Játning: Víkverji er kominn í smá jólaskap. Það er kominn 1. nóvember og tíminn flýgur áfram. Það er því ekki alveg út í hött að dusta rykið af jólaskapinu og athuga hvar það er, að minnsta kosti.

Játning: Víkverji er kominn í smá jólaskap. Það er kominn 1. nóvember og tíminn flýgur áfram. Það er því ekki alveg út í hött að dusta rykið af jólaskapinu og athuga hvar það er, að minnsta kosti. Það eru einungis fjórir sunnudagar þar til fyrsti í aðventu ber upp. Jújú, Víkverji gerir sér grein fyrir því að fólk kanna að reikna og áttar sig sjálft á þessum staðreyndum.

Skortur á góðu skipulagi er eitthvað sem getur stundum hrjáð Víkverja. Hann ætlar því að leggja drög að mánuðinum svo hann geti slakað sér meira í jólamánuðinum sjálfum. Því einhvers staðar las hann það í einhverri sjálfshjálparbók að um leið og maður orðaði hlutina, segði þá upphátt, þá yrðu þeir að veruleika.

Jólin verða afgreidd um helgina – er það ekki barasta.

Misjöfn eru áhugamál fólks. Víkverji þreytist ekki á að sjá fegurðina í áhugamálum annarra. Sumir þeysast heimshornanna á milli til að taka þátt í ofurmaraþoni þar sem hlaupið er stanslaust í margar klukkustundir. Aðrir kjósa að fara í hættulegar kappreiðar á ótömdum hrossum í marga daga og gista við fábrotnar aðstæður. Aðrir spila brids í margar klukkustundir og sumir keppa á Íslandsmóti í hinum ýmsu borðspilum.

Sjálfur kýs Víkverji að viðra sig úti í náttúrunni þegar tími gefst til. En það er gott að það eru ekki allir eins.

Hrekkjavakan í allri sinni dýrð var í gær. Af því tilefni skellti Víkverji sér í örlítið hrekkjavökupartí hjá yngri kynslóðinni. Þeim þótti þetta einstök upplifun, að fá að klæða sig eins og draugar og nornir og vera alblóðug. Víkverji er ekki eins afhuga þessari hrekkjavökuvæðingu eins og ætla mætti. Í fyrstu fussaði hann og sveiaði yfir þessari „lágmenningu“ sem var að taka sér bólfestu hér en nú líkar honum bara mjög vel við þessa hefð. Að ári ætlar hann að mála sig kríthvítan í framan og blóðugan og mæta til vinnu.