Ég sakna fortíðarinnar,“ skrifar Hjelmer Hammeken, veiðimaður í Ittoqqortoormit á Grænlandi, í grein sinni í blaðauka, Þar sem ísinn rymur, sem fylgdi Morgunblaðinu í gær. Hammeken lýsir þeim miklu breytingum, sem nú eiga sér stað á Grænlandi vegna loftslagsbreytinga. Ísinn sé að hverfa. Tímarnir sem hann saknar eru ekki langt að baki, aðeins 15 til 20 ár. Svo hraðar eru breytingarnar.
Breytingarnar á norðurslóðum hafa leitt til kapphlaups og áhuginn einskorðast ekki við þjóðir í norðri. Í þessari viku fara fram tvær ráðstefnur í Reykjavík um málefni norðurslóða, sú fyrri á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, en sú síðari á vegum Hringborðs norðurslóða, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti átti stóran þátt í að setja á laggirnar.
Kínverjar hafa sýnt þróun mála á norðurslóðum mikinn áhuga, Evrópusambandið fylgist grannt með málum og Bandaríkjamenn gætu verið að taka við sér. Áhugi Rússa hefur ekki farið á milli mála og meðal þátttakenda í ráðstefnunni er landkönnuðurinn Artur Chilingarov, sem 2007 fór á kafbáti niður á hafsbotn til að setja rússneska fánann á Norðurpólinn. „Norðurskautið er rússneskt,“ var haft eftir honum. „Við verðum að sanna að Norðurpóllinn sé framlenging af rússneska landgrunninu.“
Í aukablaðinu Þar sem ísinn rymur, sem dreift er á ráðstefnu Hringborðs norðurslóða, segir frá leiðangri, sem farinn var á skútunni Hildi um Scoresbysund. Frábærar og sláandi myndir Ragnars Axelssonar sýna volduga borgarísjaka og hopandi jökla. Ragnar skrifar grein í blaðið um förina í þennan undraheim. „Á norðurslóðum er mikið að gerast sem er fjarri venjulegu lífi stórborganna en gæti skipt máli fyrir framtíð fólks á jörðinni,“ skrifar hann. „Þar er bæði ógn fyrir heiminn þegar ísinn bráðnar og yfirborð heimshafanna hækkar. Þar eru einnig tækifæri sem maðurinn mun nýta sér þegar siglingaleiðir norðurslóða opnast.“
Haraldur Sigurðsson, prófessor í haffræði við Háskólann á Rhode Island, var með í leiðangrinum. Hann fer í grein sinni í blaðinu yfir hina flóknu jarðsögu Grænlands, sögu byggðar á landinu og veltir vöngum yfir áhrifum hlýnunar og því sem framtíðin ber í skauti sér. Þar kemur fram að gríðarleg auðæfi og eftirsótt búi í jörðu á Grænlandi, en aðstæður séu erfiðar til að vinna þau og því fylgi mikil náttúruspjöll. „Hvergi á jörðu er jafn stórbrotið landslag og einstök náttúra sem á Grænlandi, óspillt, einangruð og villt,“ skrifar Haraldur. „ Hér á Grænlandi er að mínu áliti eitt mesta ónumda ferðamannaland tuttugustu og fyrstu aldarinnar.“
Öðrum leiðangursmanni, Heiðari Guðjónssyni hagfræðingi, verður í grein sinni tíðrætt um möguleikana, sem fylgja breytingum á norðurslóðum og hann færir rök að því að þar séu Íslendingar sérlega vel í sveit settir, á Íslandi séu „þróuðustu innviðir sem um getur á svæðinu“ og bætir við: „Hvað varðar Atlantshafshlutann af norðurheimskautinu bjóða fáir staðir upp á meiri möguleika en Ísland.“
Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands og núverandi sendiherra Frakka á heimskautasvæðum, er meðal þátttakenda í ráðstefnunni. Hann hefur reynt að tryggja að ríki sem ekki eiga land að norðurheimskautssvæðinu geti haft áhrif á reglur og ákvarðanir sem einkum eru nú teknar á vettvangi Norðurheimskautsráðsins þar sem Ísland er eitt aðildarríkja. Svipaðan tón mátti heyra í fleirum á ráðstefnunni þegar hún var sett í gær.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, benti í ávarpi frá Þýskalandi á að Norðurheimskautið væri ekki lokað svæði. Það sem þar gerðist hefði áhrif um allan heim og því væri ábyrgðin allra, hvort sem það væri á sviði utanríkis- og öryggismála, eða viðskipta- og umhverfismála. Hún sagði að skoða ætti að ákveðin svæði á Norðurheimskautinu nytu sérstakrar verndar.
„Það sem gerist á Norðurheimskautinu er ekki bara bundið við Norðurheimskautið,“ sagði Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og bætti við að því væri staðan þar mál allra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði við setningu þingsins að mikil tækifæri lægju í þeim breytingum, sem nú ættu sér stað á norðurheimskautinu, og mikið væri í húfi. Takast yrði á við loftslagsbreytingar og koma í veg fyrir hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum, en hann væri bjartsýnn, enda svæðinu vel stjórnað:
„Ég er bjartsýnn á að við getum fetað hinn gullna meðalveg, finna nauðsynlegt jafnvægi og takast á við – í góðri samvinnu – tækifæri jafnt sem áskoranir,“ sagði hann.
Ljóst er að miklar breytingar eiga sér nú stað á norðurslóðum. Í þeim felast bæði tækifæri og hættur.