Um 550 manns sóttu starfakynningu Eures í Noregi sem haldin var á Centerhotel Plaza í miðborg Reykjavíkur í gær. Það eru um helmingi fleiri en sóttu starfakynningu níu norskra fyrirtækja í fyrrahaust.

Um 550 manns sóttu starfakynningu Eures í Noregi sem haldin var á Centerhotel Plaza í miðborg Reykjavíkur í gær. Það eru um helmingi fleiri en sóttu starfakynningu níu norskra fyrirtækja í fyrrahaust. Sá atburður var hins vegar lítið auglýstur og er aðsóknin í takt við síðustu kynningar Eures á Íslandi.

Til samanburðar sóttu um 2.500 fyrstu starfakynningu Eures á Íslandi eftir hrun. Fyrsta kynningin á vegum Eures á Íslandi var haldin 2006 og hefur verið árlegur viðburður síðan. Þrettán sveitarfélög og fyrirtæki í Noregi kynntu tækifæri fyrir Íslendinga til starfa ytra í gær. Atvinnurekendur kostuðu viðburðinn sem var á vegum Eures í Noregi.

Fjölbreyttur hópur Íslendinga

Þóra Ágústsdóttir, verkefnisstjóri hjá Eures á Íslandi, samstarfsvettvangs opinberra vinnumiðlana á EES-svæðinu, segir fjölbreyttan hóp hafa kynnt sér störfin.

„Við höfum talað við alls konar fólk. Það hafa t.d. komið margir bílstjórar. Það virðist vanta bílstjóra í Noregi. Að minnsta kosti tvö fyrirtæki hafa leitað að bílstjórum. Fyrirtækin gera kröfur. Þau vilja fólk sem hefur öll leyfi, reynslu og menntun og helst fólk sem talar Norðurlandamálin.“

Spurð um atvinnuástandið í Noregi segir Þóra atvinnuleysi heldur að aukast. „Norðmenn vantar hins vegar fólk í vissar greinar.“

Hún segir laun í Noregi „virðast vera betri“ en á Íslandi. Þau séu þó ekki jafn há og á uppgangsárunum 2007-9 í Noregi. baldura@mbl.is