Spenna á vinnumarkaði stendur í vegi fyrir lækkun stýrivaxta að mati greiningardeildar Arion banka. Í Markaðspunktum kemur fram að erfitt sé, ef ekki útilokað, fyrir peningastefnunefnd að lækka þá, í ljósi þeirrar óvissu sem sé framundan á vinnumarkaði.

Spenna á vinnumarkaði stendur í vegi fyrir lækkun stýrivaxta að mati greiningardeildar Arion banka. Í Markaðspunktum kemur fram að erfitt sé, ef ekki útilokað, fyrir peningastefnunefnd að lækka þá, í ljósi þeirrar óvissu sem sé framundan á vinnumarkaði.

Í komandi kjarasamningum sé líklegt að lagðar verði fram háar launakröfur sem séu umtalsvert umfram það sem verðbólgumarkmið Seðlabankans leyfi.

Auk þess fari líkur á launaskriði á hinum almenna vinnumarkaði vaxandi.

Greiningardeildin spáir óbreyttum stýrivöxtum að sinni, þótt hagvísar til skamms tíma litið færi rök fyrir að lækka megi vexti og að raunvaxtastigið sé of hátt. Bendir greiningardeildin á að verðbólga sé lág um þessar mundir og vel undir verðbólguspá Seðlabankans, gengið sé stöðugt og að hægja kunni á einkaneyslu á seinni helmingi ársins.

Hagfræðideild Landsbankans spáir einnig óbreyttum stýrivöxtum í Hagsjá sinni. Bendir hagfræðideildin á að breyttar uppgjörsaðferðir þjóðhagsreikninga kunni að hafa áhrif á mat á framleiðsluspennu og þar með á mögulega vaxtabreytingu.

Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður birt á miðvikudaginn kemur.