Bankar Gengishagnaður innlána á gjaldeyrisreikningum er skattlagður.
Bankar Gengishagnaður innlána á gjaldeyrisreikningum er skattlagður. — Morgunblaðið/Eggert
Of langt hefur verið gengið á ýmsum sviðum í íþyngjandi lagasetningu á fjármála- og vátryggingafyrirtæki samhliða innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu á regluverki fjármálamarkaðar og í eftirliti.

Of langt hefur verið gengið á ýmsum sviðum í íþyngjandi lagasetningu á fjármála- og vátryggingafyrirtæki samhliða innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu á regluverki fjármálamarkaðar og í eftirliti. „Gæta þarf þess að gera hlutina ekki of flókna, meðal annars með séríslenskum reglum til viðbótar við alþjóðlega regluverkið.“

Þetta segir í riti sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa gefið út og fjallar um ýmis íþyngjandi lagaákvæði og reglur á sviði fjármálamarkaðar sem hafa verið fest í sessi á síðustu árum.

Þannig er bent á að með breytingum á lögum um tekjuskatt árið 2010 var gengishagnaður á innlánsreikningum í erlendri mynt gerður staðgreiðsluskyldur. Þetta þýðir að einstaklingur eða lögaðili sem leggur erlendan gjaldmiðil inn á gjaldeyrisreikning í banka til þess að greiða síðar fyrir vöru eða þjónustu, eða borga inn á lán í sömu mynt, þarf að greiða fjármagnstekjuskatt ef gengi krónunnar veikist á tímabilinu á móti erlenda gjaldmiðlinum. Rýrnar því inneignin í hinum erlenda gjaldmiðli en sú skuldbinding sem greiða á með myntinni heldur verðgildi sínu. „Viðskiptavinir fjármálafyrirtækja sem verða fyrir þessari skattlagningu telja hana afar ósanngjarna,“ segir í ritinu.

SFF gera að umtalsefni þau ýmsu „sérfríðindi“ sem Íbúðalánasjóður nýtur umfram önnur fjármálafyrirtæki á íbúðalánamarkaði. Samkvæmt ákvæði í lögum um tekjuskatt mynda vaxtagjöld vegna lána til endurbóta á húsnæði einungis rétt til vaxtabóta ef lánið er tekið hjá ÍLS. Í ritinu segir að með þessu sé ríkið að misbeita valdi sínu í þágu aukinnar samkeppnishæfni þess eina lánveitanda á íbúðalánamarkaði sem ríkissjóður á sjálfur að fullu. „Sú mismunun sem þetta felur í sér er ekki einungis séríslensk heldur setur viðskiptavini annarra fjármálafyrirtækja en Íbúðalánasjóðs í mun verri stöðu hvað fjármögnun endurbóta eigin húsnæðis varðar.“

Á meðal annarra ákvæða sem SFF telja brýnt að endurskoða eru möguleikar til stjórnarsetu. Sífellt sé orðið erfiðara að finna einstaklinga sem teljast hæfir til að sitja í stjórn þeirra. Sömuleiðis segja samtökin mikilvægt að löggjöfin geri greinarmun á saknæmisskilyrðum við brot á gjaldeyrislögum, hvort það sé framið af gáleysi eða ásetningi. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu mistök í starfi og brot sem framið er af ásetningi. hordur@mbl.is