Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Þú tekur ekkert með þér þegar þú hverfur úr þessum heimi. En hvað viltu skilja eftir þig? Hver verður ævisaga þín þegar upp er staðið?"

Allt of oft er það því miður þannig að fólki er ekki sýndur tilhlýðilegur sómi og virðing fyrr en það er horfið af sjónarsviðinu. Er það ekki umhugsunarvert og reyndar dálítið nöturlegt til þess að hugsa að fólk fái ekki raunverulegan áhuga á samferðafólki sínu, læri ekki að meta það og sýna því umhyggju og virðingu fyrr en þá í fyrsta lagi eftir að það er horfið því sjónum, farið yfir móðuna miklu?

Stráðu fræjum kærleika

Elskaðu á meðan þú lifir. Elskaðu fólkið þitt á meðan það lifir. Því þegar fólkið þitt er farið er nefnilega of seint að sýna því umhyggju, virðingu og ást svo það fái notið þess.

Fegraðu umhverfi þitt með gjöfum. Stráðu fræjum kærleika og umhyggju allt í kringum þig, hvar sem þú ert og hvert sem þú ferð. Og þín verður minnst sem þess sem elskaði. Þess sem bar raunverulega umhyggju fyrir fólki.

Hver verður minningin um þig

Ef þú vaknaðir nú ekki í fyrramálið, hvar stæði fólkið þitt þá? Hverjar yrðu myndir þess af þér og minningar um þig? Þú tekur ekkert með þér þegar þú ferð, en hvað muntu skilja eftir þig? Hver verður ævisaga þín, arfleifðin sem þú skilur eftir þig? Fyrir hvað viltu raunverulega að fólkið þitt og samferðamenn minnist þín?

Þér er ætlað hlutverk

Hvaða draum átt þú annars æðri en þann að vera hluti af áætlun Guðs? Hvaða markmið átt þú háleitara en það að vera valinn í lið lífsins og fá að spila með til sigurs? Vera í sigurliðinu.

Vertu kærleikans megin og berstu trúarinnar góðu baráttu. Því að þér er ætlað hlutverk í þessum heimi. Að vera fólkinu þínu og öllum þeim sem á vegi þínum verða til blessunar og þannig Guði til dýrðar og sjálfum þér til heilla.

Gleymum ekki að þótt árin fjúki og samtíminn kunni að hafna okkur og dæma okkur úrelt. Já, jafnvel þótt ævinni ljúki, fyrr en við vildum, þá verður engin gengisfelling hjá Guði. Í hans augum er líf þitt eilífðar verðmæti. Hann elskar þig út af lífinu. Hann sem er lífið sjálft. Höfundur þess og fullkomnari.

Mundu að lífið er gimsteinn þér af Guði gefinn. Partur af auðlegð himinsins. Eilíf perla sem þér er falið að gæta og pússa, dag hvern þar til yfir lýkur.

Stöndum saman í þeirri kærleiksþjónustu sem við raunverulega vorum kölluð til og látum muna um okkur, því við skiptum máli í þessari veröld, hvert og eitt.

Með kærleikskveðju. Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og áhugamaður um lífið.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson