TÓNLIST
Arnar Eggert Thoroddsen
arnareggert@arnareggert.is
Hún er nokkuð einstök, staðan sem Taylor Swift er í dag. Ekki jafn rosalega áberandi og kollegar á borð við Beyonce, Miley Cyrus, Rihanna, Lady Gaga eða Katy Perry vegna þess að hún sleppir því að stíma inn á sjokkmiðin en sölutölurnar á bak við hana eru á sama tíma sláandi. Plötur hennar og lög hafa selst í tugmilljóna tali og verðlaun af ýmsu tagi, í popp- og kántrígeiranum, skipta tugum.
En þó að hún sé lítið fyrir að glenna sig fetar hún heldur ekki dulúðugu slóðirnar sem Lorde og Lana Del Rey lötra eftir. Hún er þarna einhvers staðar á milli hinsvegar og þar með erum við komin að helsta styrk hennar. Hún er að brúa bil með mun árangursríkari hætti en í tilfelli allra þeirra sem ég taldi upp. Á meðan unglingarnir hrista hausinn við smellina og lepja upp myndböndin sitja menningarrýnar nefnilega sveittir og rita djúpspaka langhunda um list hennar fyrir miðla eins og New York Times og Guardian (nú, eða Morgunblaðið). Þá á hún um leið stóreflis aðdáendahóp í Suðurríkjum Bandaríkjanna en ferilinn hóf hún sem kántrístjarna. Það er eitthvað gamaldags við Swift, eitthvað klassískt og t.a.m. er hún ein af fáum listamönnum í dag sem moka út plötum í efnislegu formi. Þetta sem hægt er að handleika, man einhver eftir því?
Popparkitekt
Swift er fædd árið 1989, eins og titill nýjustu plötunnar undirstrikar og fyrsta plata hennar, samnefnd henni, kom út árið 2006. Hún hafði flutt til Nashville fjórtán ára gömul og fljótlega fór hún að vefja þessu rammgerða virki kántrítónlistarinnar um fingur sér. Önnur plata hennar, Fearless (2008) var mest selda plata Bandaríkjanna það árið og á henni hóf hún að færa sig úr kántríi yfir í poppaðri tónlist, ekki ósvipað og leiðin sem Shania Twain fetaði í upphafi tíunda áratugarins. Á síðustu plötu sinni, Red (2012), voru þessi umskipti orðin alger, tónlistin nútíma popp sem teygði sig í allar áttir og fangaði giska stóran og fjölskrúðugan hóp hlustenda. Megnið af plötunni samdi hún sjálf en þeirri staðreynd að hún geti raunverulega samið tónlist upp á eigin spýtur er hampað linnulaust í miðlum og kannski ekki að undra. Meðsemjendur á þeirri plötu eru m.a. Gary Lightbody úr Snow Patrol, Ed Sheeran og Max Martin, sænski popparkitektinn sem átti mikilvæga hlutdeild í farsæld Britney Spears á sínum tíma.Nýja platan er steypt í svipað mót og Swift hefur lýst því opinberlega yfir að hún hafi nú rifið af sér síðustu kántrísnærin. Platan er því algert „popp“ og segist hún m.a. undir áhrifum frá glyskenndu meginstraumspoppi því sem í gangi var er hún fæddist og nefnir til aðila eins og Fine Young Cannibals, Phil Collins og Annie Lennox. Platan er kulsæknari en fyrri verk, módernísk svo sannarlega, en aðdáendur taka þessu öllu saman opnum örmum. Platan er ekki að seljast í bílförmum, gámum frekar, og þannig runnu 600.000 eintök út úr Target-búðunum bandarísku daginn sem hún kom út. Billboard spáir milljón eintaka sölu þessa fyrstu viku og ríflega það.
Æðrulaus
Merkilegur er þá áhugi poppblaðamanna og -fræðinga á Swift sem lofa hana í hástert, einkum og sér í lagi fyrir tónlistina (já, það er skringilegt að þurfa að taka þetta sérstaklega fram). Á meðan þurfa Lady Gaga, Katy Perry og Beyonce venjulega að þola yfirlætisfull skrif úr póstmódernískum blekbyttum miðaldra karla þar sem ímynd, merking, pólitík – allt annað en tónlist – eru í brennideplinum. En hví þessi mikli áhugi úr þessari átt? Hvað er það sem þessir „synir albúmsins“ eru að tengja við? Kannski fortíðarþrá eftir þeim tíma þegar listamenn eins og Bruce Springsteen, Michael Jackson, Madonna og Prince gáfu út plötur með lögum sem áttu eftir að standast tímans tönn, plötur sem fengust út í búð og ekkert meira með það. Þetta er auðvitað einföldun en það er einhver jarðtenging sem virðist heilla þennan hóp. Swift er um leið engin dúkka og hún vinnur meðvitað með þann sjarma sem hún hefur. Í nýlegu viðtali við Guardian sagði hún að þetta væri lífið sem hana hefði dreymt um síðan hún var krakki. Hún er æðrulaus í því spjalli, þakklát og áhugasöm og minnist aldrei á hlekki frægðarinnar sem svo margir grípa í.Hættumerkin liggja hins vegar í því að Swift vill höfða til allra og eins og er þá er hún að komast upp með það en orkan sem fer í slíka viðleitni er oft á kostnað listarinnar. Red er eins og vel heppnað mósaík, heildstætt verk en samsett úr ólíkum brotum sem fanga athygli ólíkra hópa. Á 1989 er haldið á sömu mið. Hann er ekki amalegur, sá árangur að það er hægt að spjalla um þig við mömmu og Gumma frænda, skeggjaða „hipsterinn“ sem vinnur á Kex. Það verður hins vegar forvitnilegt að sjá hvort Swift haldi þá metnaðarfullu sendiför út næstu misseri.