Afsögninni fagnað.
Afsögninni fagnað. — AFP
Blaise Compaore, forseti Búrkína Fasó, tilkynnti í gær að hann hefði sagt af sér vegna óeirða sem blossuðu upp þegar hann reyndi að knýja fram stjórnarskrárbreytingu til að geta gegnt forsetaembættinu lengur. Compaore hafði verið við völd í 27 ár.

Blaise Compaore, forseti Búrkína Fasó, tilkynnti í gær að hann hefði sagt af sér vegna óeirða sem blossuðu upp þegar hann reyndi að knýja fram stjórnarskrárbreytingu til að geta gegnt forsetaembættinu lengur. Compaore hafði verið við völd í 27 ár.

Tugir þúsunda mótmælenda fögnuðu ákaft á götum Ouagadougou, höfuðborgar landsins, þegar talsmaður hersins greindi frá afsögn forsetans. Daginn áður kveiktu mótmælendur í þinghúsinu og stjórnarbyggingum eftir að Compaore boðaði breytingu á stjórnarskránni. Seinna sagði Compaore að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri en sitja áfram þar til á næsta ári. Stjórnandstaðan var ekki sátt við þetta og krafðist þess að forsetinn léti tafarlaust af embætti.

Stjórnmálaskýrendur sögðu að fall Compaore gæti haft áhrif í öðrum Afríkuríkjum þar sem þaulsætnir þjóðhöfðingjar hafa íhugað stjórnarskrárbreytingu til að halda völdunum.