Játning: Víkverji er kominn í smá jólaskap. Það er kominn 1. nóvember og tíminn flýgur áfram. Það er því ekki alveg út í hött að dusta rykið af jólaskapinu og athuga hvar það er, að minnsta kosti. Það eru einungis fjórir sunnudagar þar til fyrsti í aðventu ber upp. Jújú, Víkverji gerir sér grein fyrir því að fólk kanna að reikna og áttar sig sjálft á þessum staðreyndum.
Skortur á góðu skipulagi er eitthvað sem getur stundum hrjáð Víkverja. Hann ætlar því að leggja drög að mánuðinum svo hann geti slakað sér meira í jólamánuðinum sjálfum. Því einhvers staðar las hann það í einhverri sjálfshjálparbók að um leið og maður orðaði hlutina, segði þá upphátt, þá yrðu þeir að veruleika.
Jólin verða afgreidd um helgina – er það ekki barasta.
Misjöfn eru áhugamál fólks. Víkverji þreytist ekki á að sjá fegurðina í áhugamálum annarra. Sumir þeysast heimshornanna á milli til að taka þátt í ofurmaraþoni þar sem hlaupið er stanslaust í margar klukkustundir. Aðrir kjósa að fara í hættulegar kappreiðar á ótömdum hrossum í marga daga og gista við fábrotnar aðstæður. Aðrir spila brids í margar klukkustundir og sumir keppa á Íslandsmóti í hinum ýmsu borðspilum.
Sjálfur kýs Víkverji að viðra sig úti í náttúrunni þegar tími gefst til. En það er gott að það eru ekki allir eins.