Það er að sjóða upp úr á vinnumarkaði. Læknar í verkfalli, tónlistarkennarar þramma um götur og þeir sem hafa stutt Samfylkinguna í þeirra hópi hafa sagt sig úr henni vegna afstöðu Reykjavíkurborgar til kjaramála þeirra. Þingi Alþýðusambands Íslands er nýlokið og í ályktun þess segir:
„41. þing ASÍ harmar þá stöðu, sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði. Sjaldan eða aldrei hafa kjarasamningar skilað jafn ólíkum launahækkunum og á yfirstandandi ári ... Sjái viðsemjendur okkar sem og ríkisvaldið ekki að sér er ljóst að það stefnir í erfiðar kjaraviðræður upp úr áramótum og átök á vinnumarkaði.“
Tónninn í launþegasamtökunum og reyndar samfélaginu öllu bendir til þess að það vopnahlé, sem samið var um á vinnumarkaði 1990 – eftir margra áratuga stórátök – undir forystu Einars Odds Kristjánssonar, Ásmundar Stefánssonar og Guðmundar J. Guðmundssonar og staðið hefur í aldarfjórðung sé að renna út í sandinn. Það má ekki gerast.
Samfélag okkar er enn í sárum eftir hrunið og mun ekki þola nýtt tímabil stöðugra átaka, verkfalla og skæruhernaðar. Heimilin þola það ekki og fyrirtækin þola það ekki. Það þarf ekki lengur að deila um staðreyndir. Það liggja allar upplýsingar fyrir, um launaþróun, um stöðu fyrirtækja og um stöðu sveitarfélaga og ríkis.
Það fer ekki á milli mála að nú gætir á ný sterkrar tilhneigingar til þess að þeir sem eru í stöðu til þess á annað borð taki meira til sín heldur en sanngjarnt getur talizt og samfélagið er sátt við. Til þess vísar þing ASÍ, þegar það í ályktun talar um „ólíkar launahækkanir“.
En þing ASÍ er ekki samkvæmt sjálfu sér. Í ályktun þess segir:
„41. þing ASÍ krefst þess að atvinnurekendur leiðrétti þann mun á launaþróun ...“ Hverjir eru þessir „atvinnurekendur“? Það eru ekki sízt stóru fyrirtækin á Íslandi, sem nú eru að verulegu leyti í eigu lífeyrissjóða en lífeyrissjóðirnir eru í eigu sjóðfélaga, sem um leið eru félagsmenn í launþegafélögunum, sem aðild eiga að ASÍ.
Þegar þing ASÍ gerir kröfur á hendur „atvinnurekendum“ er það í raun að tala við sjálft sig að verulegu leyti.
En þegar sama þing ASÍ reynir að horfast í augu við sjálft sig í því hlutverki fer það undan í flæmingi eins og sjá má á ályktun þess um launakjör stjórnenda. Lausnin á að vera sú að fjárfesta ekki í fyrirtækjum, sem „misbjóða siðferðisvitund alls almennings“. Hvað um fyrirtækin, sem þegar misbjóða þeirri siðferðisvitund, jafnvel þótt lífeyrissjóðir eigi ráðandi hlut í þeim? Ætla þeir að selja þá hluti? Og hvar ætla þeir að fjárfesta í staðinn?
Þingi ASÍ mistókst að takast á við þá nýju stöðu, sem upp er komin í atvinnulífinu. Það gafst upp við það verkefni.
En stóra verkefnið á vinnumarkaðnum er þetta: Það þarf að takast langtímasamkomulag í samfélagi okkar um skiptingu kökunnar. Það þarf ekki að vera erfitt. Það er svo tiltölulega lítill hópur, sem er að brjótast um og reyna að misnota stöðu sína. Enginn er að krefjast þess að launamunur verði þurrkaður út en hann þarf að vera hóflegur. Þeir mælikvarðar ruku út í veður og vind síðustu árin fyrir hrun. Þá þarf að endurreisa. Launamunur var hóflegur á Viðreisnarárunum fyrir hálfri öld, svo dæmi sé tekið.
Fáum þjóðum í Evrópu hefur tekizt betur til en Þjóðverjum að skapa langtíma frið á vinnumarkaði. Viðleitni til þess hófst nokkrum árum eftir heimsstyrjöldina síðari og takmarkaðist í fyrstu við kola- og stáliðnað. Hún byggðist á þátttöku starfsmanna í stjórnun fyrirtækja. Sú hugsun, sem þar lá að baki var síðar með lögum yfirfærð á atvinnulífið allt. Hún gengur undir nafninu Mitbestimmung á þýzku.
Á síðustu 50 árum eða svo eru tvö dæmi um að tekizt hafi að ná breiðri samstöðu á milli stjórnvalda, vinnuveitenda og verkalýðsfélaga um stefnuna í kjaramálum. Hið fyrra er náið samstarf þessara aðila á kreppuárunum 1967-1969, sem leiddi til þess að samfélagið náði sér ótrúlega fljótt á strik eftir eina dýpstu efnahagskreppu 20. aldarinnar. Hið síðara eru þjóðarsáttarsamningarnir 1990, sem áður var minnt á.
Það er tímabært að stjórnvöld hefji nú þegar viðræður við aðila vinnumarkaðar og stjórnarandstöðu um slíka breiða samstöðu um lausn á þeim kjaradeilum, sem nú eru komnar af stað eða eru framundan. Og ekki fráleitt að horfa með öðru auganu til þess hvernig Þjóðverjar hafa tekizt á við þessi úrlausnarefni. Ástæðan er sú að þeirra aðferð er í takt við tíðarandann. Það er ekki lengur hægt að reka fyrirtæki án náins samráðs við starfsmenn og án þess að halda þeim vel upplýstum um reksturinn.
Kannski hafa stjórnmálamenn gengið of langt í að berja kjark í fólk með of bjartsýnum yfirlýsingum um að við séum komin vel á veg upp úr öldudalnum eftir hrun. Sú vegferð er vissulega hafin en það er löng leið eftir. Það er enginn grundvöllur fyrir launahækkunum af því tagi, sem einstakir starfshópar gera kröfur um.
Við höfum líka dæmi í nútímasögu okkar um afleiðingar þess að ganga of langt í launahækkunum. Það var gert með sólstöðusamningunum 1977. Væntanlega þarf ekki að minna forystumenn þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn á þá samninga. Sömu flokkar voru þá í ríkisstjórn. Pólitískar afleiðingar þeirra samninga voru hrikalegar fyrir báða flokkana. Þáverandi ríkisstjórn gerði ekki þá samninga. En hún og þjóðin sátu uppi með afleiðingar þeirra.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is