Ég var alla vega ekki í þeim hópi. Ekki vegna þess að ég hefði ekki trú á mínum mönnum, heldur átti ég ekki von á því að Holland myndi tapa bæði fyrir Tékklandi og Íslandi. Fyrirfram bjóst maður alveg eins við því að Holland myndi rúlla upp riðlinum, eins og þeir eiga til að gera, og slagurinn yrði um 2. sætið. Auðvitað vonaði maður að Ísland yrði í þeirri baráttu en ekki fannst manni riðillinn gefa góðar vonir um sögulegan árangur.
Þegar sigurinn á Hollandi lá fyrir var ég orðinn svo æstur yfir gangi mála í riðlinum, að ég þurfti að fara á nýja kaffihúsið í hverfinu mínu til að róa mig niður. Á þeim tímapunkti hefði ég helst viljað afgreiða Tékkaleikinn nokkrum dögum seinna. Í afreksíþróttum gildir víst að halda sig í núinu og hugsa ekki of marga leiki fram í tímann. Öfugt við skákina. Hversu oft hefur maður einmitt brennt sig á því, á mögulega góðum golfhring, að fagna of snemma.
Eitt af því sem komið hefur á óvart er frábær byrjun Tékka. Samkvæmt sparkspekingum áttu þeir að vera í lægð. Þykir mér Tékkarnir misskilja fyrirbærið lægð alveg stórkostlega. Í raun standa Tékkarnir betur að vígi en við Íslendingar því þeir hafa unnið Tyrki á útivelli og það er ekki fyrir hvern sem er að framkvæma. Auk þess unnu þeir einnig Hollendinga á heimavelli eins og við.
Leikurinn á sunnudaginn verður vafalaust gríðarlega erfiður. Landsliðið okkar er hins vegar í stöðugri framför. Í síðustu keppni spilaði liðið fjóra leiki á móti þjóðum sem kalla má B-þjóðir: Sviss og Króatíu. Enginn þeirra vannst en nú höfum við þegar unnið A-þjóðina Holland, meira að segja sannfærandi. Þar er strax eftirtektarverð breyting á milli keppna.