hugin er ekki neins hátt skrifaður og Hjörvar á sínum tíma en hefur engu að síður náð góðum árangri við skákborðið undanfarin ár. Hann er sterkur fræðilega og hefur getið sér gott orð fyrir að aðstoða menn við krefjandi verkefni. Þröstur Þórhallsson sem teflir á 3. borði fyrir Hugin þakkaði Einari alveg sérstaklega fyrir hjálpina við Íslandsmótið 2012.

Og Shirov er enginn aukvisi á skáksviðinu þó að hann tefli á 4. borði fyrir rússnesku sveitina Malakhite sem hefur innan sinna raða kappa á borð við Grischuk, Karjakin og Leko. Shirov sá aldrei til sólar í viðureigninni sem hér fylgir. Hann hefur kannski reiknað með að Einar Hjalti yrði auðveld bráð, hirti ekki um varnir sínar á drottningarvæng, en eftir að Einar náði frumkvæðinu sleppti hann aldrei takinu og vann sannfærandi sigur:

EM 2014; 2. umferð:

Einar Hjalti Jensson – Alexei Shirov

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. Bb5+

Afbrigði sem kennt er við Rossolimo. Einar Hjalti hefur ekki hug á að þræða refilstigu opnu Sikileyjarvarnarinnar með 3. d4.

3. ... Rc6 4. Rc3

Annar sjaldséður leikur, 4. O-O eða 4. c3 er mun algengari.

4. ... e5 5. d3 Rf6 6. h3 Be7 7. O-O O-O 8. Bc4 Be6 9. Bg5 Rd7 10. Bxe7 Dxe7 11. Rd5 Bxd5 12. Bxd5 Rb6 13. c3 Rxd5 14. exd5 Rb8 15. Db3 b6

Þessi leikur er ekki slæmur einn sér en sennilega hefur Shirov óskað sér þess síðar að geta tekið hann aftur. Veikleikinn sem myndast á c6-reitnum á eftir að reynast afdrifaríkur. Hann gat leikið 15. ... Rd7 en verður þá sennilega að sætta sig við jafntefli með þráleik: 16. Dxb7 Hab8 17. Dxa7 Ha8 18. Db7 Hfb8 19. Dc6 Hc8 20. Db7 Hcb8 o.s.frv.

16. Hae1 Rd7 17. Rd2 f5 18. f4 Df6?

Svartur virðist ekki hafa miklar áhyggjur af áðurnefndum veikleika á c6 ella hefði hann leikið Hac8 og haft hrókinn á c7.

19. Da4 Hf7 20. Rc4!

Skyndilega er svarta staðan allt að því óverjandi vegna hótunarinnar 21. Dc6.

20. ... Hd8 21. Dc6 exf4

Shirov hefur áreiðanlega vonast eftir 22 Rxd6?? sem hægt er að svara með 22. ... Rb8! t.d. 23. He8+ Hf8 24. Hxf8+ Kxf8 og vinnur mann. En Einar finnur öflugan leik.

22. He6! Dg5 23. Rxd6 Hff8 24. Rc4

Víkur fyrir d-peðinu. Einar gefur engin færi á sér.

24. ... Dg3 25. Hf3 Dh4 26. d6 Rf6 27. He7 Hc8 28. Db7 Hb8 29. Dxa7 b5 30. Re5 Ha8 31. Db7 Hxa2 32. Hxg7+

Það er ekki fyrr en nú sem hvítur hirðir g7-peðið. Takið eftir að hrókurinn á g7 valdar g2- peðið og þ.a.l. kóngsstöðuna.

32. ... Kh8 33. Hf1 Dh5 34. De7 Haa8 35. Hf7 Hxf7 36. Rxf7+ Kg8 37. Dxf6 Dxf7 38. Dg5+ Dg6 39. De7 He8 40. Dc7 He2

Svartur virðist vera að fá eitthvert mótspil en Einar er fljótur að bægja hættunni frá.

41. Dc8+ Kg7 42. Db7+ Kh6 43. Df3! Hd2 44. d7 Dg5 45. Dd5 f3 46. Dxf3 b4 47. h4!

- Góður lokahnykkur. Ef nú 47. ... Dxh4 þá kemur 48. De3+ o.s.frv.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is