[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Stórt skref var stigið í vikunni í undirbúningi lagningar nýs vegar og háspennulína á milli Suður- og Norðurlands, um Sprengisand.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Stórt skref var stigið í vikunni í undirbúningi lagningar nýs vegar og háspennulína á milli Suður- og Norðurlands, um Sprengisand. Kynnt voru drög að tillögu að matsáætlun fyrir báðar framkvæmdirnar og markar það upphaf að umhverfismatsferli.

Landsnet og Vegagerðin hafa unnið saman að undirbúningi framkvæmda í samvinnu við Landsvirkjun og viðkomandi sveitarfélög. Landsnet hefur dregið vagninn enda telur fyrirtækið þörf á því að taka út flöskuhálsa í raforkukerfinu sem leitt hafa til vandræða á Norður- og Austurlandi. Áform Landsnets um endurnýjun byggðalínunnar um Norðurland mætir andstöðu í einstökum héruðum og fyrirtækið hefur því sett tengingu kerfisins með línu yfir hálendið ofar á dagskrá.

Ekki komið að framkvæmdum

„Lína og vegur voru sett á svæðisskipulag og einhvern tímann verða menn að ákveða legu þeirra. Það hafa allir verið sammála um að háspennulínan og upplifun ferðamanna sem þarna fari um í framtíðinni séu nátengd mál og þurfi því að ákveða legu mannvirkjanna á sama tíma. Festa niður hvar vegurinn á að vera þannig að vegfarendur verði sem minnst varir við línuna,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Hönnuðir Landsnets og Vegagerðarinnar hafa stillt saman tímaáætlanir í umhverfismatsferli og kynningum.

Lagning nýs vegar um Sprengisand, sem kostar 10 til 12 milljarða, er ekki á áætlun Vegagerðarinnar fyrir næstu ár og ekki útlit fyrir að hann verði lagður fyrr en í fyrsta lagi eftir 10 til 15 ár. Miðað við þær fjárveitingar sem stofnunin fær nú á hún fullt í fangi með að halda við núverandi vegum og vinna að nauðsynlegustu framkvæmdum í byggð. Hreinn bendir þó á að Sprengisandsleið sé einn af stofnvegum í grunnneti landsins, ein af fjórum hálendisleiðum sem þar eru skilgreindar. Samkvæmt langtímaáætlun beri Vegagerðinni að líta til þessa vegar, þótt ekki sé komin tímasett áætlun um framkvæmdir.

Niðurgrafinn malarvegur

Sprengisandsleið er seinfarinn fjallvegur, aðeins opinn í stuttan tíma á sumri og aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum. Á löngum köflum er vegurinn grófur malarvegur og á þurrum dögum standa rykstrókarnir aftur úr bílunum. Leiðin er opnuð í júlí og lokast yfirleitt í fyrstu snjóum á haustin. Leiðin liggur hátt yfir sjó, mest í um 800 metra hæð. Sprengisandur er ferðamannaleið og ekki almennt notaður sem tenging á milli landshluta eða til flutninga. Helstu farartálmarnir á leiðinni eru tvær óbrúaðar jökulár, Fjórðungakvísl við Nýjadal og Hagakvíslar 5 km norðar. Umferð er ekki mikil. Á syðsta hlutanum er umferðin um 200 bílar á sólarhring á sumrin, en aðeins um 20 bílar á sólarhring á nyrsta hlutanum.

Leiðin á milli byggða á Suður- og Norðurlandi er um 240 kílómetra löng. Landsvirkjun hefur staðið fyrir vegagerð á sunnanverðum Sprengisandi vegna virkjana sinna þar. Þar er vegurinn uppbyggður og ár brúaðar. Sá hluti Sprengisandsleiðar sem fyrirhugað er að endurbyggja er 216 kílómetra langur.

Við það umhverfismat sem nú er formlega hafið verður valið á milli tveggja leiða og þær bornar saman við núverandi veg. Vegagerðin hafnar raunar núverandi vegi sem valkosti, telur hann vegtæknilega óviðunandi auk þess sem aðeins er hægt að halda honum opnum lítinn hluta ársins.

Í núgildandi skipulagi er gert ráð fyrir að farið verði með Sprengisandsleið vestur fyrir Kvíslaveitur. Það er gula leiðin á kortinu, kölluð V5. Verði hún farin myndi leiðin styttast um rúma 30 kílómetra, verða 187 km í stað 219 km. Hinn valkosturinn er rauða leiðin, V2, sem liggur mikið samsíða núverandi Sprengisandsleið og nýtir slóða og vegi sem fyrir eru. Hún er tæpir 200 kílómetrar.

„Nokkuð“ uppbyggður

Gert er ráð fyrir að nýi vegurinn verði 8 kílómetra breiður og „nokkuð uppbyggður“. Tölur um veghæð eru enn til umræðu hjá Vegagerðinni en nefnt er í fyrstu tillögum að hann muni standa 0,6 til 1,2 metra upp úr landinu. Hann verður lagður bundnu slitlagi og hannaður fyrir 70 til 90 kílómetra hámarkshraða en tekið fram að í einstaka tilvikum gæti hraðinn farið niður í 50 km. Ljóst er því að vegurinn verður mikil samgöngubót, verði hann lagður, en í fyrstu drögum er þó ekki gert ráð fyrir heilsárvegi.

Nær að halda vegunum við

„Þetta er grundvallarspurning. Viljum við gera Ísland sem líkast öðrum Evrópulöndum? Ef svo er þá skulum við leggja vegi hvar sem er,“ segir Ómar Ragnarsson, fréttamaður og umhverfisverndarsinni. Hann tekur fram að hann sé ósammála þessum sjónarmiðum og segist telja að mesta gildi Íslands sé að það sé ekki eins og önnur lönd. Sérstaða þess felist meðal annars í náttúrunni.

Ómar skilur ekki forgangsröðina hjá Vegagerðinni. Hún hafi ekki peninga til að hefla Kjalveg og vanræki alla byggðavegi á Íslandi. Samt séu þeir að djöflast í Sprengisandsleið. „Ekki er hægt að líta á lagningu vegar og viðhald hans og rekstur sem aðskilda hluti. Vegirnir eru að grotna niður og ekki hægt að bjóða ferðamönnum að fara um þá. Það þarf fyrst að halda því við sem við eigum áður en farið er út í stórkostlega vegagerð út og suður.“

„Það er allt í lagi að dytta að vegslóðanum um Sprengisand en það eru ekki til peningar í það. Alltaf þegar kemur upp hugmynd um að gera nýjan trukkaveg fyrir 90 kílómetra hraða er til nóg af peningum. Mér finnst alveg nóg að Kjalvegur skuli smám saman sviptur sínum gamla sjarma og þá er þetta það eina sem eftir er,“ segir Ómar og vekur athygli á því að Sprengisandsvegur stytti ekki leiðina á milli Norðurlands og Suðurlands.

„Það skemmtilegasta í þessu er að nú á að gera ósýnilegar rafmagnslínur yfir Sprengisand. Þær eiga að liggja þrisvar eða fjórum sinnum yfir veginn en samt verða ósýnilegar. Þetta er dásamleg hugmynd.“

Landvernd og fleiri samtök standa fyrir baráttu gegn frekara raski á miðhálendinu og fyrir verndun víðerna og vísa þar meðal annars til virkjana, uppbyggðra vega og raflína. Safnað er stuðningi við kröfurnar á vefsíðunni hjartalandsins.is.