[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dómarar Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Kristinn Jakobsson endar góðan feril sem knattspyrnudómari á toppnum.

Dómarar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kristinn Jakobsson endar góðan feril sem knattspyrnudómari á toppnum. Hann var á dögunum valinn besti dómarinn í Pepsi-deild karla af leikmönnum og þegar farið er yfir einkunnagjöf Morgunblaðsins fyrir dómgæsluna í deildinni á liðnu sumri kemur á daginn að Kristinn er þar fremstur í flokki.

Hann dæmdi 18 leiki í deildinni, fleiri en nokkur annar, og er með hæstu meðaleinkunnina. Morgunblaðið gefur dómurum í deildinni einkunnir fyrir alla leiki, frá 1 til 10, og Kristinn var með meðaleinkunnina 7,94 fyrir þessa átján leiki.

Kristinn braut jafnframt blað í einkunnagjöf Morgunblaðsins því hann varð í sumar fyrsti dómarinn til að fá 10 í einkunn fyrir leik. Þá einkunn fékk hann fyrir frammistöðu sína með flautuna í leik Fylkis og Þórs á Fylkisvellinum í 16. umferð deildarinnar í ágúst.

Kristinn lauk í haust sínu 21. tímabili í efstu deild og hann hafði fyrir nokkru ákveðið að þetta væri hans síðasta ár í dómgæslunni. Hann lýkur ferlinum endanlega með verkefnum erlendis á næstu vikum. Kristinn dæmdi 277 leiki í deildinni á þessum tíma en sá fyrsti var viðureign Keflavíkur og Breiðabliks á Keflavíkurvelli 26. maí árið 1994 en þá var Kristinn rúmum hálfum mánuði frá 25 ára afmælisdeginum.

Hækkaði talsvert frá 2013

Óhætt er að segja að Kristinn hafi bætt sig á þessu lokaári sínu en á síðasta ári, 2013, varð hann í þriðja sæti í einkunnagjöf Morgunblaðsins með 7,29 í meðaleinkunn. Þá varð Garðar Örn Hinriksson efstur með 7,38 og Gunnar Jarl Jónsson annar með 7,33.

Fyrir tveimur árum, 2012, varð Kristinn hinsvegar efstur hjá Morgunblaðinu með 7,79 í meðaleinkunn, Gunnar Jarl varð annar með 7,64 og Magnús Þórisson þriðji með 7,55.

Gunnar enn í öðru sæti

Gunnar Jarl varð líka annar þetta árið en með mun hærri einkunn en í fyrra því hann fékk 7,83 í meðaleinkunn fyrir 12 leiki.

Alls komu 15 dómarar við sögu í deildinni á þessu tímabili. Þrír þeirra dæmdu hinsvegar aðeins einn leik en það voru Dagfinn Forná frá Færeyjum og Ryan Stewart frá Wales, sem komu hingað til lands sem gestadómarar, og Pétur Guðmundsson dæmdi einn leik undir lok mótsins. Pétur fékk þar 8 fyrir frammistöðu sína en Dagfinn og Stewart fengu báðir 7 í einkunn.

Lægsta einkunn sumarsins var 3 en hana fékk Garðar Örn Hinriksson. Hann fékk hinsvegar tvisvar 9 í einkunn.

Þóroddur Hjaltalín fékk án efa breytilegustu einkunnirnar fyrir sína frammistöðu en hann fékk allar einkunnir frá 4 og upp í 9. Hóf tímabilið á því að fá 4 í einkunn en flaug svo upp í 9 strax í næsta leik!

Valdimar Pálsson og Ívar Orri Kristjánsson voru nýir í deildinni árið 2014 en þeir fengu reyndar báðir að spreyta sig í fyrsta sinn undir lok tímabilsins 2013. Einn dómari hætti frá síðasta ári, Magnús Þórisson, en hann hafði dæmt í deildinni í þrettán ár.

Heildarútkomu dómaranna í einkunnagjöf Morgunblaðsins má sjá töflunni hér fyrir ofan.

Kristinn Jakobsson
» Hann er 45 ára gamall og lék sjálfur með Kópavogsliðinu ÍK, síðast 1991, en sneri sér síðan alfarið að dómgæslunni.
» Kristinn dæmdi fyrst í efstu deild árið 1994 og á þar 277 leiki að baki á 21 tímabili frá þeim tíma.
» Hann hefur verið milliríkjadómari frá 1997 og er eini Íslendingurinn sem hefur dæmt leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.