Samhentir Leikstjórinn og hluti handritahópsins. Upptalning frá vinstri: Hjálmar Hjálmarsson, Arnar Ingi Tryggvason, Ómar Ólafsson, Jón Bjarni Ísaksson, Arnór Sindri Sölvason og Davíð Örn Óskarsson.
Samhentir Leikstjórinn og hluti handritahópsins. Upptalning frá vinstri: Hjálmar Hjálmarsson, Arnar Ingi Tryggvason, Ómar Ólafsson, Jón Bjarni Ísaksson, Arnór Sindri Sölvason og Davíð Örn Óskarsson. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikfélag Keflavíkur frumsýndi í gærkvöldi revíuna „Með ryk í auga“ . Margir höfundar koma að gerð revíunnar, enda sjá augu betur en auga þegar skoða á spaugilegu hliðar mannlífsins í sveitarfélagi með yfir 14.000 manns

Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbær

Íbúar í Reykjanesbæ hafa vanist því að ný revía líti dagsins ljós með reglulegu millibili, nánast eins reglulega og sveitarstjórnarkosningar eru. Stjórnmálamenn hafa enda löngum verið skotspónar revíuhöfunda og í nýrri revíu Leikfélags Keflavíkur „Með ryk í auga“ er engin undantekning þar á. Reyndar eru stjórnmálamennirnir ekki þeir einu sem horft er á með spégleraugum, heldur á ýmsa menn og málefni, enda bæjarfélagið stórt og oft og tíðum í fréttum. Handritshópur revíunnar er fjölmennur, margir reynsluboltar en einnig nýliðar sem hafa verið að læra af þeim eldri og reyndari. Blaðamaður hitti Hjálmar Hjálmarsson leikstjóra og Arnar Inga Tryggvason, Arnór Sindra Sölvason, Jón Bjarna Ísaksson og Ómar Ólafsson úr röðum höfunda. Aðrir sem koma að handritsgerðinni eru Davíð Örn Óskarsson, Gustav Helgi Haraldsson og Júlíus Guðmundsson.

Arnór Sindri Sölvason og Jón Bjarni Ísaksson eru yngstu höfundarnir í handritshópnum, sá fyrri flutti að fyrir átta árum en sá síðarnefndi er fæddur hér og uppalinn. Þeir segja ólíka handritshöfunda einmitt vera kostinn við þessa samvinnu. „Handritshópurinn er á mismunandi aldri og öll upplifum við bæjarfélagið á mismunandi hátt. Við erum heldur ekki öll héðan, t.d. ég, svo skiptir líka máli hvort þú ert Keflvíkingur eða Njarðvíkingur,“ sagði Arnór Sindri. Á hugarflugsfundunum var ýmsum hugmyndum og spurningum kastað á loft, eins og „Hvað dettur okkur í hug þegar við heyrum orðið Reykjanesbær?“ og unnið var út frá því. Hvað er gott, hvað er slæmt? Jón Bjarni sagði þá Arnór hafa unnið mikið saman og þegar kæmi að lagatextum væri Arnór sérstaklega lunkinn. Söngur er alltaf vinsæll í revíum.

Pólitíkin sjálf hálfgerð revía

Aðspurðir hvort alltaf væri af nógu að taka í Reykjanesbæ stóð ekki á svari. „Þetta ár hefur verið stórt og viðburðaríkt. Það voru kosningar og upp úr þeim kom ný bæjarstjórn og nýir einstaklingar settust við völd. Það er auðvitað ekki langt síðan nýr meirihluti var myndaður en við erum að fara yfir allt sem hefur verið í gangi sl. 3 ár. Hér er líka horft á hvernig fyrri meirihluti sjálfstæðimanna brást við þegar nýr meirihluti kom að völdum.“ Ómar Ólafsson og Arnar Ingi Tryggvason voru sammála um að pólitíkin væri þannig að það væri svo auðvelt að fjalla um hana í þessu leikformi, auk þess sem hún sæi jafnan um sig sjálf, væri oft hálfgerð revía. „En hlutirnir verða oft skýrari í svona spéspegli, þegar maður greinir kjarnann frá hisminu þá kemur oft myljandi fyndni í ljós,“ sagði Ómar. Arnar Ingi bætti við að þetta væri eiginlega bara naflaskoðun á samfélaginu í víðu samhengi og sagðist lofa miklu fjöri.

Höfundarnir fjórir segja því af og frá að í revíunni sé bara talað um pólitík. „Nei, nei. Revían er full af þáttum, sk. sketch-um, þar sem bæði menn og málefni eru tekin fyrir. Keflavík music festival er eitt dæmi og ýmsir þekktir einstaklingar í bæjarlífinu fá sinn skerf. Við skoðuðum líka hvernig menning er í bænum og metum hvað fólki finnst um bæinn almennt.“ Nýrisinn stefnumótastaur úr dægurlaginu „Skólaball“ eftir Keflvíkinginn Magnús Kjartansson blasti við blaðamanni á sviðinu svo væntanlega eru honum gerð skil í revíunni og Guðmundi Stefáni Gunnarssyni yfirþjálfara hjá júdódeild UMFN sést bregða fyrir í sínum fræga bindisbol, sem hann klæddist m.a. í kosningabaráttunni sl. vor.

Margir áberandi karakterar í Reykjanesbæ

Það sem kom handritshöfundum ekki síst á óvart við vinnuna er hversu oft Reykjanesbær er í fréttum, svona þegar þeir fóru að hlusta eftir því. Þeir sögðu Hjálmar Hjálmarsson leikstjóra einnig hafa komið með nýjar fréttir í hús á hverri æfingu, fréttir sem hann hafði heyrt í útvarpinu á leiðinni, bæði jákvæðar og neikvæðar. Hjálmar sagði þetta svo sem ekkert undarlegt, þetta væri ekki síður stórt landsvæði en stórt bæjarfélag. „Það kemur mjög oft fyrir þegar ég er á leiðinni hingað að það berast fréttir úr bænum eða af svæðinu. Ég kann enga skýringu á því, nema það sé mikil aksjón í bænum. Þið eruð með völlinn, eruð að taka á móti hælisleitendum, eruð með mikið af nýbúum og það er ýmislegt sem gerist í tengslum við þetta. Svo eruð þið með áberandi karaktera hér, þetta er náttúrlega gamli bítlabærinn og flottir listamenn sem koma héðan og þið hafið verið mjög dugleg í menningarlífinu, að setja ykkur á stall, þannig að það er margt sem hjálpast að við að gera Reykjanesbæ að miðpunkti Íslands með reglulegum hætti,“ sagði Hjálmar í samtali við blaðamann.

– Hvað er það við revíur sem gerir þær svona vinsælar?

„Ég veit það ekki alveg en hitt veit ég að það er lífsnauðsynlegt að hafa smá húmor og gera grín, bæði að okkur sjálfum og náunganum, sérstaklega þeim sem eru mest áberandi og taka sér þá stöðu, eins og pólitíkusarnir og „fræga fólkið“ og það allt saman. Það er nauðsynlegt fyrir „almúgann“ að fá að gera grín að „kónginum“ með reglulegu millibili eins og gert var í gamla daga. Ég myndi segja að þetta væri nauðsynlegur spéspegill en í stærri samfélögum er þetta gert í sjónvarpinu, Áramótaskaupið og Spaugstofan, en það sem er svo gaman hér í þessu bæjarfélagi er að þetta samfélag er ennþá það lítið og þétt að þetta er hægt. En þetta er einsdæmi því þetta er stórt svæði, alþjóðasamfélag með fjölbreyttu mannlífi og ég held að það sé nauðsynlegt að fá að hlæja aðeins að sjálfum sér og stjórnmálamönnunum. Hér er líka hlægilegt fólk og svo náttúrlega mikið af hæfileikaríkum leikurum og sprellfjörugum höfundum sem hrista þetta fram úr erminni af því að þessi hefð hefur skapast. Þið hafið gert revíur svo lengi, samfleytt í 25 ár. Þeir ungu hafa verið að læra af þeim eldri og þetta eru býsna ungir menn sem eru að skrifa,“ sagði Hjálmar. Auk þeirrar skemmtilegu vinnu og mikla lærdóms sem þeir ungu hafa öðlast, nefndu þeir að eitt það skemmtilegasta væri að sjá eigin atriði á sviði og fá sýn Hjálmars á það. Þeir bregða sér sjálfir í hin ýmsu hlutverk í revíunni.

Tilvísun til Ljósanætur

• „Með ryk í auga“ þótti gott nafn á revíuna þó að ekki sé verið að slá ryki í augu áhorfenda.

• Nafnið vísar hins vegar til hátíðartónleika Ljósanætur undanfarin þrjú ár sem hafa gengið undir yfirskriftinni „Með blik í auga“ eftir samnefndu dægurlagi en þar hefur verið farið yfir íslenska tónlistarsögu, tónlistarmenn og áhrifavalda.

Revíur sækja efni sitt í líðandi stund

• Revíur hafa átt miklum vinsældum að fagna í Reykjanesbæ í á þriðja áratug, að sögn Hjálmars Hjálmarssonar. Ómar Jóhannsson heitinn var lunkinn revíuhöfundur og setti Leikfélag Keflavíkur a.m.k. upp fjórar Keflavíkurrevíur eftir hann, þá fyrstu árið 1989 í tilefni af 40 ára afmæli Keflavíkurkaupstaðar. Aðrar revíur sem ratað hafa á svið á undanförnum árum hafa verið samdar af hópi leikfélagsfólks eða áhugafólks eins og Breiðbandinu, sem samdi revíuna „Bærinn breiðir úr sér“ og sýnd var 2008. Henni var fylgt eftir með „Bærinn bræðir úr sér“ og hluti af höfundateyminu þar mætt enn á ný í „Með ryk í auga“.

Fyrstu revíurnar sem samdar voru og fluttar í Keflavík voru „Svipleiftur Suðurnesja“ árið 1936 og „Draumalandi“ árið 1941. Sú fyrri átti upphaflega að vera skemmtiatriði á sjómannadag árið 1936 en sýningunum fjölgaði vegna vinsælda og urðu alls níu. Höfundar voru Helgi Jónsson og Arinbjörn Þorvarðarson, sem jafnframt léku aðalhlutverkin, gerðu leiktjöld og leikstýrðu. Í revíunum var gert góðlátlegt grín að náunganum og þær þóttu mikið listaverk vegna þeirra revíusöngva sem hafa varðveist úr sýningunum. Bjarni Jónsson samdi söngvana í fyrri revíuna og Kristinn Pétursson í þá seinni, að því er fram kemur í „Sögu Keflavíkur 1920-1949“ eftir Bjarna Guðmarsson.

Páll Baldvin Baldvinsson sagði í greininni „Og þú skalt sofa í hundrað ár“ í Skírni árið 1980 að revíur væru samtímabókmenntir í besta skilningi orðsins, þær sæki efni sitt í líðandi stund og þar séu dægurmál efst á baugi. Vegna þessarar samtímavísunar revíunnar sé hún oft eftirkomendum sem lokuð bók. „Og jafnvel þótt öll gögn, blöð, bækur og tímarit, séu könnuð eru alltaf inn á milli tilsvör sem vísa til atvika sem fáir muna lengur. Atvika sem hafa á sínum tíma verið heilu bæjarfélagi kunn, en voru þess eðlis að þau áttu ekki erindi á blað. ... En þrátt fyrir það eru revíur skemmtilegar aflestrar. Þær bera með sér sterkan svip tíðaranda, draga fram þætti sem þagað er yfir í söguritun, og eru síðast en ekki síst óbrotgjarn minnisvarði um kímnigáfu höfunda sinna.“