Magnús Ægir Magnússon
Magnús Ægir Magnússon
Eftir Magnús Ægi Magnússon: "Ný og breytt túlkun Seðlabanka á lögum um gjaldeyrishöft sem lekið var til fjölmiðla 17. júní síðastliðinn kom öllum í opna skjöldu."

Í Morgunblaðinu laugardaginn 25. október síðastliðinn var allundarlegt viðtal, eða frétt, við forstjóra Sjóvár tryggingafélags um það samkomulag sem erlend tryggingarfélög hafa gert við Seðlabanka Íslands og lúta að útstreymi og innstreymi á gjaldeyri vegna sölu á tryggingavörum. Í greininni er meðal annar minnst á samning þann sem undirritaður var á milli Seðlabankans og Allianz Lebenzversicherungs í Þýskalandi þann 11. september síðastliðinn. Samningurinn er ekki á milli Seðlabankans og Allianz á Íslandi, eins og fram kemur í greininni, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem kom verulega á óvart við lestur greinarinnar eru aðdróttanir forstjórans um það að þrátt fyrir þetta samkomulag hljóti þessi starfsemi að vera ólögleg, enda segir í greininni að með samningnum sé Seðlabankinn beinlínis að leggja blessun sína yfir ólögmæt gjaldeyrisviðskipti. Þetta eru nokkuð stór orð. Samningsaðilar eru nú einu sinni seðlabanki íslensku þjóðarinnar og Allianz í Þýskalandi, sem er eitt af stærstu tryggingafélögum í heiminum. Allianz Lebenzversicherung mundi aldrei stunda starfsemi eða hafa milligöngu um starfsemi sem einhverjar líkur væru á að samrýmdist ekki lögum og reglum í viðkomandi landi. Svo annt er þeim um vörumerkið, Allianz, og orðspor fyrirtækisins.

Ný og breytt túlkun Seðlabanka á lögum um gjaldeyrishöft sem lekið var til fjölmiðla 17. júní síðastliðinn kom öllum í opna skjöldu, starfsmönnum, viðskiptavinum og Allianz í Þýskalandi, enda hafði Allianz á Íslandi og Allianz í Þýskalandi öll tilskilin leyfi frá yfirvöldum fyrir starfsemi sinni, leyfi sem höfðu verið áréttuð og endurnýjuð strax eftir setningu laga um gjaldeyrishöft haustið 2008. Öll leyfi og samskipti þar um eru til skrásett og skjalfest. Strax eftir setningu gjaldeyrishafta fóru allar gjaldeyrisyfirfærslur á vegum Allianz á Íslandi í gegnum Seðlabankann. Að auki laut starfsemi félagsins eftirliti Fjármálaeftirlitsins og öll samningseyðublöð vegna starfseminnar voru og hafa verið samþykkt og hlotið blessun Fjármálaráðuneytisins. Ekki svo að það skipti neinu máli núna en mér flaug það í hug þegar þessi ákvörðun Seðlabanka var tekin að bankinn væri búinn að vera beittur miklum og þungum þrýstingi frá hinum ýmsu fjármálafyrirtækjum sem sáu einhverjum ofsjónum yfir starfsemi Allianz hér á landi. Greinin í Morgunblaðinu staðfestir nú eiginlega þennan grun.

Þegar greinin í laugardagsblaði Morgunblaðsins er grannt lesin kemur fram hvað veldur óþoli forstjórans. Honum er í nöp við að markaðshlutdeild Allianz á Íslandi sé vaxandi, án þess að skilgreina það nánar. Ekki ætla ég mér að fara yfir ástæður vaxandi markaðshlutdeildar, enda skýringar margar. Eina skýringu má þó minnast á en hún er sú að þeir sem höfðu verið að spara til elliáranna í gegnum lífeyristryggingasamninga Allianz fyrir hrun töpuðu ekki einni einustu krónu á sama tíma og bankarnir og tryggingafélögin hrundu hérna haustið 2008. Í 20 ár hafa Íslendingar verið að safna lífeyri til eftirlaunaáranna í gegnum Allianz, jú, í 20 ár, því félagið Allianz á Íslandi verður 20 ára í desember næstkomandi.

Ég man ekki til þess að Sjóvá eða önnur innlend tryggingafélög hafi boðið upp á lífeyristryggingar fyrir almenning, hvorki í erlendri eða íslenskri mynt, fyrir hrun haustið 2008. Fer ekki best á því að menn einbeiti sér að sínum eigin rekstri en eyði ekki kröftum og orku í að básúnast út í aðra, eða það sem verra er, að væna menn um lögbrot?

Höfundurinn er hagfræðingur og stjórnarformaður Allianz á Íslandi.

Höf.: Magnús Ægi Magnússon