Mikið efni Oddur Arnþór Jónsson.
Mikið efni Oddur Arnþór Jónsson. — Morgunblaðið/Golli
„Ég er ánægður með góða umfjöllun um sýninguna en ég er ekki vanur stjörnutali og ég reyni að láta það hafa lítil áhrif á mig.

„Ég er ánægður með góða umfjöllun um sýninguna en ég er ekki vanur stjörnutali og ég reyni að láta það hafa lítil áhrif á mig. Ég er bara hluti af þessari sýningu og fyrir mér er mikilvægast að sýningin í heild fái góðar viðtökur,“ segir Oddur Arnþór Jónsson söngvari sem hefur hlotið gríðarlegt lof fyrir frammistöðu sína í Don Carlo eftir Verdi og haft hefur verið á orði að stjarna sé fædd. Oddur Arnþór ræðir í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins um sýninguna, ferilinn, verkefnin framundan og fleira. Hann segist vera mjög sjálfsgagnrýninn.

„Það að vera sjálfsgagnrýninn hjálpar mér í því að verða betri. Ég er stöðugt að reyna að vera betri í dag en ég var í gær. Gallinn er sá að stundum er ég að angra mig yfir smámunum sem ég er að vinna í en enginn heyrir nema ég sjálfur og skipta kannski engu máli fyrir frammistöðu mína.“

Oddur Arnþór, sem er 31 árs, býr í Salzburg í Austurríki og hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum keppnum.

Á næsta ári syngur Oddur Arnþór í Lied von der Erde eftir Mahler í Garnier-óperunni í París í ballettuppfærslu Johns Neumeiers.

kolbrun@mbl.is