Fallnir Framarar voru að vonum daprir í bragði eftir lokaleikinn á Íslandsmótinu í haust því þeir féllu þrátt fyrir frækinn sigur á Fylkismönnum.
Fallnir Framarar voru að vonum daprir í bragði eftir lokaleikinn á Íslandsmótinu í haust því þeir féllu þrátt fyrir frækinn sigur á Fylkismönnum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðhorf Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Það er þetta með tryggðina. Án þess að hafa lagst í miklar rannsóknir þá er það tilfinning manns að hún sé enn á undanhaldi, eða hreinlega að hverfa, með nýjum kynslóðum íþróttamanna.

Viðhorf

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Það er þetta með tryggðina. Án þess að hafa lagst í miklar rannsóknir þá er það tilfinning manns að hún sé enn á undanhaldi, eða hreinlega að hverfa, með nýjum kynslóðum íþróttamanna. Það virðist nær öllum sama um það undir merkjum hvaða félags þeir ná árangri. Hugsunin er markaðsdrifin – menn hugsa eingöngu um rassgatið á sjálfum sér. Og lái þeim hver sem vill.

Þetta kristallast í hvirfilbylnum sem gengið hefur yfir Safamýri síðustu vikur, eftir að Íslandsmóti karla í knattspyrnu lauk. Framarar vildu horfa lengra fram í tímann; fengu nýjan og metnaðarfullan þjálfara í fyrrahaust, og fjölda leikmanna sem voru ungir og höfðu litla eða enga reynslu af því að spila í efstu deild.

Horft til lengri tíma?

Allir töluðu um það, ekki síst þjálfarinn Bjarni Guðjónsson, að um áhættu væri að ræða og ljóst að vel gæti svo farið að liðið félli. Það skipti hins vegar ekki máli, því allir væru staðráðnir í að horfa til lengri tíma. Leikmenn myndu fá að vaxa og dafna hvort sem það yrði í efstu eða næstefstu deild, og með tímanum yrði til gott efstudeildarlið.

En svo féll Fram, og þá mátti félagið bara eiga sig í huga þjálfarans og stórs hluta leikmanna. Fyrst það ætlaði að vera í einhverjum vandræðum var best að leita annað. Þeir vildu ekki færa neinar fórnir fyrir félagið. Tryggðin við félagið var engin.

En ég ítreka að það er ekkert óeðlilegt við þetta, í eins markaðsdrifnu samfélagi og við búum í í dag. Menn gera allt sem þeir geta til að ná sem lengst sjálfir, það skiptir ekki máli með hvaða félagi það er. Í tilfelli Bjarna má þó segja að hann haldi tryggð við félag, því Skagamaðurinn virðist unna KR mjög. Leikmennirnir leita sér hins vegar bara að einhverju félagi, sem er tilbúið að leyfa þeim að spila í efstu deild.

Sterling sömu leið og Gerrard?

Menn vilja „skora á sjálfa sig“ og það virðist ekki vera nægileg áskorun að hjálpa liði sem á í vandræðum. Menn eins og Daníel Laxdal, sem 28 ára gamall hefur alltaf spilað fyrir Stjörnuna og gengið í gegnum súrt og sætt fyrir félagið, eru vandfundnir. Svona er þetta líka úti um allan heim. Það finnast sífellt færri menn á borð við Tony Adams, Paolo Maldini og Matt Le Tissier, sem þjónuðu einu og aðeins einu félagi allan sinn feril. Ryan Giggs og Steven Gerrard fara í sama flokk, en ætli það sama verði hægt að segja um Adnan Januzaj og Raheem Sterling? Það stórefast ég um.

Þetta á meira að segja við um landslið einnig. Ég efast til dæmis ekki um að Aron Jóhannsson valdi sér að spila fyrir Bandaríkin í stað Íslands, vegna þess að það þjónaði hans eigin hagsmunum, miklu frekar en vegna ástar hans á Bandaríkjunum fram yfir Ísland.

En svo ég segi það aftur þá skil ég alveg að menn einskorði sig ekki við eitt félag. Það getur ýmislegt orðið til þess að þörf sé til að breyta til. Mér finnst bara að það eigi ekki að vera eins léttvæg ákvörðun og að kaupa ný jakkaföt, eins og stundum virðist vera. Ef menn hafa enga ástríðu fyrir sínu liði, af hverju eiga þá stuðningsmennirnir, undirstaða allra íþrótta, að láta sig þá varða?

Hughreystandi dæmi

Þess vegna er hughreystandi að sjá enn dæmi þess að einhvers konar tryggð sé til staðar. Nú í haust hafa Hólmar Örn Rúnarsson og Ólafur Páll Snorrason til að mynda báðir staðið við loforð sem þeir gáfu sjálfum sér, og gengið í raðir sinna uppeldisfélaga. Það vildu þeir gera á meðan þeir gætu enn gert mikið gagn, staðráðnir í að gera veg sinna liða sem mestan, en ekki endilega að upphefja sjálfa sig. Um það efast enginn sem sér þá spila fótbolta næsta sumar.