[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Svartfellingar verða næstu mótherjar Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins en þjóðirnar eigast við í Bar í Svartfjallalandi á morgun.

Fréttaskýring

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Svartfellingar verða næstu mótherjar Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins en þjóðirnar eigast við í Bar í Svartfjallalandi á morgun.

Það er liðin sjö ár frá því Svartfellingar léku sinn fyrsta landsleik í handknattleik karla en það gerðu þeir ári eftir að þjóðin hlaut sjálfstæði en Svartfjallaland var hluti af gömlu Júgóslavíu og skildi sig frá Serbíu árið 2006.

Svartfellingar unnu Finna í sínum fyrsta landsleik í janúarbyrjun árið 2007 en rík handboltahefð hefur verið í Balkanlöndunum sem hefur alið af sér marga frábæra handboltamenn.

Svartfellingum hefur þrívegis tekist að vinna sér sæti í úrslitakeppni á stórmóti. Þeir voru með í úrslitakeppni Evrópumótsins í Noregi árið 2008 þar sem þeir höfnuðu í þriðja sæti í sínum riðli. Þeir gerðu jafntefli við Rússa í sínum fyrsta leik en töpuðu fyrir Dönum og Norðmönnum. Svartfellingar töpuðu öllum þremur leikjum sínum í milliriðlinum og enduðu í 12. sæti af 16 liðum, sætinu á eftir Íslendingum.

Töpuðu öllum leikjunum á Spáni

Svartfellingar náðu að vinna sér keppnisréttinn í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins á Spáni á síðasta ári með því að hafa betur gegn Svíum í umspili um sæti á HM. Gengi Svartfellinga á HM var ekki gott en þeir töpuðu öllum fimm leikjunum sínum sem voru gegn Argentínumönnum, Frökkum, Túnisbúum, Þjóðverjum og Brasilíumönnum. Niðurstaðan á HM varð 22. sæti af 24 þátttökuþjóðum.

Svartfellingum tókst svo að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM í Danmörku í byrjun þessa árs en þeir enduðu í öðru sæti í undankeppninni með jafnmörg stig og Tékkar eða 8 stig og skildu þar með Þjóðverja eftir úti í kuldanum. Svartfellingar unnu Þjóðverja í báðum leikjunum en unnu einn og töpuðu einum í leikjunum á móti Tékkum og Ísraelsmönnum.

Í úrslitakeppninni í Danmörku í janúar töpuðu Svartfellingar öllum þremur leikjum sínum gegn Svíum, Króötum og H-Rússum og enduðu í 16. og neðsta sætinu á mótinu. Í kjölfarið var þjálfaranum Zoran Kastrovic sagt upp störfum og í hans stað var ráðinn Ljubomir Obradovic.

Ekki tókst Svartfellingum að vinna sér keppnisréttinn á HM í Katar í janúar næstkomandi frekar en Íslendingum. Þeir mættu Hvít-Rússum í umspili í júní í sumar og urðu þar undir. Svartfellingar unnu fyrri leikinn á heimavelli, 28:27, en töpuðu útileiknum með sex marka mun, 30:24.

Svartfellingar sóttu Serba heim til Belgrad í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins á miðvikudagskvöld og töpuðu þar, 25:21, eftir að hafa verið einu marki undir í leikhléi, 10:9.

Þrír sem spila í heimalandinu

Aðeins þrír leikmenn úr leikmannahópi Svartfellinga leika með liðum í heimalandi sínu en aðrir spila með liðum í Makedóníu, Grikklandi, Spáni, Svíþjóð, Serbíu, Slóvakíu, Tyrklandi, Ungverjalandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Vasko Sevaljevic leikur með Hannover-Burgdorf í Þýskalandi og er þar samherji Rúnars Kárasonar og Ólafs Guðmundssonar og Stevan Vujovic er samherji Snorra Steins Guðjónssonar hjá franska liðinu Sélestat. Í leiknum gegn Serbum á miðvikudaginn var Fahrudin Melic markahæstur með 6 mörk en hann er liðsfélagi Róberts Gunnarssonar hjá franska stórliðinu Paris SG. Hann er einn af markahæstu leikmönnum Svartfellinga en hann hefur skorað 126 mörk.

Stærsti sigur Svartfellinga leit dagsins ljós gegn Finnum í janúar 2007 en 41:27 urðu úrslit leiksins. Stærsti ósigur var gegn Slóvökum árið 2011 en þar urðu úrslitin, 36:21.

Leikurinn í Bar á morgun verður fyrsta viðureign Íslendinga og Svartfellinga á handboltavellinum og ljóst má vera að Svartfellingar eru sýnd veiði en ekki gefin.