Samkeppniseftirlitið Stofnunin tók ekki vel í hugmyndir um að sameinast Póst- og fjarskiptastofnun.
Samkeppniseftirlitið Stofnunin tók ekki vel í hugmyndir um að sameinast Póst- og fjarskiptastofnun. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Lagt er til að nú þegar verði unnið að sameiningu Samkeppniseftirlitsins, Póst- og fjarskiptastofnunar og hluta Orkustofnunar í eina eftirlitsstofnun í minnisblaði sem Páll Ásgrímsson hdl.

Fréttaskýring

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Lagt er til að nú þegar verði unnið að sameiningu Samkeppniseftirlitsins, Póst- og fjarskiptastofnunar og hluta Orkustofnunar í eina eftirlitsstofnun í minnisblaði sem Páll Ásgrímsson hdl. vann fyrir innanríkisráðuneytið í sumar. Nokkuð hefur verið fjallað um viðbrögð Samkeppniseftirlitsins við minnisblaðinu í fjölmiðlum, meðal annars í Kastljósi, en stofnunin leggst gegn öllum fyrirætlunum um sameiningu og telur að þær muni stuðla að veikingu á samkeppniseftirliti og leiða til skaða fyrir íslenskt samfélag. Minna hefur hins vegar farið fyrir upphaflega minnisblaðinu, sem dagsett er 5. júní síðastliðinn.

Byggist á stefnu ríkisstjórnar

Þar kemur fram að ráðuneytið hafi, í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið farið fram á við Juris slf. að taka saman minnisblað um mögulega sameiningu tiltekinna stofnana sem heyrðu undir þessi tvö ráðuneyti. Byggist verkbeiðnin á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og tillögum hagræðingarhópsins svonefnda, þar sem stungið var upp á að athuga valdmörk Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlits með hugsanlegri sameiningu embættanna.

Helstu rökin sem færð eru fram í minnisblaðinu fyrir sameiningunni eru þau að eftir því sem samkeppni verði virkari á fjarskiptamarkaði verði minni þörf fyrir sérreglur um þá samkeppni. Þá sé hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að breytast. Þeim mörkuðum þar sem stofnunin framkvæmi markaðsgreiningar til þess að kanna hvort þörf sé á kvöðum í fjarskiptum hafi fækkað um ellefu, úr átján niður í sjö.

Einnig er bent á það að Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið setji sameiginlegar reglur um meðferð og úrlausn mála sem geti fallið innan bæði laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Segir í minnisblaðinu að þrátt fyrir að þeim reglum sé ætlað að vinna gegn óvissu um valdmörk þessara tveggja stofnana hafi í framkvæmd komið á daginn að slík óvissa geti eftir sem áður verið til staðar, og dæmi séu til um að mál hafi velkst á milli stofnana án niðurstöðu í áraraðir með tilheyrandi kostnaði og réttaróvissu fyrir málsaðila. Eru þau dæmi þó ekki tilgreind nánar.

Önnur verkefni flutt síðar meir

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að auk þeirrar sameiningar komi til álita að færa viss verkefni Neytendastofu, sem og eftirlit með því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, seinna meir til hinnar sameinuðu stofnunar.

Komið er inn á ákvæði fjölmiðlalaga í minnisblaðinu. Færð eru rök fyrir því að færa eftirlit með ákvæðum fjölmiðlalaga í heild eða að hluta til hinnar sameinuðu stofnunar, en Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið fari nú þegar með hluta þeirra verkefna sem fjölmiðlalög kveða á um. Jafnframt kæmi til álita, samhliða þessari sameiningu, að leggja niður eða sameina hinar ýmsu stjórnir, úrskurðar- og áfrýjunarnefndir á þeim réttarsviðum sem stofnanirnar nái til. Hins vegar kemur ekki til álita að færa verkefni Persónuverndar til slíkrar stofnunar að svo stöddu.

Í minnisblaði innanríkisráðuneytisins er farið yfir þær kröfur sem EES-samningurinn geri til sjálfstæðis eftirlitsaðila, og kemur þar fram að einstök aðildarríki hafi sjálfdæmi um stofnanaskipan sína að því gefnu að hlutaðeigandi stofnun hafa alla burði til þess að rækja starfsemi sína á hlutlægan og faglegan hátt.

Miðað við þær forsendur er ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt Evrópureglum að sama stjórnvaldið hafi eftirlit með póst- og fjarskiptareglum og samkeppnisreglum. Engu að síður telji höfundur mikilvægt að sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins hér á landi verði eftir sem áður tryggt með viðeigandi hætti í löggjöf.

Viðbrögð Samkeppniseftirlits

Samkeppniseftirlitinu barst minnisblað ráðuneytisins hinn 12. júní síðastliðinn og fékk þá frest til mánaðamóta júní-júlí til þess að skila af sér umsögn. Hins vegar varð ljóst að það myndi ekki nást og var því beðið um frest, sem fékkst veittur. Var svari Samkeppniseftirlitsins ásamt fjórum fylgiskjölum á samtals 156 blaðsíðum skilað 4. júlí síðastliðinn.

Er í svari stofnunarinnar lögð áhersla á þá þýðingu sem framkvæmd samkeppnislaga hafi fyrir efnahagslíf þjóðarinnar. Er í því samhengi vísað í fylgiskjal, ritað af Gylfa Magnússyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra og fyrrverandi stjórnarformanni Samkeppniseftirlitsins, þar sem hann áætlar að íhlutun stofnunarinnar í samkeppnismál hafi skilað íslensku efnahagslífi um 71 milljarði króna, sé miðað við verðlag hvers árs. Kemur jafnframt fram að þegar sú tala er reiknuð út frá verðlagi í maí á þessu ári geri það um 98 milljarða króna.

Segir í samantekt Samkeppniseftirlitsins að þau rök sem kynnt hafi verið fyrir sameiningu leyfi ekki „þá ályktun að slík sameining sé skynsamleg og muni skila árangri“.

Er ekki fallist á þá skýringu að valdmörk Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar séu óljós eða skapi réttaróvissu. Hið sama eigi við um fjölmiðlanefnd og raforkueftirlit Orkustofnunar. Er sérstaklega tekið fram að nærri því 90% af ráðstöfunartíma stofnunarinnar fari í aðra markaði en þá sem hinar stofnanirnar sjái um.

Rekstrarhagræði ólíklegt

Þá er það sagt ólíklegt að verulegt rekstrarhagræði myndi hljótast af sameiningu umræddra stofnana umfram þá hagræðingu sem hægt væri að ná fram með samvinnu þeirra á milli, og að sameiningin myndi ekki leiða til einfaldara regluverks. Segir þó að Samkeppniseftirlitið telji rétt að kanna nánar hvort ná megi fram rekstrarlegri samlegð með aukinni samvinnu stofnananna. Þá mætti einnig skoða hvort ekki mætti auka skilvirkni og hagræði í rekstri úrskurðarnefnda almennt með því að skapa þeim sameiginlega aðstöðu til funda, málflutnings og skrifstofuþjónustu.

Meginþunginn í málflutningi Samkeppniseftirlitsins er því sá að ekki verði ráðist í endurskoðun á skipun samkeppnismála án þess að víðtækt samráð verði haft á öllum stigum þeirrar endurskoðunar. Leggur Samkeppniseftirlitið ríka áherslu á að þær stofnanir sem eigi í hlut komi þar að.

Rætt um fordæmi Hollands

Í minnisblaði innanríkisráðuneytis er fjallað um alþjóðlega þróun í þessum efnum, og þá einkum reynslu Hollendinga, sem hafi nýlega steypt saman eftirliti með samkeppni, póst- og fjarskiptaeftirliti og neytendaeftirliti í eina stofnun, auk þess sem eftirlit með orkugeiranum tilheyrði þá þegar samkeppniseftirlitinu. Einnig eru nefnd dæmi um hliðstæða þróun í Bretlandi, Danmörku og á Spáni. Greinir höfundur minnisblaðsins minnst fjórar mismunandi gerðir af aukinni samrunaþróun á sviði samkeppnismála í Evrópu.

Í svari Samkeppniseftirlitsins er hins vegar reynt að sýna fram á að dæmi þau sem nefnd séu í minnisblaðinu séu ekki alls kostar rétt. Er þróunin því sérstaklega rakin í 56 blaðsíðna fylgiskjali. Þar er sérstaklega fjallað um dæmi Hollands og vísað til Annete T. Otjow, prófessors í Hollandi, sem segir að ákvörðunin um að sameina stofnanirnar hafi verið pólitísk í eðli sínu, en ekki tengd auknu hagræði. Þá sé ekki komin næg reynsla á það fyrirkomulag enn til þess að meta hversu vel breytingarnar hafi reynst.