Ekkert miðaði á fundi samninganefndar tónlistarskólakennara og sveitarfélaganna í gær. Að sögn Sigrúnar Grendal, formanns Félags tónlistarskólakennara, lögðu kennarar fram hugmynd til lausnar sem hún segir að hafi ekki verið tekið fagnandi.

Ekkert miðaði á fundi samninganefndar tónlistarskólakennara og sveitarfélaganna í gær. Að sögn Sigrúnar Grendal, formanns Félags tónlistarskólakennara, lögðu kennarar fram hugmynd til lausnar sem hún segir að hafi ekki verið tekið fagnandi. Næsti fundur hafi verið boðaður í síðasta lagi á þriðjudag.

Hún gagnrýnir Reykjavíkurborg harðlega fyrir að halda viðræðunum í gíslingu og eiga stóran þátt í því sem sé ekki hægt að kalla annað en aðför að tónlistarskólakerfinu.

Eftir að ríki og sveitarfélög gerðu með sér samkomulag um að efla tónlistarnám árið 2011 hafi borgin verið eina sveitarfélagið sem túlkaði það þannig að hún gæti dregið úr fjárveitingum sínum á móti þrátt fyrir að sveitarfélögum beri skv. lögum að standa undir launakostnaði skólanna. Skólarnir í Reykjavík hafi barist í bökkum síðan þá og fjárhagsstaða þeirra aldrei verið verri. Þeir séu bitbein ríkis og sveitarfélaga um fjármagn.

„Manni sýnist að menn ætli að fara í hrossakaup með þetta samkomulag og hvernig þeir ætla að koma tónlistarskólakerfinu fyrir í framtíðinni. Við verðum eins og skiptimynt. Það vill enginn borga brúsann,“ segir Sigrún.