Bætandi „Sumir leita til mín til að finna meðferð við kvillum en öðrum hjálpa ég einfaldlega að taka sjálfa sig í gegn,“ segir Kolbrún.
Bætandi „Sumir leita til mín til að finna meðferð við kvillum en öðrum hjálpa ég einfaldlega að taka sjálfa sig í gegn,“ segir Kolbrún. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gjafirnar frá Jurtaapóteki gefa fólki afsökun til að dekra við sjálft sig, nostra við húðina eða gefa líkamanum næringarskot. Íslensk framleiðsla, aukaefnalaus, rotvarnarefnalaus, fylliefnalaus og úr lífrænu hráefni.

Jurtaapótek Kolbrúnar Björnsdóttur fagnar tíu ára afmæli í desember. Fyrstu níu árin var verslunin á horni Skólavörðustígs og Laugavegs en flutti fyrir ári í Skipholt 33.

„Ég hafði starfað sem grasalæknir í röskan áratug áður en ég opnaði verslunina. Var hugmyndin sú að bæta aðgengi að þeim formúlum og vörum sem ég hafði fram að því aðeins framleitt í litlu magni fyrir hvern og einn viðskiptavin,“ útskýrir Kolbrún.

Flutningarnir í Skipholt miðuðu m.a. að því að sameina undir einu þaki verslun, lager og framleiðslu en vörurnar í Jurtaapótekinu eru allar blandaðar frá grunni. Telst henni til að vörutegundirnar í búðinni séu hátt á þriðja hundrað og vörunúmerin sennilega um 500 talsins.

Íslendingar með á nótunum

Að sögn Kolbrúnar hefur áhugi landans á grasalækningum vaxið jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi. Áhuginn jókst mjög með þeirri vakningu sem varð í samfélaginu eftir hrunið margumtalaða, með aukinni áherslu á heilbrigða lifnaðarhætti og náttúrulegar vörur. „Ég hef viðtalstíma alla daga frá kl. 9 til 14 og yfirleitt eru allir tímar uppbókaðir. Sumir leita til mín til að finna meðferð við kvillum en öðrum hjálpa ég einfaldlega að taka sjálfa sig í gegn, ekki aðeins með hollum jurtavörum heldur bættu mataræði og hreyfingu.“

Að vanda er hægt að finna í vöruúrvalinu alls kyns heilsu- og dekurvörur sem upplagt er að setja í jólapakkann eða lauma í gjafakörfuna. Kolbrún segir t.d. tilvalið að setja í matarkörfu starfsmanna þessi jólin öskju af Grænu bombunni, næringarblöndu sem slegið hefur í gegn.

„Er um að ræða blöndu jurta sem eru sérlega næringarríkar og gefa líkamanum stóran skammt bætiefna. Hefur Græna bomban að geyma jurtina spirulina sem inniheldur m.a. 18 amínósýrur, járn, joð og vítamín. Er einnig bygggras í bombunni, auðugt af kalki, magnesíum og C-vítamíni; steinselja með beta-karótíni og fólinsýru, og chlorella sem er m.a. lifrarhreinsandi og brennsluörvandi.“

Segir Kolbrún að mörgum sem nota Grænu bombuna reglulega þyki þessi blanda næringarefna gefa aukna orku og vellíðan. „Er hægt að velja milli dufts í hylkjum og svo dufts í krukku sem má t.d. bæta út í bústið.“

Saltið gerir húðina mjúka

Af dekurvörunum nefnir Kolbrún fyrst saltskrúbbið sem Jurtaapótekið framleiðir með salti frá Saltverki Reykjaness. „Saltinu böndum við saman við olíur með keim af appelsínu, sítrónu og piparmyntu. Sumum þykir ilmurinn minna á konfekt,“ útskýrir hún. „Þetta saltskrúbb ber fólk á sig inni í sturtunni eða ofan í baðkarinu og skolar svo af með vatni. Olíu- og saltblandan hreinsar húðina og nærir, fjarlægir dauðar húðfrumur og skilur húðina eftir silkimjúka.“

Talandi um salt þá blandar Kolbrún einnig baðsalt eftir kúnstarinnar reglum. Framleiðir hún þrjár tegundir: Urðarbrunn, Mímisbrunn og Þrymheim. „Þar nota ég bæði salt frá Saltverki og svo steinefnaríkt Dauðahafssalt. Út í blönduna fer einnig matarsódi sem gerir baðvatnið ögn basískara og ilmkjarnaolíur sem ýmist róa, örva eða vinna gegn bólgum.“

Úrvalið er líka mikið af fegrandi kremum. Kolbrún blandar fljótandi andlitsnæringarkrem fyrir bæði karla og konur og krem sem ætlað er að draga úr einkennum húðvandamála á borð við rósroða. Öll eru kremin laus við fylliefni og rotvarnarefni og aðeins notuð lífræn innihaldsefni í framleiðsluna.

„Andlitsnæringin gefur húðinni raka með aloe vera-safa og fitu úr jojoba-olíu. Hún inniheldur líka rósaberjaolíu sem fær hrukkurnar til að grynnka og hafþyrnisolíu sem veitir létta sólarvörn.“

Rósavatn er líka mikill undravöki og gerir líkamanum gott bæði að utan og innan. „Rósavatn er gott að not sem andlitsvatn og hressir, örvar og styrkir húðina. Rósavatnið er upplífgandi og endurnærandi á húðina, en má líka taka inn til heilsubótar og nota í matargerð.“ ai@mbl.is

Karlarnir kunna líka vel að meta

Vörurnar frá Jurtaapóteki má kaupa stakar eða í gjafakörfum sem hafa t.d. að geyma samsettar vörur fyrir andlit eða fætur. „Þetta eru vörur sem flestir kunna vel að meta, og gefa fólki afsökun til að dekra aðeins meira við sig. Er fátt betra en að hella í heitt bað, bæta söltum út í og láta streituna líða úr líkamanum, eða nostra við húðina og andlitið,“ segir Kolbrún og bætir við að það séu ekki bara konurnar sem kunna að meta þessar vörur:

„Karlar eru í dag orðnir mun duglegri að dekra við sig og hugsa um húðina og heilsuna. Er orðið mun sjálfsagðara í dag en áður að karlar t.d. beri á sig gott rakakrem og sést greinilegur munur á þeim körlum sem það gera.“