Ég hef verið spurð hvort ég horfi á danska sjónvarpsþáttaröð sem RÚV sýnir og nefnist 1864 og fjallar um blóðugt stríð sem Danir eiga í við Þjóðverja. Nei, ég horfi ekki á þessa þáttaröð og mér hefur verið sagt að ég sé að missa af miklu, sem ég efast reyndar stórlega um því ég hef séð myndbrot. Það gerðist þegar ég lá uppi í sófa og var að lesa nýjar og snjallar örsögur eftir Gyrði Elíasson. Það var kveikt á sjónvarpinu en skrúfað fyrir talið því ég vildi enga hljóðtruflun meðan ég væri að lesa verk eftir einn af mínum uppáhaldshöfundum.
Eftir lok einnar sögunnar varð mér litið upp og sá að í sjónvarpinu var þessi danski þáttur á dagskrá. Og sjá, þar voru karlmenn að hafa kynmök við belju og virtust skemmta sér vel – sjálfsagt ómissandi atriði fyrir unnendur þessa danska þáttar. Ég lét mér fátt um finnast og sneri mér aftur að bókinni. Þegar mér varð aftur litið á sjónvarpið var berrassað par að stynja ógurlega úti í guðsgrænni náttúrunni. „Afskaplega danskt,“ hugsaði ég og hnussaði um leið af fyrirlitningu og sneri mér að næstu sögu Gyrðis þar sem skrímsli var að naga öxl af manni. Það fór notalegur hrollur um mig.
Kolbrún Bergþórsdóttir