Björn Ólafsson verkfræðingur fæddist í Múlakoti í Hörglandshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 1.11. 1930, sonur Ólafs Bjarnasonar, blikksmiðs í Reykjavík, og Sigríðar Jónínu Tómasdóttur húsfreyju.

Björn Ólafsson verkfræðingur fæddist í Múlakoti í Hörglandshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 1.11. 1930, sonur Ólafs Bjarnasonar, blikksmiðs í Reykjavík, og Sigríðar Jónínu Tómasdóttur húsfreyju.

Foreldrar Ólafs voru Bjarni Bjarnason, bóndi í Hörgsdal, og k.h., Helga Pálsdóttir húsfreyja, en foreldrar Sigíðar Jónínu voru Tómas Jónsson, bóndi á Saurum í Staðarsveit, og k.h., Margrét Jónsdóttir húsfreyja.

Eftirlifandi eiginkona Björns er Hulda Sigurbjörg Guðmundsdóttir, fyrrv. bankastarfsmaður og eignuðust þau fjögur börn.

Björn lauk stúdentsprófi frá MR 1952, fyrrihlutaprófi í byggingarverkfræði frá HÍ 1955 og verkfræðiprófi frá RWTH í Aachen í Þýskalandi 1962.

Björn var verkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins 1962-66 og starfaði þá m.a. við hönnun og eftirlit með Reykjanesbrautinni og var umdæmisverkfræðingur Suðurlands 1963-66, var verkfræðingur og yfirverkfræðingur hjá Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Reykjavík 1966-70 og starfrækti eigin verkfræðistofu frá 1970 sem lengst af sá einkum um eftirlit, samninga, hönnun og hönnunarstjórnun.

Björn var framkvæmdastjóri byggingaráætlunar Vestmannaeyja 1973-75, hönnunarstjóri hjá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins 1988, sá um hönnun, eftirlit og umsjón með framkvæmdum við flugvelli 1990, ásamt fleiru.

Björn sat í Stúdentaráði, var formaður Félags verkfræðinema, varaborgarfulltrúi í Reykjavík og sat í stjórn Veitustofnana, í skipulagsnefnd Kópavogs, var bæjarfulltrúi í Kópavogi, sat þar í bæjarráði og var formaður bæjarráðs í tvígang, í ýmsum nefndum og ráðum á vegum bæjarfélagsins, í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga, í stjórn SASÍR og SSH, var formaður nýtingar Krísuvíkurskóla og formaður skólanefndar Tækniskóla Íslands.

Björn lést 12.6. 1992.