Gunnar Finnsson fæddist 1. nóvember 1940. Hann lést 31. ágúst 2014. Útför Gunnars fór fram 10. september 2014.

Trygglyndur, heilsteyptur og eldklár með óbilandi sjálfsaga, seiglu og æðruleysi.

Þetta og margt fleira var vinur minn Gunnar Finnsson. Við kynntumst fyrir um 50 árum þegar báðir voru að hefja framhaldsnám í Bandaríkjunum og vorum við trúnaðarvinir upp frá því.

Ég held að Gunnar hafi verið lánsamur í lífinu, þrátt fyrir allt. Í stað þess að láta veikindi og fötlun frá æskuárum draga úr sér kjark og sjálfstæði efldist hann við hverja raun allt til æviloka.

Fötlunin skyldi ekki koma niður á námi eða starfi og oft fannst mér hann gjörsamlega griðalaus við sjálfan sig.

Hvers kyns sérmeðferð þoldi hann afar illa. Ekki má gleyma hvílík gæfa það var fyrir Gunnar að kynnast konu sinni, Kristínu, sem var hin ómissandi stoð og stytta í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.

Að fá að njóta vináttu einstaks manns er mikið lán og uppspretta gleði og þroska. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Gunnar Finnsson lifði lengur og afrekaði miklu meira en nokkurn óraði fyrir. En nú verða vinafundir okkar ekki fleiri; við þykjumst ekki lengur vera að leysa vandamál heimsins, leiðumst ekki lengur yfir ójöfnur á leið í eða úr Kaffivagninum.

Minn er skaðinn og sár er eigingjarn söknuðurinn.

Við Alexía vottum Kristínu, systkinum Gunnars og ástvinum öllum einlæga samúð.

Friðrik Sigfússon.