Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Haldi fram sem horfir mun jafn mikil hraunkvika hafa streymt úr Holuhrauni um næstu áramót og þegar Surtsey reis úr sæ árið 1963.
Þetta segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og bendir á að nú hafi runnið 0,6 rúmkílómetrar af kviku úr Holuhrauni, borið saman við 1 rúmkílómetra af bergkviku sem streymdi í neðansjávareldgosinu. Hún hafi þó aðallega orðið að ösku, þegar kvikan blandaðist við sjó.
Múrsteinn í byggingu Íslands
„Það hefur ekki orðið jafn stórt gos síðan 1963. Gosið í Holuhrauni er orðið stórt. Það má segja að hraunið sé eins og nýr múrsteinn í byggingu Íslands. Ef farið er um Austfirði eða Vestfirði má sjá blágrýtismyndanir og lárétt lög í fjöllunum. Þarna er komið eitt slíkt lag,“ segir Haraldur sem hefur reiknað út að eldgosið muni standa fram í febrúar, eða mars, eða þangað til dregið hefur úr þrýstingi í kvikuþrónni, ef engar breytingar verða.„Það eru allir möguleikar á því að á þessum slóðum verði eldgos í nokkur ár. Þetta er enda nauðalíkt Kröflueldum, sem voru frá 1975-1984, í níu ár. Þá komu mörg svona gos í röð. Það getur vel verið að við séum aðeins að sjá fyrsta gosið.“
Haraldur segir aðspurður að öll eldfjöll heimsins losi árlega koldíoxíð í andrúmsloftið sem nemur einum hundraðshluta af losun mannsins.
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun, segir vatnsgufu algengustu gastegundina sem berst frá Holuhrauni. Þar á eftir komi koldíoxíð og brennisteinsdíoxíð.
Þorsteinn segir erfitt að mæla nákvæmlega hversu mikið af gastegundum berist frá gosinu en áætlað hefur verið að 20 til 60 þúsund tonn af brennisteinsdíoxíði berist frá gosinu á dag, eins og komið hefur fram. Til samanburðar losa öll ESB-ríkin 28 samtals 14 þúsund tonn á dag og álverið í Reyðarfirði 16 tonn.
Milljónir tonna af brennisteini
Eldgosið hófst 29. ágúst sl. Undir miðnætti í nótt voru að þeim degi meðtöldum 64 dagar liðnir frá upphafi gossins. Hafa því losnað 1,28-3,84 milljónir tonna af brennisteinsdíoxíði frá gosinu, eftir því hvort margfaldað er með 20 eða 60 þúsund tonnum á dag. Það samsvarar losun álversins í Reyðarfirði á brennisteinsdíoxíði í 219 til 658 ár.Spurður hversu mikið úrkoma muni halda menguninni í skefjum bendir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, á að Holuhraun sé á einum þurrasta stað landsins. „Vatnajökull er feikilega öflugur skjólveggur. Mest af úrkomunni kemur í sunnanáttum. Vatnajökull tekur mest af henni á sig. Það verður því yfirleitt ekki úrkoma hlémegin jökulsins,“ segir Óli Þór.
Hann segir mestar líkur á að mengunin berist til höfuðborgarsvæðisins í hægri og þurri norðaustanátt. „Síðan þarf að lægja þegar mengunin er komin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það hefur gerst í minnst tvígang síðasta mánuð. Það eru ágætar líkur á að þetta muni endurtaka sig áður en gosinu lýkur.“