Æfingasvæði Brynjar hverfur nú úr Básum og fer á eitt flottasta æfingasvæði sem hann hefur séð.
Æfingasvæði Brynjar hverfur nú úr Básum og fer á eitt flottasta æfingasvæði sem hann hefur séð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Brynjar Eldon Geirsson er á leið til Þýskalands til þess að taka við starfi íþróttastjóra hjá golfklúbbi í nágrenni Berlínar.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Brynjar Eldon Geirsson er á leið til Þýskalands til þess að taka við starfi íþróttastjóra hjá golfklúbbi í nágrenni Berlínar. Brynjar mun innan tíðar ljúka störfum sínum fyrir Golfklúbb Reykjavíkur en þar hefur hann gegnt starfi íþróttastjóra undanfarin ár.

Netmiðilinn Kylfingur.is greindi fyrst frá því á dögunum að Potsdam yrði næsti áfangastaður Brynjars en Potsdam er í næsta nágrenni Berlínar. Spennandi verkefni virðist bíða Brynjars sem áður hefur dvalið í Þýskalandi en þar tók hann PGA-golfkennaragráðu á sínum tíma. Hann mun halda utan snemma á næsta ári.

„Þetta er rosalega skemmtilegur klúbbur. Æfingaaðstaðan er með því betra sem ég hef séð og hef ég komið víða í Evrópu. Menn ætla sér stóra hluti í þessum klúbbi og eru betur farnir að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru með í höndunum,“ sagði Brynjar þegar Morgunblaðið hafði samband við hann.

Vinsælasti völlur í Berlín

Brynjar verður með talsverð mannaforráð á nýja vinnustaðnum en undanfarið hafa níu golfkennarar starfað við klúbbinn sem heitir: Märkischer Golfclub Potsdam. Nú virðast Þjóðverjarnir vera að hreinsa til og skipuleggja starfið upp á nýtt. „Í fyrra voru golfkennararnir hjá klúbbnum níu talsins sem er ansi mikið. Þá voru spilaðir 54 þúsund hringir en til samanburðar er það svipað því sem spilað er á hverju ári á báðum völlum Golfklúbbs Reykjavíkur samanlagt. Mér skilst á kollega mínum ytra að þarna sé um að ræða mest spilaða golfvöllinn á Berlínarsvæðinu,“ útskýrði Brynjar en í klúbbnum eru um 1.400 meðlimir og komast ekki fleiri að. Klúbburinn fær mikla aðsókn frá öðrum kylfingum sem greiða vallargjald í hvert skipti og tekjuflæðið er því gott.

Uppbygging á svæðinu

Brynjar segir ýmislegt annað spennandi vera að gerast á svæðinu sem gæti styrkt stöðu klúbbsins enn frekar. „Mikil uppbygging á sér nú stað á svæðinu. Segja má að Potsdam sé út frá Berlín eins og Mosfellsbær er út frá Reykjavík, ef við hugsum þetta þannig. Svæðið er stundum kallað sumardvalarstaður ríka fólksins í Þýskalandi. Nýbyggingarnar gera það að verkum að hverfið færist sífellt nær borginni.“

Brynjar sér fram á að barna- og unglingastarfið hjá klúbbnum gæti orðið kraftmikið og áhugavert ef vel tekst til. „Uppbyggingin er hafin. Markmiðin hjá klúbbnum eru skýr. Vilji er til þess að búa til eftirsóknarverða golfþjálfun fyrir börn og unglinga á Berlínarsvæðinu. Auk þess þarf að sinna klúbbmeðlimum og hinum almenna kylfingi. Ég þarf að hafa heildarsýn yfir kennsluna og setja saman þjálfarateymi eftir því hvar styrkleikar kennaranna liggja.“

Langaði aftur til Þýskalands

Brynjar segir það hafa blundað í sér og eiginkonunni að flytja einhvern tíma með fjölskylduna aftur út til Þýskalands. Þetta atvinnutilboð hafi smellpassað fyrir hann og komið inn á borð til hans á réttum tíma.

„Ég hef verið nokkuð lengi í mínu starfi í Grafarholtinu. Ég held almennt séð að ekki sé heppilegt að þjálfarar séu of lengi á sama stað en við getum sett Sir Alex í sviga. Mig og frúna hefur alltaf langað aftur út. Með þessu fer ég út fyrir þægindarammann og tekst á við meira krefjandi hluti í starfi en hingað til. Þó Golfklúbbur Reykjavíkur sé stærstur hérna heima þá er þetta skref upp á við. Þarna er golftímabilið tólf mánuðir en ekki sex, svo dæmi sé tekið, auk þess eru þetta aðrar launatölur en hér heima. Flottir hlutir eru að gerast í golfinu á Íslandi, eins og betra skipulag í kringum landsliðsmál. Einnig er fagmennskan meiri hjá klúbbunum sjálfum,“ sagði Brynjar Eldon Geirsson ennfremur.

Brynjar Eldon Geirsson
» Starfaði áður í Þýskalandi um leið og hann tók PGA-golfkennararéttindin.
» Hefur síðasta áratuginn verið íþróttastjóri. Fyrst hjá GKG og síðustu árin hjá GR.
» Brynjar á að baki fjölda leikja í efstu deild í handbolta með FH.
» Bróðir hans, Logi, vann til sifurverðlauna með landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008.
» Faðir hans, Geir Hallsteinsson, lék sem atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi með Göppingen.
» Afi hans, Hallsteinn Hinriksson, var gjarnan kallaður faðir handboltans á Íslandi.