Börn Fáir foreldrar á Íslandi nýta sér möguleika á 13 vikna launalausu foreldraorlofi sem nýta má þar til barnið verður átta ára gamalt.
Börn Fáir foreldrar á Íslandi nýta sér möguleika á 13 vikna launalausu foreldraorlofi sem nýta má þar til barnið verður átta ára gamalt. — Morgunblaðið/Kristinn
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Frá árinu 2000 hefur foreldrum á Íslandi staðið til boða 13 vikna launalaust foreldraorlof vegna barna sem eru yngri en átta ára eða langveikra barna fram að 18 ára aldri.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Frá árinu 2000 hefur foreldrum á Íslandi staðið til boða 13 vikna launalaust foreldraorlof vegna barna sem eru yngri en átta ára eða langveikra barna fram að 18 ára aldri. Samkvæmt upplýsingum frá nokkrum stéttarfélögum og Fæðingarorlofssjóði er afar sjaldgæft að foreldrar nýti sér þennan rétt.

Kveðið er á um þennan rétt foreldra í lögum um fæðingar- og foreldraorlof en þar segir m.a. að rétturinn stofnist við fæðingu, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Rétturinn fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri, en verður virkur aftur ef barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun áður en það verður 18 ára. Hvort foreldri um sig á þennan sjálfstæða rétt og hann er ekki framseljanlegur. Taka má orlofið í einu lagi eða haga því með öðrum hætti.

Fjórir í Reykjavík

Ólíkt fæðingarorlofi þarf ekki að sækja um töku foreldraorlofsins til Fæðingarorlofssjóðs. Að sögn Leós Arnar Þorleifssonar, forstöðumanns sjóðsins, er taka orlofsins alfarið mál á milli foreldris og vinnuveitanda. „Það er einstaka sinnum leitað til okkar til að leita ráða í álitamálum varðandi foreldraorlofið, en annars kemur þetta lítið inn á borð til okkar.“ Að sögn Leós eru ekki til neinar staðfestar opinberar tölur um fjölda þeirra sem nýta sér þennan orlofsrétt.

„Okkar tilfinning er að þetta sé lítið nýtt. Meginástæðan er líklega að þetta er launalaust,“ segir Leó.

Örfáir einstaklingar

Að sögn Atla Atlasonar, yfirmanns launadeildar Reykjavíkurborgar er afar lítið um að starfsmenn borgarinnar nýti sér þennan orlofsrétt. „Það er eitthvað um þetta, en þetta hafa yfirleitt verið örfáir einstaklingar“, segir Atli. Allt árið í fyrra og það sem af er þessu ári hafa fjórir borgarstarfsmenn farið í launalaust foreldraorlof, allt eru það konur.

Elías G. Magnússon, forstöðumaður kjaramálasviðs VR, segir töku foreldraorlofs yfirleitt vera samkomulag starfsmanns og vinnuveitanda og því komi það yfirleitt ekki inn á borð félagsins. Fjöldi þeirra sem nýti sér orlofsréttinn liggi ekki fyrir, en ekki sé algengt að hann sér nýttur.

„Þetta orlof hefur einstaka sinnum verið tekið til að lengja fæðingarorlofið í þeim tilvikum þegar foreldri vill vera lengur en sex mánuði í fæðingarorlofi en nær ekki samkomulagi um það við vinnuveitanda sinn. Þá er þetta möguleiki,“ segir Elías.