Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson spilar á heimavelli.
Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson spilar á heimavelli. — Morgunblaðið/Ómar
Íslandsmótið í golfi verður haldið á Akranesi næsta sumar en nú liggja fyrir drög að mótaskrá Golfsambandsins fyrir næsta ár. Var hún kynnt á formannafundi GSÍ um síðustu helgi.

Íslandsmótið í golfi verður haldið á Akranesi næsta sumar en nú liggja fyrir drög að mótaskrá Golfsambandsins fyrir næsta ár. Var hún kynnt á formannafundi GSÍ um síðustu helgi.

Golfklúbburinn Leynir fagnar á næsta ári 50 ára afmæli og því viðeigandi að halda Íslandsmótið á Skaganum. Garðavöllur á Akranesi hefur einu sinni áður verið vettvangur Íslandsmótsins í höggleik og var það fyrir áratug eða árið 2004. Heimamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson fagnaði þá sínum þriðja Íslandsmeistaratitli og Ólöf María Jónsdóttir sínum fjórða. Völlurinn þykir afar krefjandi af meistaraflokksteigum.

Gera má ráð fyrir því að erfitt verði að eiga við Birgi á sínum gamla heimavelli ef hann mætir til leiks næsta sumar. Birgir hefur nú þegar jafnað við þá Björgvin Þorsteinsson og Úlfar Jónsson í fjölda Íslandsmeistaratitla. Getur hann því bætt metið og unnið í sjöunda skipti á Jaðarsvelli þar sem hann þekkir hverja þúfu og hvern hól.

Að sama skapi má reikna með því að Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni geri tilkall til titilsins en hún er tvöfaldur Íslandsmeistari þrátt fyrir ungan aldur. kris@mbl.is