Mæðgur Ólína G. Viðarsdóttir í Fylkisbúningnum ásamt dóttur sinni, Bergþóru Hönnu Ólínudóttur.
Mæðgur Ólína G. Viðarsdóttir í Fylkisbúningnum ásamt dóttur sinni, Bergþóru Hönnu Ólínudóttur. — Ljósmynd/Einar Ásgeirsson
„Ég var svo sem ekkert viss um að halda áfram í fótbolta þegar keppnistímabilinu lauk en eftir mánaðarfrí þá var mig farið að klæja í tærnar,“ sagði Ólína G.

„Ég var svo sem ekkert viss um að halda áfram í fótbolta þegar keppnistímabilinu lauk en eftir mánaðarfrí þá var mig farið að klæja í tærnar,“ sagði Ólína G. Viðarsdóttir sem skrifaði í gær undir tveggja ára samning um að leika með knattspyrnuliði Fylkis í Pepsi-deildinni.

„Ég fór á fund með Jörundi Áka Sveinssyni, þjálfara, og Þóru B. Helgadóttur fyrir skömmu og það má segja að þau hafi selt mér hugmyndina að koma til liðs við Fylki. Ég gerði upp hug minn á einum degi,“ sagði Ólína sem er þrautreynd knattspyrnukona. Hún hefur leikið 70 A-landsleiki en ákvað í haust að gefa ekki oftar kost á sér í landsliðið. „Nú þegar landsliðið er ekki lengur á dagskrá hjá mér þá get ég einbeitt mér eingöngu að Fylki.“

Ólína var atvinnumaður í nokkur ár í Svíþjóð og á Englandi. Á Íslandi hefur hún spilað með Grindavík, Breiðablik, KR og nú síðast Val, alls 153 leiki og skorað í þeim 41 mark. „Mér líst vel á þann metnað sem ríkir hjá Fylki og hlakka til að taka þátt í uppbyggingu þeirri sem stendur yfir. Stefnan er tekin á taka þátt í toppbaráttunni en hinsvegar gera menn það af raunsæi,“ sagði Ólína G. Viðarsdóttir, knattspyrnukona. iben@mbl.is