[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ísland hefur staðið sig merkilega vel, sérstaklega í samanburði við þær þjóðir sem hafa ekki tekið upp kvótakerfi,“ segir dr. Corbett Grainger, prófessor í hagfræði við Háskólann í Wisconsin.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ísland hefur staðið sig merkilega vel, sérstaklega í samanburði við þær þjóðir sem hafa ekki tekið upp kvótakerfi,“ segir dr. Corbett Grainger, prófessor í hagfræði við Háskólann í Wisconsin. Grainger var staddur hér á landi í síðustu viku til þess að flytja erindi um auðlindastjórn á sérstöku málþingi um tekjudreifingu og skatta sem Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt stóð fyrir.

Í erindi sínu tók Grainger sérstaklega fyrir það fordæmi sem Íslendingar hafa sýnt í stjórn fiskveiða. „Þegar þú berð saman Ísland við þau lönd sem eru enn að nota hefðbundin sóknarkerfi kemur í ljós að verðmætasköpunin hér er umtalsvert meiri,“ segir Grainger.

Tryggur eignarréttur nauðsyn

Grainger segir að til þess að auka verðmætasköpun og styrkja kerfið sé betra að tryggja eignarrétt þeirra sem hafa kvóta, og ýmsar leiðir séu færar til þess. „Fræðin benda öll til þess að tryggur eignaréttur sé nánast nauðsynlegur í þessum kringumstæðum. Ísland hefur gert vel þar, þó að hugsanlega hafi einhver skref verið misstigin, en uppsetningin hefur staðið sig vel.“

Grainger er þó meðvitaður um þá miklu umræðu sem kvótakerfið hafi vakið hér á landi. „Ég veit til þess að upp hafa komið áhyggjur um framtíð kerfisins, með tilliti til aukinnar skattheimtu. Aukin óvissa leiðir til þess að fjárfestar í sjávarútvegi fælast frá.“ Grainger segir því mæla með að sjávarútveginum sé tryggt gott stefnuumhverfi, til þess að þeir sem vilji festa fé sitt í iðnaðinum geti tekið skynsamlegar ákvarðanir út frá langtímahagsmunum.

Gjöld einkum fyrir viðhald

Grainger segir umræður um auðlindagjald vera forvitnilegar í þessu samhengi. „Það er mikil og virk umræða í fræðunum um auðlindagjald, og enn er engin niðurstaða fengin í þau,“ segir Grainger. Hann segir þó, að slíkt auðlindagjald sé helst réttlætanlegt, ef það er hugsað sem aðferð fyrir ríkið til þess að bæta sér upp þann kostnað sem hljótist af umsjón fiskveiðistjórnunarkerfisins.

„Ef það á að tryggja að kvótakerfið sé í lagi, eftirlits- og rannsóknaaðilar fái nægt fjármagn til þess að sinna skyldum sínum, þá er slíkt gjald sjálfsagt,“ segir Grainger. Stíga þurfi þó varlega til jarðar áður en gjaldið sé hækkað mikið. „Að því marki sem þið teljið að útgerðarmenn noti rentuna sína til frekari fjárfestinga í eigin iðnaði er hins vegar ljóst að hærri skattheimta letur menn mjög til þess, og gerir slíka fjárfestingu jafnvel allt að því ómögulega, sérstaklega ef fjármagnsmarkaðir eru veikburða.“