[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um nýyrðasmíð í íslensku var fjallað í fyrsta skipti opinberlega í stofnskrá Lærdómslistafélagsins sem kom út 1780 eins og lesa má um í bók Kjartans G. Ottóssonar, Íslensk málhreinsun.

Um nýyrðasmíð í íslensku var fjallað í fyrsta skipti opinberlega í stofnskrá Lærdómslistafélagsins sem kom út 1780 eins og lesa má um í bók Kjartans G. Ottóssonar, Íslensk málhreinsun. Forseti Lærdómslistafélagsins var Jón Eiríksson, skrifstofustjóri í rentukammerinu, en þar var farið með atvinnu- og fjármál danska ríkisins. Hið íslenska lærdómslistafélag var stofnað í Kaupmannahöfn 1779 og gaf félagið út ársrit frá 1781 til 1796. Þar var mest fjallað um ýmis hagnýt efni, m.a. tengd atvinnuvegum og vísindagreinum sem hafði lítið verið ritað um áður á íslensku. Markmiðið var að uppfræða almenning og því var mikilvægt að þorri fólks gæti skilið það efni sem kæmi frá félaginu.

Af ritum Lærdómslistafélagsins má nefna t.d. Um gagnsmuni af sauðfé, Um not af nautpeningi, Um sjávarafla og fleiri vatnaveiðar á Íslandi, Um matartilbúning af mjólk, fiski og kjöti, Um grastegundir og fóður á Íslandi, Nokkur íslensk jurta-, fiska og fuglaheiti, Um þær einföldustu grunnmaskínur, Mannfækkun af hallærum og Um barnadauða á Íslandi.

Fjölmörg nýyrði koma fyrir í ritum Lærdómslistafélagsins, t.d. kyrrðarstjarna (nú fastastjarna), atvinnumeðal (nú atvinnuvegur), sugudýr (nú spendýr) og málmmóðir (nú málmgrýti). Af orðum, sem hafa náð fótfestu í málinu, má nefna t.d. brjóskfisk, farfugl, fellibyl, gróðurhús og steinolíu. Einnig fengu nokkur tökuorð að fljóta með í ritum félagsins, t.d. grashoppa og papagói.

Nokkur heiti rita Lærdómslistafélagsins minna reyndar á kaflaheiti í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en þar er fjallað um ýmis efni sem tengjast búskap, fiskveiðum, iðnaði, vísindum og tölfræðilegum upplýsingum eins og gert var í þessum merku ritum frá 18. öld. Af skyldum viðfangsefnum í EES-samningnum má nefna landbúnað, dýra- og plöntuheiti, orkumál, iðnað, tæki, vélar og hagskýrslugerð. Í þýðingastarfinu er í raun unnið að sama markmiði og gert var hjá Lærdómslistafélaginu, þ.e. að koma efni til almennings á skýru og skiljanlegu máli.

Í EES-samningnum er að finna fjölda íslenskra nýyrða og má nefna t.d. ýmsar samsetningar með orðinu hlot í köflum um umhverfismál, t.d. landvatnshlot, grunnvatnshlot og viðtökuvatnshlot. Nýyrðið hlot (sbr. hlutur) er að finna í hinu vandaða riti Umhverfistækni – Íðorðabók) sem Orðanefnd byggingarverkfræðinga gaf út árið 2007. Þar er hugtakið skilgreint sem afmörkuð heild af efni. Í Orðasafni byggingarverkfræðinga um jarðfræði er einnig nefnt til skýringar að ský sé hlot úr vatnsdropum. Hlot er dæmi um nýstofn í íslensku sem er sjaldgæf orðmyndun en flest nýyrði í málinu eru ýmist samsett orð eða orð mynduð með forskeytum eða viðskeytum.

Í landbúnaðarköflum EES-samningsins eru enn fremur ýmsar samsetningar með orðinu yrki, t.d. vetraryrki, blendingsyrki og varðveisluyrki. Nýyrðið yrki (plöntuyrki) er frá Jóhanni Pálssyni grasafræðingi og er skilgreint sem, ræktað afbrigði fóður-, mat- og skrautjurta. Þessi yrki njóta oft einkaleyfisverndar.

Sigrún Þorgeirsdóttir sigrun.thorgeirsdottir@utn.stjr.is

Höf.: Sigrún Þorgeirsdóttir sigrun.thorgeirsdottir@utn.stjr.is