Reykjavík Margir voru mættir á kjötsúpudaginn, einn þeirra viðburða sem þykja gæða borgarlífið lífi og lit.
Reykjavík Margir voru mættir á kjötsúpudaginn, einn þeirra viðburða sem þykja gæða borgarlífið lífi og lit. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Dagskráin verður stöðugt þéttari. Það er varla sú helgi í dagatalinu að ekki séu í miðborginni skipulagðir viðburðir af einhverjum toga sem hefur fjölgað mikið síðustu ár.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Dagskráin verður stöðugt þéttari. Það er varla sú helgi í dagatalinu að ekki séu í miðborginni skipulagðir viðburðir af einhverjum toga sem hefur fjölgað mikið síðustu ár. Þá er nokkuð um að fólk leiti til okkar eftir leiðbeiningum um hvernig standa skuli að nýjum viðburðum, sem sumir verða að veruleika og aðrir ekki,“ segir Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.

Sjálfsprottnu ber að fagna

Fjölmenni sótti kjötsúpudaginn svonefnda, en sá viðburður var á Skólavörðustíg í Reykjavík sl. laugardag. Verslunareigendur við götuna skipulögðu atburðinn í samvinnu við sauðfjárbændur sem lögðu kjötið til. Boðið var upp á súpu á fimm stöðum. Í stóra samhenginu vekur athygli hinn mikil fjöldi hverskonar viðburða sem er á miðborgarsvæðinu yfir árið. Og þeim fjölgar jafnt og þétt.

„Flestar þessar hátíðir í borginni eru algjörlega sjálfsprottið framtak. Kjötsúpudagurinn varð að veruleika alfarið vegna frumkvæðis þeirra sem eru með rekstur við Skólavörðustíg og því ber að fagna,“ segir Einar. Nefnir ennfremur að við þessa götu hafi verið bryddað upp á mörgu áhugaverðu að undanförnu. Þar megi til dæmis nefna svonefnt beikon-festival sem haldið var snemma í september. Þá var svonefndur bleikur fimmtudagur, sem minna átti á baráttuna gegn brjóstakrabbameini, á Skólavörðustíg fyrr í þessum mánuði. Hinn 6. nóvember er Miðborgarvakan, sem segja má að marki upphaf jólaverslunar.

Á könnu starfsmanna Höfuðborgarstofu er skipulagning og undirbúningur Vetrarhátíðar, Barnamenningarhátíðar, Menningarnætur og tendrun Friðarsúlunnar í Viðey 9. október ár. Þá sér starfsfólk stofunnar um að stilla saman strengi borgarstofnana, hagsmunasamtakanna Miðborgarinnar okkar og fleiri sem standa að ýmsum viðburðum í miðborginni í jólamánuðinum.

Leita ráða og götum lokað

Þáttur borgarinnar í sjálfsprottnum hátíðum er jafnmisjafn og hátíðirnar eru margar, segir Einar Bárðarson. Stundum komi fólk til að leita ráða en í öðrum tilvikum sé kannski verið að óska eftir lokun gatna og einstakra svæða.

„Útkoman úr þessu öllu er líflegra samfélag sem hefur aðdráttarafl meðal annars á erlenda ferðamenn. Í það heila talið eru um 50 stærri viðburðir eða hátíðir á hverju ári í miðborginni, sem við getum sagt að sé möndull borgarinnar,“ segir Einar. Bætir við að miðborgin, það er Skólavörðuholtið, Laugavegurinn frá Hlemmi og Kvosin, Harpa og gamla höfnin, henti að sinni hyggju vel undir hvers konar viðburði og samkomuhald. Vegalengdir séu stuttar og svæðið haldi vel utan um fólk, sem skipti miklu þegar skapa á góða stemningu.

Festa sé í starfinu

„Það kæmi mér ekkert á óvart þótt dagskráin myndi þéttast enn frekar á næstu misserum og viðburðum fjölga. Þróunin er öll í þá átt og áhuginn er greinilega mikill. Þó leggjum við mest upp úr því að vel sé að öllu staðið og festa sé í starfinu,“ segir forstöðumaður Höfuðborgarstofu.
Borgargleði
» Mikil breyting á fáum árum. Reykjavík er vettvangur margvíslegra uppákomna sem flestar eru haldnar að frumkvæði fólks í grasrótinni.
» Fjör og gleði í miðbænum flestar helgar ársins. Dagskráin verður stöðugt þéttari.
» Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er næst á dagskránni og verður dagana 5. til 9. nóvember.
» Miðborgarvakan, sem markar upphaf jólaverslunar, er rétt handan við hornið.
» Skólavörðustígurinn kemur sterkur inn. Önnur svæði, svo sem Laugavegur og Kvosin, þykja þó líka henta vel til hvers konar viðburðahalds.