Spurningin „Hvað er blaðamaður?“ verður sífellt áleitnari. Í heimi þar sem allir eru að deila upplýsingum í formi texta, mynda og/eða upptaka, verður æ erfiðara að skilgreina hugtakið.

Spurningin „Hvað er blaðamaður?“ verður sífellt áleitnari. Í heimi þar sem allir eru að deila upplýsingum í formi texta, mynda og/eða upptaka, verður æ erfiðara að skilgreina hugtakið. Samkvæmt Google er blaðamaður „manneskja sem skrifar fyrir fréttablöð eða tímarit eða undirbýr fréttir fyrir útsendingu í útvarpi eða sjónvarpi“. Merriam Webster gefur tvær skýringar á „blaðamaður“: a. manneskja sem stundar blaðamennsku, b. manneskja sem skrifar fyrir fjölmennan lesendahóp. Wikipedia segir okkur að blaðamaður sé sá sem vinnur við að „safna, skrifa og dreifa fréttum og öðrum viðeigandi upplýsingum“.

Flestir eru sammála um að einhvers staðar megi draga línu; gera greinarmun á þeim sem stunda „alvöru“blaðamennsku og hinna sem einnig miðla upplýsingum en viðhafa e.t.v. aðrar aðferðir en þær sem hefðbundin blaðamennska gerir kröfu um. En flóðbylgja upplýsingamiðlara; bloggara, tístara og instagrammara, hlýtur óneitanlega að kroppa í áheyrendahóp stóru fjölmiðlanna. Margir hafa reynt að beisla þennan sprengikraft, t.d. með því að hvetja almenning til að miðla frétta- og myndefni í gegnum vefútgáfur sínar og aðrir, s.s. Guardian, hafa gert lesendur sína að þátttakendum í blaðamennsku og m.a. biðlað til þeirra um aðstoð við að tækla óviðráðanlegt gagnamagn (23.000 lesendur fóru t.d. yfir 400.000 skjöl um útgjöld þingmanna með þar til gerðu snjallsímaforriti).

Svarið við spurningunni „Hvað er blaðamaður?“ er ekki bara heimspekileg heldur getur hún skipt sköpum. Henni hefur m.a. verið kastað fram í tengslum við uppljóstranir Edwards Snowden, sem varpaði ljósi á umfangsmiklar gagnanjósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar. Menn hafa t.d. velt því fyrir sér hvort blaðamaðurinn Glenn Greenwald, sem hefur fjallað um gagnasöfnun NSA og fjölmiðla og ríkisvaldið af mikilli ástríðu, sé fyrst og fremst aðgerðasinni. Sem slíkur nyti Greenwald, sem sér þann kost vænstan að búa í Brasilíu, ekki þeirra réttinda sem blaðamönnum eru víða tryggð til að þeir geti stundað vinnu sína óhindrað.

Greenwald hefur sjálfur talað um hættu þess að blaðamennska verði bitlaus þegar blaðamenn leitast fyrst og fremst við að virðast fullkomlega hlutlausir. Í bréfasamskiptum við Bill Keller, fyrrverandi ritstjóra New York Times, sagði hann m.a.: „Blaðamaður sem er skíthræddur við að virðast lýsa einhverri skoðun mun gjarnan stýra framhjá fullyrðingum um það sem er satt og velja þess í stað huglausa og óhjálplega „hérna er það sem báðir aðilar segja og ég greiði ekki úr ágreiningnum“ formúlu.“ Þá segir Greenwald að gera þurfi greinarmun á þeim blaðamönnum sem koma hreint til dyranna varðandi skoðanir sínar og afstöðu og þeim sem fela þær fyrir lesendum eða þykjast skoðanalausir. Þeir síðastnefndu séu ekkert annað en goðsögn.

holmfridur@mbl.is

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir