Reyndur Jón Arnór er 32 ára gamall og orðinn þrautreyndur atvinnumaður. Hér er hann í leik með Málaga í haust.
Reyndur Jón Arnór er 32 ára gamall og orðinn þrautreyndur atvinnumaður. Hér er hann í leik með Málaga í haust. — Ljósmynd/Unicaja B. Fotopress
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Snjallasti körfuknattleiksmaður þjóðarinnar, Jón Arnór Stefánsson, hafði sem kunnugt er vistaskipti í haust og færði sig til á Spáni.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Snjallasti körfuknattleiksmaður þjóðarinnar, Jón Arnór Stefánsson, hafði sem kunnugt er vistaskipti í haust og færði sig til á Spáni. Jón fór frá Zaragoza til Málaga og leikur nú með einu allra sterkasta liði spænsku deildarinnar Unicaja Baloncesto Málaga. Liðið tekur þátt í Meistaradeild Evrópu eða Euroleague og telst væntanlega til tíu bestu félagsliða í Evrópu.

Jón var hinn rólegasti í sumar og beið yfirvegaður eftir rétta tilboðinu. Hann samdi ekki við Málaga fyrr en viku fyrir fyrsta leik tímabilsins. Þrátt fyrir að koma seint til félagsins hefur hann engu að síður stimplað sig strax inn í liðið og undirstrikar þar með enn og aftur hversu framarlega hann stendur í sinni íþrótt.

„Mér líður eins og ég hafi spilað hérna í ótrúlega langan tíma. Ég hef aðlagast liðinu og leikaðferðinni mjög fljótt. Þjálfarinn hrósar mér reglulega og virðist vera ánægður með mig sem gefur mér aukið sjálfstraust. Ég viðurkenni að það hefur komið mér á óvart hversu vel mér hefur gengið að komast inn í þetta,“ sagði Jón þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans á fimmtudaginn.

Sigrar í fyrstu sjö leikjunum

Unicaja Málaga hefur byrjað tímabilið með látum og unnið alla sína leiki, fjóra í deildinni sem þykir sú sterkasta í Evrópu, og þrjá í Meistaradeildinni (ATH í kvöld). Jón segir liðið spila mjög agað og hinn spænski þjálfari, Joan Plaza, er kröfuharður. „Við förum eftir alls kyns reglum og varnarleikur okkar er frekar flókin. Ég hef þurft að læra heilan helling sem er bara skemmtilegt. Við spilum mjög agressífan varnarleik, einn þann agressífasta sem ég hef tekið þátt í á ferlinum. Ef maður nálgast hlutina af ákveðni, og er með sjálfstraustið í lagi, þá fær maður að spila hjá þessum þjálfara. Mér líst mjög vel á hann. Þetta er gæi sem er harður en sanngjarn og með fínt leikskipulag. Leikmannahópurinn er auk þess settur saman af leikmönnum sem ná vel saman og í liðinu eru engar stórstjörnur. Mér líður vel á vellinum og það skiptir mestu máli. Mér hefur gengið frábærlega í vörninni og í sókninni spila ég eins og ég er vanur, læt boltann ganga og tek skotfæri sem bjóðast,“ sagði Jón en í tólf manna aðalliðinu koma leikmenn frá tíu þjóðum.

Leiður á turnunum tveimur

Sigurganga liðsins í haust kemur ekki beinlínis á óvart þar sem Unicaja Málaga hafnaði í 4. sæti í fyrra en Jón bendir á að liðið hafi nú unnið mjög erfiða útileiki. „Hjá þessu félagi eru alltaf væntingar til þess að ná langt en fyrir utan árið í fyrra, þá hafa síðustu ár ekki verið nægilega góð. Við höfum nú unnið útileiki á móti Gran Canaria og Caja Laboral sem segir manni nokkuð um styrkleika liðsins. Á öllum mínum ferli hef ég aldrei unnið á þessum stöðum enda mjög erfiðir vellir að heimsækja. Auk þess unnum við í Króatíu í Euroleague og ég held að þessi úrslit sýni sigurvilja í liðinu. Ef við verðum heppnir með meiðsli þá ættum við að geta haldið þessari velgengni áfram en það getur verið hálfgert lottó eins og menn þekkja,“ benti Jón á og honum myndi ekki leiðast að hrella íþróttarisana á Spáni í vetur, Barcelona og Real Madrid.

„Þetta „El Classico“ kjaftæði sem ríkir hérna á Spáni, í öllum boltagreinum, er náttúrlega hundleiðinlegt og er óneitanlega farið að fara í taugarnar á mér. Það er erfitt að keppa við þessa tvo turna en við erum ansi stórir í samanburði við alla hina. Ég held að það sé raunhæft markmið fyrir okkur að komast alla vega í undanúrslitin í deildinni og 16 liða úrslit í Euroleague, jafnvel 8 liða. Við gætum verið þar á mörkunum.“

Eins og best gerist í Evrópu

Málaga er sjötta fjölmennasta borgin á Spáni og staðsett í Andalúsíu. Jón er að koma sér fyrir í notalegu loftslaginu við ströndina en fjölskyldan er væntanleg til hans eftir dvöl á Íslandi í sumar og haust. Jón kann vel við sig nærri ströndinni og er afar ánægður með allar aðstæður.

„Félagið er fagmannlegt og hér ríkir mikill metnaður enda á félagið sér glæsilega sögu. Aðstæðurnar eru eins og best gerist í Evrópu. Mig minnir að höllin hjá okkur taki 12 þúsund manns og lætin á leikjunum eru mikil enda traustir stuðningsmenn á bak við félagið. Stuðningurinn er svipaður og hjá Zaragoza en þó aðeins meiri. Auðvitað er auðvelt að dásama allt þegar liðinu gengur svona vel á vellinum, en ég hef á tilfinningunni að við eigum bara eftir að bæta okkar leik þegar líður á tímabilið,“ sagði Jón sem æfði við ekki síðri aðstæður í framhaldi af landsleikjatörn sumarsins. Þá nýtti hann sambönd sín í Texas hjá sínu gamla félagi Dallas Mavericks.

Minningar spruttu fram í Dallas

„Ég var með styrktarþjálfara sem ég æfði hjá og fékk einnig körfuboltaþjálfara sem vann með mér. Ef ég hefði verið aðeins fyrr á ferðinni þá hefði ég getað æft með aðalliðinu en búið var að loka á það. Ég gat náttúrlega fylgst með þeim en það hefði verið gaman að æfa með þeim. Ég kom í mjög góðu formi til Spánar og veitti ekki af því æfingaálagið er mikið, sérstaklega hjá þessum þjálfara sem er með margar æfingar og langar. Hraðinn á æfingunum er mikill og það var smáhögg en tók mig bara nokkra daga að komast yfir það. Ég var með góðan grunn eftir að ég kom frá Dallas og það var skynsamlegra að æfa þar en að vera heima að mála veggi í búðinni,“ sagði Jón og hló en hann og Pavel Ermolinskij, samherji úr landsliðinu, eru ásamt fleirum að opna kjöt- og fiskbúð í Bergstaðastræti. Þess má geta að Pavel var á samningi hjá Málaga sem ungur leikmaður 2004-2005.

Ég heyri á Jóni að hann fékk fiðring við að heimsækja sitt gamla NBA-félag og hugurinn reikar aftur. „Ég á þarna gamla félaga sem var gaman að hitta aftur. Mér finnst svolítið fyndið hvað þessi heimur er í raun nálægt manni. Allt í einu var ég bara mættur á svæðið og kominn inn í klefa hjá þeim eins og einn úr liðinu. Stundum gerir maður sér ekki grein fyrir hvað maður hefur farið víða og kynnst mörgu fólki á ferlinum. Ég á klárlega að nýta mér þessi sambönd betur en það var mjög gaman að koma á fornar slóðir. Ég hugsaði til baka og komst að þeirri niðurstöðu, að hefði ég verið aðeins eldri og þroskaðri hjá Dallas hefði ég kýlt á þetta NBA-dæmi,“ sagði Jón Arnór ennfremur og blaðamaður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvort Jón hefði getað verið meðlimur í Dallas-liðinu sem varð NBA-meistari 2011 ef málin hefðu þróast öðruvísi á sínum tíma.

EM ofarlega í huga Jóns

Að endingu er Jón spurður hvort veturinn sem í hönd fer sé ekki landsliðsmönnum sérstaklega mikilvægur í ljósi þess að lokakeppni EM bíður næsta haust. „Þó að ég einbeiti mér að tímabilinu með Málaga finn ég hvernig fókusinn færist einnig ósjálfrátt á næsta sumar og EM. Ég vonast til þess að menn séu í toppformi og einbeittir í þessu verkefni. Við erum þannig af Guði gerðir, þessir strákar í landsliðinu, að við erum duglegir að æfa en þjálfararnir ráða víst spiltímanum hjá liðunum. Við þurfum að sýna stolt og ná hagstæðum úrslitum en ekki vera bara sáttir við að vera á svæðinu. Það verður spennandi að sjá hvernig unnið verður úr þessu öllu saman og ég býst ekki við öðru en fagmannlega verði staðið að öllum undirbúningi. Ég býst við því að menn séu á tánum,“ sagði Jón Arnór Stefánsson við Morgunblaðið.