Innanlandsflug Jón Gnarr og Ögmundur Jónasson ásamt fjölda gesta við undirritun samkomulagsins.
Innanlandsflug Jón Gnarr og Ögmundur Jónasson ásamt fjölda gesta við undirritun samkomulagsins.
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, undirrituðu samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli hinn 19. apríl, 2013.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, undirrituðu samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli hinn 19. apríl, 2013. Samkomulagið var undirritað með fyrirvara um samþykki borgarráðs.

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og alþingismaður, ritar á heimasíðu sína „Skjalið var aldrei kynnt borgarráði, og þaðan af síður samþykkt af því. Það er því með öllu gildislaust.“

Morgunblaðið spurði Ögmund Jónasson alþingismann að því í gær hvort honum hefði verið kunnugt um að samkomulag hans og Jóns Gnarr hefði ekki verið kynnt og samþykkt í borgarráði:

Borgin stóð ekki við sitt

„Nei, mér var ekki kunnugt um það. Ég leit á þetta samkomulag, sem vissulega var lengi í vinnslu og mótun, sem heildstætt, endanlegt og fullmótað samkomulag.

En það liggur hinsvegar fyrir að ekki var staðið við þetta samkomulag af hálfu borgarinnar,“ sagði Ögmundur.

Hann sagði að hefði borgin staðið við samkomulagið væri uppbygging á aðstöðu fyrir innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli komin miklu betur á veg. Ögmundur segir að sett hafi verið mjög ströng skilyrði í samkomulaginu, sem öll hafi þurft að ganga eftir varðandi framtíð innanlandsflugsins.

Innkoma Icelandair óeðlileg

Ögmundur bendir á að það sem svo hafi gerst í október í fyrra, þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Jón Gnarr gerðu með sér samkomulag um innanlandsflug, sem gerði ráð fyrir því að flugstarfsemi viki úr Vatnsmýrinni í áföngum, væri þvert á það samkomulag sem hann og Jón Gnarr hefðu gert með sér hálfu ári áður.

„Ég tek sem dæmi að í stað þess að Isavia taki yfir flugbyggingarnar og eigi aðild að uppbyggingunni fyrir hönd ríkisins, þá er skyndilega eitt fyrirtæki komið inn í hið nýja samkomulag, Icelandair. Það tel ég vera mjög óeðlilegt, í ljósi þess að það eru fleiri flugfyrirtæki sem nýta sér flugvöllinn,“ sagði Ögmundur.

Morgunblaðið reyndi ítrekað í gær að ná tali af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, sem var formaður borgarráðs þegar Ögmundur og Jón Gnarr undirrituðu samkomulagið, til þess að spyrja um ástæður þess að samkomulagið hefði hvorki verið kynnt í borgarráði, né samþykkt þar. Dagur svaraði hvorki síma, skilaboðum né tölvubréfi.

Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að samkomulagið sem gert var í apríl 2013 hefði verið á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar. Isavia hefði ekki verið aðili að samkomulaginu, þótt það hefði vissulega haft hlutverki að gegna samkvæmt samkomulaginu eins og því að taka yfir rekstur og eignarhald á núverandi flugstöð Flugfélags Íslands.

Borgarstjórinn í felum?

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri var formaður borgarráðs í apríl í fyrra, þegar þeir Ögmundur Jónasson og Jón Gnarr gerðu með sér samkomulag milli ríkis og borgar um endurbætur á Reykjavíkurflugvelli.

Morgunblaðið reyndi ítrekað í gær að ná tali af Degi, til þess að spyrja um ástæður þess að samkomulagið hafi hvorki verið kynnt í borgarráði, né samþykkt þar. Dagur svaraði hvorki síma, skilaboðum né tölvubréfi.

Dagur býður upp á það, þegar hringt er í farsíma hans, að sá sem hringir skilji „endilega eftir skilaboð“. Blaðamaður gerði það, en engin bárust svörin. Þá býður Dagur upp á að honum sé ritaður tölvupóstur á netfangið dagur@reykjavik.is Blaðamaður gerði það líka, en engin bárust svörin.

Einnig voru skilin eftir skilaboð á skrifstofu borgarstjóra, en engin bárust svörin frá Degi B. Eggertssyni.