Ingibjörg Sigríður Sigurðardóttir fæddist 15. september 1924. Hún lést 22. október 2014. Útför Ingibjargar var gerð 1. nóvember 2014.

Minningar mínar um Ingibjörgu Sigurðardóttur eru samofnar veru minni hjá systur hennar, ömmu minni, Önnu á Gunnlaugsstöðum. Það var fastur liður í heimsóknum til ömmu að skreppa upp í Hallormsstað að heimsækja Ingu í skógræktina þar sem hún stóð svo lengi vaktina. Fyrir ungan strák var þetta umhverfi vafið ævintýraljóma sem þekkist hvergi annars staðar hér á landi. Litla skógræktarhúsið í miðjum skóginum líktist helst einhverju sem hafði verið lesið fyrir mann úr ævintýrum Grimmsbræðra og þar var Inga og dró fram hverja tertuna á fætur annarri.

Í þessu umhverfi fékk ég þá bestu súkkulaðitertu sem ég hef bragðað, fyrr og síðar. Og þótt langt sé um liðið síðan ég bragðaði síðast súkkulaðitertu hjá Ingibjörgu kemur bragðið enn fram á tungubrodd minn þegar ég hugsa til hennar. Allar götur síðan ég var drengur í sveit hjá ömmu hef ég gert mér far um að heimsækja Ingu í hvert skipti sem ég hef átt leið austur á land. Kannski byrjaði það af matarást en þegar ég fullorðnaðist fannst mér nærvera hennar góð og alltaf tók hún vel á móti mér. Henni var mjög annt um systkini sín og sagði mér allt sem fréttnæmt var af afkomendum sínum og barnabörnum.

Langri ævi hennar er nú lokið og þær góðu stundir sem ég átti með henni verða mér kær minning.

Gunnlaugur Jónsson.

Komin er kveðjustund. Kær vinkona mín og nágrannakona til áratuga, hún Inga í Laufskógum, hefur kvatt þessa jarðvist, sátt og södd lífdaga.

Ég kynntist henni fyrst 10 ára gömul þegar ég fór í barnaskólann á Eyjólfsstöðum, en þar starfaði hún um árabil sem ráðskona. Hún fylgdist vel með mér og var annt um að mér liði vel og ég fengi örugglega nóg að borða. Eiginlega mynduðust ákveðin tengsl á milli okkar þá strax og þegar ég var um 14 ára gömul kom hún heim til mín og falaðist eftir mér sem aðstoðarstúlku sinni við mötuneyti Skógræktarinnar á Hallormsstað. Þar starfaði hún í fjöldamörg ár sem ráðskona og muna eflaust margir eftir henni þaðan. Það má eiginlega segja að hún hafi að nokkru leyti tekið við uppeldinu á mér á öllum þeim árum sem við unnum saman. Við byggðum húsin okkar síðan hlið við hlið á Hallormsstað. Húsið okkar Steina reis á undan og bjó hún hjá okkur í fáein ár á meðan hennar hús var byggt.

Alla tíð fylgdist Inga vel með mér og fór ég ekki af bæ svo hún vissi ekki um það. Stundum fékk ég ýmsar spurningar daginn eftir: „Varstu nú að skemmta þér í gærkvöldi?“ Eða: „Fórstu nú í búð í gær?“ „Hverslags eiginlega flík er nú þetta? Ég kann betur við þig í þeirri gömlu.“ – „Fékk Steini eitthvað almennilegt að éta í dag?“ – „Elín mín, ég er búin að þvo hárið, geturðu skroppið yfir?“ En oft setti ég í hana rúllur. Þetta voru svona fastir liðir sem gáfu okkur báðum mikilvægar samverustundir.

Inga fylgdist líka vel með börnunum mínum, hvernig þau hefðu það. Og ef við þurftum á einhverju að halda, þá var það bara svo sjálfsagt mál, hún væri þarna í húsinu sínu. Eða ef mig vantaði eitthvað, t.d. í bakstur, auðvitað átti hún það alltaf til. – Heldurðu að ég eigi ekki þetta! Aldrei varð ég vör við að hana vantaði eitthvað, ja, nema þá kannski rjómapela, en hann mátti ekki vanta. – „Kannski kemur einhver, kannski Blöndal komi.“

Sannarlega söknuðum við hennar þegar hún flutti í Egilsstaði. Þá treysti hún sér ekki til að vera ein lengur og síðustu misserin var hún á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum.

Þann 15. september í haust var haldið upp á 90 ára afmælið hennar Ingu með miklum glæsibrag og komu meðal annars öll barnabörnin til hennar. Sigurður Sævar, sem er yngstur þeirra, er einmitt fæddur á afmælisdegi ömmu sinnar og varð hann 17 ára þann dag. Til gamans verð ég að geta þess að mitt yngsta barnabarn fæddist þennan sama dag, 15. september síðastliðinn, á afmælisdegi Ingu, þeim lukkudegi.

Við fjölskyldan viljum þakka þér, elsku Inga okkar, fyrir alla þína tryggð og vináttu í öll þessi ár og væntum þess að vel hafi verið tekið á móti þér á nýjum sviðum.

Öllum aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elín Kröyer.