Leiðréttingin Til að samþykkja leiðréttinguna þarf rafræn skilríki.
Leiðréttingin Til að samþykkja leiðréttinguna þarf rafræn skilríki. — Morgunblaðið/Golli
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Símafélögin hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir rafrænum skilríkjum fyrir farsíma í kjölfar þess að tilkynnt var um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Símafélögin hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir rafrænum skilríkjum fyrir farsíma í kjölfar þess að tilkynnt var um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Nauðsynlegt verður fyrir þá sem vilja samþykkja leiðréttinguna að gera það með rafrænum skilríkjum af einhverju tagi, en auk farsíma hefur einnig verið hægt að verða sér úti um slík skilríki í debetkortum, auk þess sem Auðkenni býður upp á sérstök einkaskilríki.

Þegar fólk er búið að verða sér úti um SIM-kort sem styðja við rafræn skilríki þarf að leita til afgreiðslustaða Auðkennis til að virkja skilríkin. Samkvæmt upplýsingum frá Auðkenni eru nú um 90.000 virk rafræn skilríki af ýmsum gerðum, og er hlutur farsíma þar ört vaxandi.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að nú séu 62.000 viðskiptavinir Símans komnir með SIM-kort sem styðji við rafræn skilríki. Hún bendir á að notkun þessara skilríkja muni færast í vöxt, og að umsóknarferlið sé einfalt. „Við hvetjum því fólk til þess að fá sér rafræn skilríki sem fyrst.“

Hjá Vodafone fengust þær upplýsingar að þar hefðu menn fundið fyrir kipp í umsóknum um rafræn skilríki, en fyrirtækið hefði búið sig undir leiðréttinguna frá því í sumar. Greiðlega gengi því að sinna þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem borist hefðu.

Eðlilegra að innleiða á ári

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, er hins vegar gagnrýnin á ferlið. „Við hjá Nova höfum bent á að við teljum að of bratt sé farið í innleiðingu rafrænna skilríkja í farsíma hér á landi, eðlilegra hefði verið að innleiða þessa þjónustu á 6-12 mánuðum hið minnsta,“ segir Liv. Hún bendir á að sú lausn sem Auðkenni hafi þróað hafi ekki fengist til að virka á símkortum fyrirtækisins. Því hafi Nova neyðst til að skipta um símkortabirgi.

Liv biður viðskiptavini Nova afsökunar á töfinni, en nú þegar hafi yfir 10.000 viðskiptavinir Nova skráð sig fyrir nýju símkorti á heimasíðu félagsins. Þeim verði sent kortið án endurgjalds í desember. „Við munum tryggja að viðskiptavinir okkar verði komnir með ný SIM-kort í hendurnar og án endurgjalds áður en undirskriftarferlið hefst um miðjan desember.“

Auðkenniskortin verði frí

Þeir sem hafa ekki tök á því eða vilja til að verða sér úti um rafræn skilríki í farsíma eiga þann kost að sækja um sérstakt auðkenniskort frá Auðkenni. Venjulegast kostar slíkt kort 1.500 krónur, en ætlunin er að það verði ókeypis fyrir þá sem rétt eiga á leiðréttingu. Hins vegar á enn eftir að opna fyrir umsóknarform á heimasíðu leiðréttingarinnar, og segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, að stefnt sé að því að það verði gert í næstu viku.

Vefsíðan stóðst álagið

Óhætt er að segja að margir hafi verið forvitnir um niðurstöðu leiðréttingarinnar þegar hún var kynnt á heimasíðu Ríkisskattstjóra í fyrradag.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri segir að 101.704 heimsóknir hafi sést á heimasíðu embættisins í fyrradag frá 76.097 mismunandi IP-tölum, og flettingar verið samtals 595.107. „Þetta er algjört met,“ segir Skúli Eggert og bætir við að embættið hafi aldrei séð aðra eins vefumferð.

Þá hafi kynningarmyndbönd á síðunni einnig verið skoðuð oft. Mest var umferðin á heimasíðunni upp úr klukkan 11.

Skúli Eggert segir að embættið hafi einnig fengið um 1.400 símtöl og um 500 tölvupósta vegna leiðréttingarinnar, og að vel hafi gengið að svara þeim fyrirspurnum.