Allt stefnir í að heildarvelta Valitors á árinu 2014 verði 8 milljarðar. Þá er 80% vöxtur í tekjum erlendis á milli ára.
Allt stefnir í að heildarvelta Valitors á árinu 2014 verði 8 milljarðar. Þá er 80% vöxtur í tekjum erlendis á milli ára. — Morgunblaðið/Golli
Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is ,,Orkan, fiskurinn og ferðaþjónustan eiga sér takmörk en það sama á ekki við um upplýsingatæknina.

Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is ,,Orkan, fiskurinn og ferðaþjónustan eiga sér takmörk en það sama á ekki við um upplýsingatæknina. Upplýsingatæknin felst í hugviti og þekkingu, en hvorugt er takmörkuð auðlind,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, sem stefnir hraðbyri í að verða hugbúnaðarfyrirtæki, fremur en greiðslukortafyrirtæki.

Allt frá stofnun þess árið 1983 hafa starfsmenn Valitors þróað hugbúnaðarkerfi utan um rafrænar greiðslur. Á þeim tíma hefur Ísland færst nær því að verða seðlalaust samfélag en 80% greiðslna eiga sér stað með kortum. Nú stefnir í að greiðslukort verði óþörf því að sífellt hærra hlutfall greiðslna á sér stað í gegnum netið.

Félagið hefur allt frá árinu 2003 staðið í verkefnum á erlendri grundu, sér í lagi í Bretlandi og á Norðurlöndum. Nú stafa 30% tekna fyrirtækisins frá starfsemi erlendis en forsvarsmenn þess stefna á að það hlutfall verði komið upp í 50% á næstu tveimur til þremur árum.

Fjórðungur í hugbúnaðarþróun

„Okkar rekstur snýst fyrst og fremst um að þróa hugbúnaðarlausnir sem byggjast á þekkingu og hæfni okkar starfsfólks. Innan fyrirtækisins hefur myndast gífurlega verðmæt þekking og þar af leiðandi samkeppnishæfni. Starfsemi okkar í dag, innanlands sem utan, þrífst á þessari þekkingu.“ Viðar segir 40-45 af 160 starfsmönnum fyrirtækisins vinna að hugbúnaðarþróun.

„Viðskipti okkar á Íslandi eiga sér stað á tvennum vígstöðvum. Við hjálpum kaupmönnum að sjá um greiðslur, á netinu eða yfir búðarborðið, en við þjónustum einnig bankana, útgefendur kortanna, í gegnum nýtt kortaútgáfukerfi sem við tókum í notkun á Íslandi í fyrra. Að baki liggur fjögurra ára þróunarvinna og mikil fjárfesting, sem nemur hátt í milljarði króna.“ Hann segir stærri hluta tekna fyrirtækisins koma frá bönkunum, vegna kortaútgáfustarfsemi.

Þá gegnir félagið ólíkum hlutverkum innanlands og utan. „Hér heima sjáum við um hugbúnaðinn en bankarnir sjá um útgáfu korta og öll viðskipti við korthafa. Á erlendum mörkuðum gegnum við stærra hlutverki þar sem við sjáum um allan hugbúnað og erum ábyrgðaraðilar, eins og bankinn er almennt. Svo erum við með samstarfsaðila sem sjá um sölu og markaðssetningu gagnvart kaupmönnum erlendis.“

Vöxtur í erlendri starfsemi

Viðar segir starfsemi félagsins erlendis hafa vaxið mikið frá árinu 2007. „Við byrjuðum reyndar árið 2003 að fikra okkur áfram í netviðskiptum og að aðstoða kaupmennina á því sviði. Erlenda starfsemin er orðin sífellt stærri hluti af heildarumsvifunum. Núna koma 30% tekna okkar til vegna erlendrar starfsemi en við stefnum á að hlutfallið verði komið upp í 50% á tveimur, þremur árum.“

Viðar er nokkuð vongóður um að það markmið náist. „Það hefur verið mjög gott gengi hjá okkur á þessu ári og árlegur vöxtur í tekjum okkar erlendis er um 80%. Það lofar góðu upp á framhaldið.“

Heildarvelta Valitors fer að öllum líkindum yfir 8 milljarða á þessu ári. „Reksturinn hefur gengið vel á árinu. Það er ekki síst að þakka vexti okkar erlendis. Íslenski markaðurinn er lítill og takmarkaður vöxtur er í starfseminni hérlendis. Í okkar geira er mikilvægt að hafa nægilega mikið magn viðskipta, til að reksturinn sé hagkvæmur. Þess vegna er það eðlilegt framhald fyrir okkur að fara til útlanda.“ Bendir hann á að með því að ná fram hagkvæmni í rekstri sé hægt að bjóða kaupmönnum og bönkum góða og ódýra þjónustu.

Að sögn Viðars hafa skapast um 40 störf í tengslum við verkefni félagsins erlendis, fyrst og fremst í hugbúnaðargerð, svo og í rekstri og þjónustu.

Búa til sýndarkort í tölvum

Kortaútgáfustarfsemi Valitors í Bretlandi og á Norðurlöndum er með nýstárlegu móti þar sem ekki er um hefðbundin plastkort að ræða. ,,Starfsmenn Valitors hafa búið til hugbúnað sem býr til sýndarkort í tölvum. Kortið er notað til að greiða fyrir kaup á vöru og þjónustu. Það lifir í um þrjár sekúndur og deyr svo. Þannig er gefið út kort fyrir hverja færslu, sem er gífurlega örugg aðferð,“ útskýrir Viðar.

Kveðst hann ekki hafa orðið var við nein svik eða misnotkun vegna þessa kerfis frá því að það var tekið í notkun í Bretlandi árið 2011.

„Við höfum alltaf unnið þetta verkefni í samstarfi við Visa en við erum að byrja að vinna með Mastercard í nýju verkefni í Bretlandi.“ Valitor gerði nýlega samning við breska fyrirtækið Caxton, sem selur almenningi svokölluð fyrirframgreidd gjaldeyriskort. „Við bjóðum nú upp á lausn sem er ígildi veskis, nema hvað það er með mörgum myntum. Hægt er að nota kortið í mismunandi myntum, í mismunandi löndum og engin þörf er á að skipta út gjaldeyri. Verkefnið byggist á okkar hugbúnaðarsmíð og verður ýtt úr vör í byrjun næsta árs. Þá verða yfir 300.000 kort gefin út.“

Að sögn Viðars sækir Valitor hart fram í útgáfu fyrirframgreiddra korta enda sé mikill vöxtur í slíkum kortum. „Því er spáð að til ársins 2020 muni markaðurinn stækka um 15-20% á ári. Þessi þróun í greiðslumiðlun gerir okkur vel staðsett.“

Þekkingar- og nýsköpunarfélag

Valitor hefur á undanförnum þremur árum varið yfir milljarði í þróun hugbúnaðar. „Við fjárfestum árlega 5-6% af okkar tekjum í vöruþróun,“ greinir Viðar frá. „Við þrífumst á nýsköpun og að koma með nýjar vörur og þjónustu sem byggist á þessari hugbúnaðarþróun okkar. Valitor er klárlega þekkingarfyrirtæki. Við erum með einvala hóp af starfsfólki sem er með mikla reynslu af þessum kortaheimi. Það eru verðmæti fyrir Valitor sem fyrirtæki og fyrir hagkerfið í heild sinni.“

Viðar telur Valitor eiga fullt erindi inn á erlenda markaði. „Við höfum séð velgengni fyrirtækja á borð við Össur, Marel og Plain Vanilla, sem byggja mikið á hugviti og þekkingu á því sviði. Við höfum upp á sambærilega hæfni og þekkingu að bjóða og höfum alla burði til að ná langt.“

Greiðslur framtíðarinnar í gegnum netið

„Í dag eru 2,5 milljarðar manna tengdir við netið og innan fárra ára verður sú tala 5 milljarðar. Á sama tíma er mikill vöxtur í netviðskiptum, eða yfir 10% á hverju ári. Í hefðbundnum viðskiptum er vöxturinn ekki nema 1-3%. Okkar hugbúnaður og þjónusta byggist að miklu leyti á netviðskiptum. Við erum því mjög vel staðsett og getum nýtt okkur tækifærin sem eru að verða til í þessari þróun. Viðskipti færast ört úr hefbundnum búðum og á netið,“ segir Viðar.

„Plastkortin munu hverfa með tímanum og greiðslur framtíðarinnar verða í snjallsímanum. Snjallsímar eru satt að segja ekki bara símar heldur öflugar tölvur.“

Til marks um þessa þróun dregur Viðar upp símann og sýnir blaðamanni nýtt smáforrit. „Með þessu appi get ég greitt fyrir vörur og þjónustu með símanum. Að sama skapi erum við að innleiða snertilaus kort sem þarf aðeins að rétta upp að posanum. Þau eru núna í prófun hjá 300 manns.“ Hann segir Valitor vinna að því að innleiða posalausn hjá kaupmönnum og að bankarnir muni bráðlega bæði gefa út plastkort með þar til gerðri örflögu og setja það upp í síma viðskiptavina. „Ég trúi reyndar meira á símalausnina og tel að framtíðin liggi þar.“

Valitor styðst við svokallaða NFC-tækni, sem er sú sama og Apple Pay notar. „Ef Apple velur hana, þá eru góðar líkur á því að hún verði vinsæl. Við teljum okkur hafa veðjað á réttu tæknina.“

Styttist í að henda megi veskinu

Á næstu mánuðum munu bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum upp á að greiða með síma. „Þá er hægt að skilja veskið eftir heima,“ segir Viðar. „Endanlegi tilgangurinn er að losa sig við veskið og vera bara með snjalltæki sem sér um allar greiðslur. Við erum í raun þegar orðin seðlalaust samfélag þar sem rafræn viðskipti blómstra.

Þróunin er sú að fólk er nettengt alls staðar og getur verslað á netinu í gegnum síma eða iPad hvar og hvenær sem er. Við veitum kaupmönnum lausnir þannig að þeir geta nýtt sér þessa breytingu á viðskiptaháttum. Kaupmaður sem rekur bara verslun á Laugavegi eða á Oxford Street getur aukið möguleika sína á viðskiptum í gegnum netið. Verslun alls staðar í heiminum tekur mið af þessari þróun og samstarf kortafyrirtækjanna við verslun hefur breyst mikið á undanförnum árum.“ Bendir hann á að Valitor færsluhirði fyrir um 20.000 kaupmenn erlendis og að félagið fái um 200-300 nýja kaupmenn í viðskipti á mánuði hverjum í færsluhirðingu á Írlandi.

Hann segir fjölgun netnotenda bjóða upp á mikla möguleika. „Lítil fyrirtæki geta selt vörur sínar á netinu og náð til annars og stærri kaupendahóps en ella. Ýmis tækifæri eru að opnast fyrir litla kaupmanninn. Okkar áherslur í útlöndum hafa verið að þjónusta litla og millistóra kaupmenn. Við eltumst ekki við stærstu fyrirtækin og sköpum okkur sérstöðu þannig.“

Hann bendir þó á að greiðslur í gegnum netið þurfi að ganga hratt og örugglega fyrir sig, annars hætti fólk við að greiða með rafrænum hætti. „Ef kerfið er hratt, þægilegt og öruggt, eru meiri líkur á að fólk eigi viðskipti á netinu. Það er því áskorun kortafyrirtækja að gera viðskiptin einföld, þægileg og örugg þannig að fólk lendi ekki í hindrunum þegar það kaupir á netinu.“

Viðar kveðst ekki geta séð fyrir hvar tækniþróunin endi. „Í það minnsta er víst að mikil gróska er í gangi. Ég hef tekið eftir mikilli fjölgun markaðstorga í netheimum, sem eru nú að ryðja sér til rúms. Það eru netsvæði þar sem seljendur og kaupendur eru tengdir saman. Eins hef ég tekið eftir aukinni sérhæfingu á þessum markaðstorgum. Einn angi af þessari þróun eru síður á borð við Uber og Lyft, þar sem einstaklingar geta pantað sér bílfar með öðrum einstaklingum í gegnum smáforrit.“

Fjölmargir erlendir samstarfsaðilar

Valitor hóf nýlega samstarf við bandaríska fyrirtækið Stripe og sænska fyrirtækið Klarna. „Þessi fyrirtæki leiða þróun greiðslumiðlunar á netinu. Klarna býður meðal annars upp á kortatengda þjónustu og er fyrirmynd Netgíró á Íslandi. Stripe einfaldar viðskipti á netinu þannig að viðskiptavinir geti stundað viðskipti með aðgengilegum hætti. Stripe vinnur meðal annars með Apple, Twitter og Facebook. Við veitum þeim tæknilega þjónustu og okkur þykir mjög gaman að vinna með þeim.“

Valitor þjónustar einnig aðra samstarfsaðila sína, sem sjá um sölu og markaðssetningu korta gagnvart korthöfum. „Í Bretlandi þjónustum við margar helstu ferðaskrifstofur og flugfélög landsins og hjálpum þeim með greiðslur sín á milli. Með því móti leysum við af hólmi hefðbundna banka og veitum viðskiptavinum okkar hagkvæmari og ódýrari þjónustu, sem er á sama tíma hentug og einföld.“

Höftin draga þrótt úr fyrirtækjum

Gjaldeyrishöftin berast í tal. „Mín skoðun er sú að þau eru almennt heftandi fyrir atvinnulífið á Íslandi, ekki síst fyrir þau sem eru að byggja upp starfsemi erlendis. Það hlýtur að vera forgangsmál fyrir stjórnvöld að afnema þessi höft sem fyrst, því fyrirtækin skapa störf í landinu.“

Hann segir ýmislegt þyngra í vöfum vegna haftanna. „Í sumum tilvikum þurfum við að fá heimild Seðlabankans til ýmissa athafna. Höftin takmarka t.d. mjög möguleika fyrirtækja til gengisvarna. Þetta er hvorki gott né æskilegt ástand og vonandi tekst stjórnvöldum að vinna úr því sem fyrst, þannig að það verði ekki við lýði til lengri tíma.“

Öryggismálin á oddinn

Valitor hefur þróað rafrænt eftirlitskerfi til þess að tryggja öryggi korthafa. „Þessi snjallhugbúnaður hjálpar okkur að grípa inn í ef óeðlilegar færslur eiga sér stað. Hugbúnaðurinn tekur eftir óeðlilegu mynstri, til dæmis ef 5-10 færslur með sömu upphæðinni eiga sér stað með reglulegu millibili. Við höfum samband við korthafa finnist okkur hegðunin óeðlileg, látum þá vita og spyrjum hvort allt sé í lagi. Í mörgum tilvikum höfum við komið í veg fyrir kortasvik. Við höfum náð miklum árangri og höfum dregið úr tjóni um tugi milljóna frá því að við byrjuðum með þetta fyrir nokkrum árum. Það er allra hagur að koma í veg fyrir svikafærslur,“ segir Viðar.

Hann segir að eftir margra ára vinnu hafi tekist að leysa öll helstu öryggismál tengd rafrænum greiðslum. Bendir hann á að greiðslur í síma séu að mörgu leyti öruggari en með korti. „Ef þú týnir símanum geturðu hringt í símafyrirtækið og þau loka símanum samstundis. Aftur á móti getur tekið lengri tíma að láta loka kortinu. Símalokun er þannig almennt hraðvirkari en kortalokun.“

Rafræn viðskipti spara tvo milljarða

Að sögn Viðars bendir mikil kortanotkun Íslendinga til þess að þeir vilji vera seðlalaust samfélag. Þá fylgi talsverður kostnaður seðlum, svo sem vegna flutninga, prentunar og umsýslu. Því séu rafræn viðskipti mun hagkvæmari kostur. „Gerðar hafa verið fjölmargar úttektir í nágrannalöndum og ein slík var gerð á Íslandi árið 2011. Meginniðurstaða þeirra er sú að það sé 2-3% hagkvæmara að vera með kort en seðla.“ Bendir hann á að á Íslandi eigi sér stað 100 milljón færslur á ári. „Þá munar allt að tveimur milljörðum á ári fyrir Ísland að vera með rafræn viðskipti í stað seðla. Það er hagur þjóðarinnar að byggja upp rafræn viðskipti og viðhalda þeim því það er langhagkvæmasta leiðin til að stunda greiðslumiðlun.“