Ingibjörg Sigríður Sigurðardóttir fæddist 15. september 1924 í Sauðhaga á Völlum. Hún lést á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum 22. október 2014.

Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Magnea Herborg Jónsdóttir, f. 26. janúar 1892, d. 17. mars 1967, og Sigurður Björnsson, f. 17. september 1886, d. 2. desember 1939. Systkini Ingibjargar eru Anna Björg, f. 11. nóvember 1920, d. 13. febrúar 2003, Páll Hermann, f. 22. júlí 1926, Björn, f. 20. september 1927, d. 20. janúar 2007, Magnús, f. 5. nóvember 1927, Jón Benedikt, f. 11. október 1931, d. 20. júlí 2013.

Ingibjörg eignaðist tvo syni. Þeir eru: 1) Sigurður Jónsson, f. 24. janúar 1947, d. 6. mars 2000. Eftirlifandi maki Ína Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir, f. 18. maí 1952. Börn þeirra: Magnús, f. 16. apríl 1970, maki Halldóra Magna Sveinsdóttir, f. 2. júní 1972. Börn þeirra: Sigurður Orri, f. 26. apríl 1999, Jóhann Ingi, f. 27. mars 2001, Gunnþór Sveinn, f. 7. september 2010. Ingibjörg Sigríður, f. 8. júlí 1980, maki Þorsteinn Jóhannsson, f. 7. ágúst 1976. Barn þeirra Emil Jóhann, f. 9. ágúst 2002. 2) Magnús Ólafsson, f. 27. maí 1955. Maki Birna Björnsdóttir, f. 2. apríl 1960 (þau skildu). Börn þeirra eru Hrönn, f. 26. nóvember 1989, sambýlismaður Steven Zarah, f. 10. október 1982, Magnea Herborg, f. 28. desember 1995, og Sigurður Sævar, f. 15. september 1997.

Ingibjörg ólst upp í Sauðhaga á Völlum. Hún var í barnaskóla Vallahrepps og stundaði einnig nám við Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Fyrri hluta ævinnar starfaði hún sem matráðskona í Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og í barnaskóla Vallahrepps á veturna, síðar starfaði hún við ræstingar í grunnskólanum á Hallormsstað. Ingibjörg bjó lengst af ævi sinni í húsi sínu á Hallormsstað sem hún nefndi Laufskóga. Ingibjörg var þekkt fyrir dugnað, vandvirkni og einstakan myndarskap í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var gestrisin og naut þess að taka á móti fólki og var því oft gestkvæmt hjá henni. Eftir hana liggur mikið handverk og þá sér í lagi heklaðir munir. Síðustu árin dvaldi Ingibjörg á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum, fyrst á sambýli fyrir aldraða í tvö ár og síðan tvö ár á hjúkrunardeild.

Útför Ingibjargar verður gerð frá Egilsstaðakirkju í dag, 1. nóvember 2014, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í Vallaneskirkjugarði.

Stjörnuskin lýsir

Tifa ljós norðurs

Næturbirta vetrar lýsir upp hjarn

Ljós kemur

Ljós er

Ljós var

Ljós sem lýsti vegferð

hvarf

Komin er stund saknaðar

Vetur fer um fagra sveit

Hugur flýgur hratt

um gengna slóð

Glitrar jörð í vetrarskrúða

Lýsast perlur minninga

Ljómar sál

Þakkað er í þögn

Það er óendanleg kyrrð

Sólbirta vermir um ókomna tíð

(Maggi)

Magnús Ólafsson.

Við lát Ingu, móðursystur okkar, frá Sauðhaga hrannast upp minningar frá löngu liðnum dögum austur á Héraði. Við Gunnlaugsstaðakrakkarnir áttum mörg sporin yfir hálsinn og í Sauðhaga. Þar var okkur alltaf vel tekið af þeim ömmu og Ingu og öðru Sauðhagafólki. Gönguleið var á milli bæjanna, um það bil klukkutíma gangur, og voru þessar ferðir alltaf ánægjuefni. Alltaf var gott að koma í Sauðhaga. Ætíð var eitthvað gott á borðum og minnisstætt er líka hversu allt var fínt í kringum þær ömmu og Ingu og þannig var það hjá Ingu alla tíð, allt svo fínt og fallegt hvernig sem húsnæðið annars var.

Seinna heimsóttum við hana í húsið hennar í skóginum, sem hún kom sér upp með fádæma elju og dugnaði. Þangað var notalegt að koma enda Inga einstaklega gestrisin og höfðingi heim að sækja.

Inga sat aldrei auðum höndum, ef hún hafði lausa stund sat hún gjarnan og heklaði milliverk, dúka eða teppi, allt var þetta svo fallega unnið – sannkölluð meistarverk.

Þegar við minnumst Ingu kemur matur ósjálfrátt upp í hugann en Inga var matargerðarkona af guðs náð og töfraði fram alls konar krásir og enginn fór svangur frá hennar borði. Hennar ævistarf varð líka matseld og ræstingar. Hún starfaði sem ráðskona bæði í barnaskóla sveitarinnar og á sumrum var hún ráðskona hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og vann á vetrum við barnaskólann á Hallormsstað eftir að hann tók til starfa.

Inga var mikill dugnaðarforkur, hamhleypa til allra verka og vann framan af við erfiðar aðstæður þar sem lítið var um nútímaþægindi. Það er erfitt fyrir nútímafólk að ímynda sér matargerð og bakstur fyrir hópa af fólki þar sem alla hluti varð að vinna með höndunum og ekki hlaupið í búðir eftir hverju atviki. Inga og hennar kynslóð lifðu þá sérkennilegu tíma þar sem horfið var frá hreinni forneskju til vélvæðingar og tölvualdar.

Lífið var henni ekki áfallalaust en stærsta áfallið var sonarmissirinn en Sigurður sonur hennar lést rúmlega fimmtugur, mikill ágætis- og dugnaðarmaður.

Inga var afskaplega góðgerðarsöm, vildi alltaf vera að gefa en helst ekkert þiggja og sífellt að hugsa um hag sinna nánustu og ef eitthvað bjátaði á hjá einhverjum var hún fljót að rétta fram hjálparhönd ef hún gat mögulega komið því við.

Það er margs að minnast en öll eigum við góðar minningar um Ingu, hún fylgdist með okkur og fjölskyldum okkar og var okkur alla tíð einstaklega velviljuð.

Við systkinin sendum syni hennar Magnúsi, barnabörnum og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún, Pálína, Sigurður

og Valgerður frá

Gunnlaugsstöðum.

Það var á níunda áratug síðustu aldar sem leiðir okkar og Ingu lágu saman, en á þeim árum hófum við báðar störf við Hallormsstaðarskóla, reyndar ekki sama árið, en með fárra ára millibili.

Strax á fyrstu starfsdögunum varð okkur báðum ljóst að Inga var í raun bindingsverkið í skólahúsinu og lykilstarfsmaður sem eins gott væri fyrir okkur að koma sér vel við, enda hafði hún hafið störf við Hallormsstaðarskóla áður en hann hóf starfsemi sína. Já, Inga sá nefnilega um að elda ofan í verkamennina sem byggðu skólann og þegar skólinn var tilbúinn varð það hennar starf að sjá um öll þrif í skólahúsinu – ein.

Já, hún Inga var einstök eljukona og var í daglegu tali, hjá nemendum Hallormsstaðarskóla, kölluð „Inga ræst“ sem var fyrst og fremst virðingarheiti. Þegar hún gjóaði til okkar augunum, kannski með nokkrum vel völdum orðum, þá skildum við að við þurftum að standa okkur betur í tiltektinni. Það gerðum við með glöðu geði en aðeins Ingu leyfðist að ala okkur upp með þessum hætti.

Það verður að játast að við þurftum að hafa nokkuð fyrir því að vinna okkur inn að hjarta Ingu. Ástæða þess var að báðar höfðum við tileinkað okkur kennsluhætti þar sem nemendum var ætlað að sanka að sér efniviði skógarins, setja upp skordýragildrur og jafnvel halda húsdýr, s.s. mýs. Lengst gengum við þó, að mati Ingu, þegar við settum á laggirnar sjávarker sem fyllti skólastofuna af fiskiflugum, með viðeigandi óþrifnaði og ólykt. Já, svona gekk þetta fyrir sig fyrstu árin en smátt og smátt náðum við saman. Það var ekki hvað síst með sinni geislandi góðu, en stundum svolítið grátóna kímnigáfu, sem Inga vann hjarta okkar. Með því að svara í svipaðri mynt urðum við hennar konur og fyrir það verðum við endalaust þakklátar.

Síðan kynntumst við hinni hliðinni á Ingu okkar, Ingu í Laufskógum. Hún var þvílíkur höfðingi heim að sækja. Ekkert jafnaðist á við að setjast inn í eldhúsið hennar með kaffibollann og horfa á hana tína fram smákökusortir, brúntertuna með kreminu, kex með hrútaberjahlaupi að ógleymdum piparostinum sem var uppáhaldið hennar. Síðan var spjallað og boðið upp á konfekt og smá „Gróft“. Inga er eina konan sem við þekkjum sem hefði getað boðið okkur upp á „Gróft“ án þess að við hugsuðum okkur tvisvar um að þiggja það. Frá því að við kynntumst því „Grófa“ með Ingu hefur ekki hvarflað að okkur að betra sérrí fyrirfinnist og við munum vafalaust hittast áfram og drekka „Gróft“ Ingu til heiðurs.

Og handverkin. Hvað við dáðumst að heklinu hennar með hárfínu heklunálinni og örmjóa þræðinum og fallegu milliverkunum sem hún framleiddi langt fram á efri ár! Sennilega eru þau orðin æðimörg sjö rósa milliverkin hennar Ingu í sængurfatnaði fólks vítt og breitt um landið. Við nutum líka góðs af því.

Við kveðjum elsku Ingu með söknuði og minnumst hennar sem kjarkmikillar konu sem hélt reisn sinni fram á það síðasta. Elsku Magnús og allt fólkið hennar Ingu! Við, Onni, Jón og krakkarnir okkar sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um einstaka konu styrkja ykkur í sorginni.

Sif og Kristín Björk.