Ásmundur Stefánsson
Ásmundur Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásmund Stefánsson: "Hafa áhrif breytinga jaðarskatts verið könnuð sérstaklega og niðurstaðan er skýr. Lækkun jaðarskatta er ekki leið til aukins hagvaxtar."

Horfðu á konuna sem bendir fingri á myndinni. Undanfarið hálft ár hefur hún vakið athygli á því að 85 auðugustu menn heimsins ráða yfir jafn miklum auði og fátækari helmingur jarðarbúa – 3.500.000.000 manns.

Hún fullyrðir að mikill ójöfnuður hamli hagvexti. Hún fullyrðir þvert á viðurkenndar hagfræðikenningar að auknar opinberar tilfærslur dragi ekki úr hagvexti. Hún telur að ójöfnuður sé hagfræðilegt viðfangsefni en ekki aðeins siðferðilegt mál. Þegar þessar fullyrðingar eru skoðaðar í samhengi við hve reiðileg hún bendir fingri álykta einhverjir að hún sé kommúnisti.

Því fer hins vegar fjarri að svo sé. Konan á myndinni er Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fyrrum fjármálaráðherra hægri stjórnar Sarkozy í Frakklandi. Hún berst ekki gegn frjálsu hagkerfi eða alþjóðaviðskiptum. Þvert á móti er hún ákafur talsmaður markaðskerfis og viðskiptafrelsis. Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur hún fylgst með rannsóknum starfsmanna stofnunarinnar. Fullyrðingar hennar byggjast á niðurstöðum þeirra. Rannsakendurnir ganga reyndar svo langt að segjast hvergi sjá merki þess að tilfærslur til jöfnunar ráðstöfunartekna dragi úr hagvexti.

Christine Lagarde er hægri maður sem hefur lyft sér upp úr slagorðakeppninni, horfir raunsætt á sitt umhverfi og hvetur stjórnvöld til að bregðast við ójöfnuði, ekki bara vegna þess að þannig fáum við aukna samtöðu og betri líðan í samfélaginu heldur vegna þess að þannig treystum við hagvöxt. Ójöfnuður er óæskileg afleiðing af ótrufluðu markaðskerfi rétt eins og mengun. Til að markaðskerfið skili sínu þarf hið opinbera að styrkja stoðir velferðarkerfisins.

Afstaðan til ójafnaðar hefur verið til endurskoðunar víðar en hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum. Þannig sendi OECD frá sér skýrslu á liðnu vori þar sem dregið er fram að tekjuaukning samfélagsins síðustu áratugi hefur ekki skipst jafnt milli þegnanna í löndum OECD. Við kynningu skýrslunnar sagði Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD: „Ef ekki verður gripið til samræmdra aðgerða er líklegt að bilið á milli fátækra og ríkra muni vaxa enn meira á komandi árum. Þess vegna er knýjandi að tryggja að þeir tekjuhæstu leggi fram réttmætan hlut af sköttunum.“

Ángel Gurría er ekki öfgafullur vinstrimaður frekar en Lagarde. Sem ráðherra í Mexíkó bar hann ábyrgð á fríverslunarsamningnum við Bandaríkin og var sem fjármálaráðherra þekktur fyrir ítrekaðan niðurskurð opinberra útgjalda. Hann horfir hins vegar á kaldan raunveruleikann og dregur ályktanir af því sem hann sér í gögnum OECD.

Þann raunveruleika sjáum við á myndinni sem hér fylgir og sýnir hlut tekjuhópa í tekjuaukningunni í nokkrum OECD-löndum á þremur áratugum eða frá 1976 til 2007.

Sýnd er hlutdeild tekjuhæsta 1% framteljenda, næstu 9% og loks hlut þeirra 90% sem þá eru eftir. Myndin sýnir að tekjuskipting hefur haldist nánast óbreytt í Danmörku og það sama á raunar við um Frakkland þar sem tekjuhæsta 1% hafði 10% teknanna árið 1976 og fékk 10% aukningarinnar á tímabilinu í sinn hlut. Það sama á ekki við um Bandaríkin þar sem tekjuhæsta 1% hafði 8% teknanna árið 1976 en fékk nærri helming tekjuaukans 1976-2007 í sinn hlut. Tekjulægstu 90% framteljenda í Bandaríkjunum höfðu árið 1976 tvo þriðju heildarteknanna en fengu á tímabilinu 1976-2007 innan við fimmtung tekjuauka samfélagsins í sinn hlut. Tölurnar sýna að þróunin er misjöfn eftir löndum. Utanaðkomandi áhrif skipta auðvitað máli en í meginatriðum getum við sagt að þróunin sé pólitísk ákvörðun í hverju landi fyrir sig.

Ég bætti inn á myndina tiltækum tölum ríkisskattstjóra fyrir Ísland. Því miður eru ekki til tölur sem ná aftur fyrir árið 1992 og í íslensku tölunum er söluhagnaður talinn með sem ekki er í hinum löndunum.

Rannsóknir OECD staðfesta að ójöfnuður knýr ekki hagvöxtinn áfram. Það er ekki að sjá samhengi milli ójafnaðar og hagvaxtar. OECD hefur aftur á móti sýnt fram á að það er sterk fylgni milli jaðarskatts og tekjuhlutdeildar tekjuhæsta 1% framteljenda í tekjum samfélagsins. Það gleymist stundum að það er ekki aðeins lágtekjufólk sem semur um sín kjör. Það gerir hátekjufólk líka. Þar er hins vegar um að ræða beina samninga við atvinnurekanda frekar en kjarasamninga. Ef jaðarskatturinn er hár fær hátekjufólkið lítið af hækkuninni í sinn hlut. Ef horft er úr hinni áttinna kostar það atvinnurekandann mikið að auka tekjur hátekjufólksins. Með lækkun jaðarskatts batnar samningsstaða þeirra tekjuhæstu. Lækkun jaðarskatts er því ekki leið til hagvaxtar heldur ójafnaðar.

Þá hafa áhrif breytinga jaðarskatts verið könnuð sérstaklega og niðurstaðan er skýr. Lækkun jaðarskatta er ekki leið til aukins hagvaxtar. Emmanuel Saez, prófessor við Berkley, hefur ásamt fleirum leitað að samhengi skattabreytinga og hagvaxtar. Í Arrow-fyrirlestri sínum við Stanford á síðasta ári dregur hann fram tölur um tímabilið frá 1960. Þær tölur sýna skýrt að þau lönd sem hafa lækkað hæstu jaðarskatta hafa ekki uppskorið hagvöxt umfram þau lönd sem hafa lækkað jaðarskatta minna eða hækkað þá. Lækkun jaðarskatta er því ekki leið til hagvaxtar heldur misskiptingar.

Hin ráðsetta Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, verður ekki frekar en aðrir sem hér hafa verið nefndir með réttu ásökuð fyrir að vera öfgafull vinstrikona. Hún lét þau orð falla í ræðu nú í október að áratuga stöðnun í lífskjörum almennings í Bandaríkjunum samræmdist ekki þeim grunngildum bandarísks samfélags að allir eigi sömu tækifæri í lífinu. Hún vakti athygli á því að misskiptingin aftrar því að allir fái notið sömu tækifæra og þannig magnast ójöfnuðurinn.

Það er skýrt tákn um þessa stöðnun að rauntekjur fullvinnandi karls sem hefur helming karla fyrir neðan sig í tekjum og helming fyrir ofan, náðu hámarki árið 1973. Tekjurnar hafa að raunvirði verið lægri öll ár síðan.

Við þetta bætist að alþjóðalegar samanburðartölur sýna að hreyfanleiki milli tekjuhópa í Bandaríkjunum er mun minni en gerist á Norðurlöndum. Í skýrslu OECD frá árinu 2012 kom þannig fram að líkurnar á að sonur sitji kyrr í tekjubili föður síns eru þrisvar sinnum meiri í Bandaríkjunum en í Danmörku. Með öðrum orðum, vilji bandarísk fjölskylda upplifa ameríska drauminn er rétt að ráðleggja henni að flytja til Danmerkur.

Jöfnuður er meiri á Íslandi en í flestum ef ekki öllum OECD-ríkjum. Þeirri stöðu eigum við ekki að fórna á altari þess misskilnings að ójöfnuður auki hagvöxt, tekjuaukning hátekjufólks sé forsenda tekjuaukningar almennings og að hagvöxtur muni aukast með lækkun jaðarskatta. Staðreyndirnar tala sínu máli. Alþjóðastofnanirnar virða staðreyndirnar. Við hljótum að gera það líka. Það er ástæða til að staldra við og hugsa þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telur tilfærslur hins opinbera vera til góðs og OECD hvetur lönd til að draga úr frádráttarmöguleikum hátekjufólks og endurmeta eignaskatta og erfðaskatta. Það er almennt hollt að taka mark á staðreyndum. Það á ekki síður við okkur Íslendinga en aðra.

Höfundur er hagfræðingur.

Höf.: Ásmund Stefánsson